Dagur íslenskrar tungu

Skáldið og fræðimaðurinn Jónas Hallgrímsson
Skáldið og fræðimaðurinn Jónas Hallgrímsson

Dagur íslenskrar tungu er í dag 16. nóvember, fæðingardagur rómantíska skáldsins Jónasar Hallgrímssonar en hann fæddist árið 1807 og því eru 210 ár frá fæðingardegi hans í dag. Jónas var ekki bara skáld, hann var líka náttúrfræðingur og rannsakaði íslenska náttúru en hann lauk námi sínu í náttúruvísindum frá Hafnarháskóla vorið 1838. Hann var einnig einn af Fjölnismönnum sem störfuðu í Kaupmannahöfn og gáfu út ritið Fjölni, hann þýddi mikið á íslensku og var mikill nýyrðasmiður.

Í tilefni dagsins ætla nemendur Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra að þreyta sund í sundlaug Sauðárkróks til heiðurs Jónasi en hann var áhugamaður um sund og bjó til ný orð um allt sem viðkom sundi s.s. að troða marvaðann. Nemendurnir hefja sundið kl 10 og er öllum velkomið að  fylgjast með. 

Kl 20 er dagskrá í Löngumýri helguð skáldinu Halldóri Kiljan Laxness þar sem fram koma Skagfirski kammerkórinn, Kór eldri borgara og nemendur 7. bekkjar Varmahlíðarskóla. Dagskráin hefst kl 20 og er aðgangur ókeypis.