Fara í efni

Endurskoðun aðalskipulags Skagafjarðar

22.05.2024

Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti á 27. fundi sínum þann 15. maí 2024 að auglýsa skipulags- og matslýsingu fyrir endurskoðun á aðalskipulagi Skagafjarðar skv. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og matslýsingin fyrir endurskoðun aðalskipulags Skagafjarðar dags. apríl 2024, unnin af VSÓ ráðgjöf, gerir grein fyrir helstu forsendum og áherslum komandi skipulagsvinnu, valkostum til skoðunar, nálgun umhverfismats og kynningarmálum. Endurskoðunin er m.a. tilkomin vegna sameiningar Akrahrepps og sveitarfélagsins Skagafjarðar 29. maí 2022 og fjölbreyttra áskorana sem felast í byggðaþróun ásamt nýjum áskorunum vegna loftslagsmála. Skipulagsvinnan mótar stefnu um hagkvæma nýtingu lands, samgöngur og gæði byggðar. Jafnframt felur skipulagið í sér mótun stefnu í umhverfismálum og hvernig skipulag getur stuðlað að kolefnishlutleysi í samræmi við markmið Íslands þar um og lög nr. 70/2012 um loftslagsmál. Nýtt endurskoðað aðalskipulag sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 var staðfest 4. apríl 2022. Nýtt aðalskipulag sameinaðs sveitarfélags Skagafjarðar og Akrahrepps mun byggja á þeirri vinnu sem unnin var í tengslum við þá endurskoðun. Á kynningartíma skipulagslýsingar er óskað eftir ábendingum, sjónarmiðum og athugasemdum frá íbúum og öðrum hagsmunaaðilum, sem að gagni gætu komið í þeirri skipulagsvinnu sem framundan er. Jafnframt er leitað til lögboðinna umsagnaraðila á þessu stigi og haft samráð við Skipulagsstofnun um umfang og áherslur við mat á umhverfisáhrifum aðalskipulagsins.

Skipulags- og matslýsingin er auglýst frá 22. maí til og með 13. júní 2024. Hægt er að skoða skipulags- og matslýsinguna í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar á www.skipulagsgatt.is undir málsnúmerinu 613/2024. Skipulags- og matslýsingin mun jafnframt liggja frammi til kynningar í Ráðhúsinu, Skagfirðingabraut 17-21, Sauðárkróki á skrifstofutíma frá kl. 10-12 og kl. 12:30-15. Einnig er hægt að nálgast gögnin hér fyrir neðan.

Þau sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum varðandi skipulags- og matslýsinguna. Umsagnir skulu vera skriflegar og berast í gegnum Skipulagsgáttina www.skipulagsgatt.is í síðasta lagi 13. júní 2024. Einnig er hægt að skila inn umsögnum til skipulagsfulltrúa í afgreiðslu Ráðhússins, Skagfirðingabraut 17-21, 550 Sauðárkróki eða á netfangið skipulagsfulltrui@skagafjordur.is.

Umsagnir um skipulagsmál sveitarfélagsins teljast til opinberra gagna. Vakin er athygli á því að nöfn og umsagnir koma fram í fundargerðum Skipulagsnefndar og eru aðgengileg opinberlega á Skipulagsgáttinni. Persónuupplýsingar eru aðeins nýttar í þeim tilgangi að vinna úr athugasemdum og auðkenna sendanda.

Skipulagsfulltrúi Skagafjarðar

Skipulags- og matslýsing