Fara í efni

Tónleikar og sýningar á Sæluviku

04.05.2017
Prúðbúnar dömur á setningu Sæluviku 2017

Sæluvikan er í fullum gangi og margt í boði á hverjum degi fram á sunnudag. En dagskráin í dag og á morgun býður upp á tónleika og sýningar af ýmsu tagi.

Í dag er opin sölusýningin á verkum notenda Iðjunnar í Landsbankanum, sýningin í Safnahúsinu, myndlistarsýningin í Gúttó og hjá byggðasafninu í Glaumbæ.  Kl 17 eru fjáröflunartónleikar í Menningarhúsinu Miðgarði, Börn fyrir börn, þar sem börn og ungmenni koma fram og safna fyrir Iðjuna og nýjan menningarsjóð sem mun veita styrki til menningarstarfs ungu kynslóðarinnar í framtíðinni.  

Verkið Líkamstjáning umvafin náttúru verður sýnt í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra kl 19 og Kvennakórinn Sóldís verður með tónleika undir stjórn Helgu Rósar Indriðadóttur í Höfðaborg á Hofsósi kl. 20:30.  

Á morgun, föstudag 5. maí, verða allar sýningarnar opnar sem í boði eru þessa Sæluvikuna. Kl 16:30 og 18:00 eru vortónleikar Tónlistarskóla Skagafjarðar í Miðgarði og kl 17:00 hefst fyrirtækjadagur á skíðasvæði Tindastóls. Eru fyrirtæki hvött til að bjóða starfsmönnum sínum í fjallið en dagurinn er fjáröflunardagur og rennur ágóðinn til uppbyggingar skíðasvæðisins.

Leikfélag Sauðárkróks sýnir gamanleikinn, Beint í æð, í Bifröst kl. 20:00 og kl. 21:00 hefjast tónleikar í Ljósheimum, Jóhanna Guðrún í nærmynd. Það er söngdívan Jóhanna Guðrún sem flytur sín uppáhaldslög og segir skemmtilegar sögur í bland.

Góða skemmtun á Sæluviku!