Fara í efni

Dauðir villtir fuglar og hræ - Upplýsingar frá MAST

25.04.2022
Mynd fengin hjá ruv.is. Mynd: Edda Björk Arnardóttir.

Þegar villtur fugl finnst dauður, skal hafa samband við MAST, nema ef augljóst er að hann hafi drepist af slysförum. Best er að tilkynna með því að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar www.mast.is, en líka er hægt að hringja í síma 530 4800 á opnunartíma eða senda tölvupóst á netfangið mast@mast.is. MAST metur hvort taka skuli sýni úr fuglinum. Ef taka þarf upp dauðan fugl skal það gert með einnota hönskum og hann settur í plastpoka eða með því að stinga hendi í plastpoka og taka fuglinn upp með pokanum og draga pokann svo yfir fuglinn og loka fyrir.

Á undanförnum dögum hefur Matvælastofnun borist mikið af tilkynningum um dauða villta fugla víða á landinu. Stofnunin fer yfir allar ábendingar og metur hvort ástæða sé til að taka sýni. Matið byggir m.a. á staðsetningu, fuglategund og tíma frá því fuglinn fannst.

Fólki er bent á að gæta ítrustu sóttvarna ef það þarf að handleika villta fugla, hvort sem þeir eru dauðir eða lifandi. Hræ skulu annað hvort látin liggja óhreyfð eða tekin í plastpoka án þess að þau séu snert með berum höndum.

Það skal tekið fram að engin dæmi eru um að fólk smitist af fuglaflensu við neyslu eggja eða fuglakjöts, hvort sem er af alifuglum eða villtum fuglum.

Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Matvælastofnunar um fuglaflensu meða annars undir spurningar og svör þar.