Dagur íslenskrar tungu

Dagskrá helguð Huldu skáldkonu á degi íslenskrar tungu
Dagskrá helguð Huldu skáldkonu á degi íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu er í dag 16. nóvember, fæðingardagur rómantíska skáldsins Jónasar Hallgrímssonar en hann fæddist árið 1807. Jónas lagði mikið upp úr fallegu máli  og varðveislu íslenskrar tungu. Auk þess að vera rómað skáld á umbrotatíma í íslensku samfélagi, sjálfstæðisbaráttunni, var hann náttúrufræðingur og rannsakaði íslenska náttúru. Jónas og félagar hans, Fjölnismenn, gáfu út tímaritið Fjölni þar sem þeir héldu á lofti málfræðistefnu sinni. Hann stundaði einnig þýðingar og þýddi meðal annars stjörnufræðirit þar sem hann þurfti að nota málfræðihæfileika sína og búa til nýyrði. Mörg falleg orð eins og aðdráttarafl, þyngdarlögmál, sporbaugur og fleiri eru úr smiðju Jónasar.

Í tilefni dags íslenskrar tungu verður dagskrá á Löngumýri eins og verið hefur undanfarin ár og nú er það skáldkonan Hulda sem verður fjallað um. Nemendur 7. bekkjar Varmahlíðarskóla lesa upp og Skagfirski kammerkórinn flytur lög við ljóð Huldu sem hét réttu nafni Unnur Benediktsdóttir og var fædd árið 1881. Ljóð Huldu sem í daglegu tali er kallað, Hver á sér fegra föðurland, var annað tveggja sem fengu fyrstu verðlaun í ljóðasamkeppni vegna stofnunar lýðveldisins á Þingvöllum árið 1944.

Aðgangur er ókeypis í Löngumýri í kvöld.