Elín Jónsdóttir ráðin í starf aðalbókara
Elín Jónsdóttir hefur verið ráðin í starf aðalbókara hjá sveitarfélaginu. Aðalbókari ber ábyrgð á að bókhald sveitarfélagsins og stofnana þess sé fært í samræmi við lög og reglur og fjárhagsáætlanir hverju sinni. Aðalbókari tryggir réttmæti fjárhagsupplýsinga og tekur þátt í greiningu þeirra ásamt undirbúningi upplýsinga fyrir stjórnendur sveitarfélagsins, nefndir þess og ráð.
Elín lauk MLM námi í forystu og stjórnun með áherslu á þjónandi forystu frá Háskólanum á Bifröst árið 2022 en einnig hefur hún lokið diplómanámi í verkefnisstjórnun frá Háskólanum í Reykjavík og BS prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri. Því til viðbótar hefur Elín lokið B.Ed. prófi í grunnskólakennarafræðum.
Undanfarin níu ár hefur Elín starfað við bókhald hjá KPMG og síðar ECIT Bókað ehf. Áður starfaði hún hjá Kaupfélagi Skagfirðinga fyrst sem aðalbókari og síðar forstöðumaður bókhalds- og launavinnslu. Á árunum 2013-14 starfaði Elín sem bókari og við kennslu í rekstrarhagfræði við Háskólann á Hólum. Þar áður starfaði hún á Austurlandi hjá Alcoa Fjarðaráli sem sérfræðingur í mannauðsteymi og sem grunnskólakennari hjá Fjarðabyggð.
Elín mun hefja störf á komandi mánuðum og bjóðum við hana hjartanlega velkomna til starfa og óskum henni velfarnaðar í sínum störfum.