Fara í efni

Dagur íslenskrar tungu 16. nóv 2013

23.10.2013
Jónas Hallgrímsson

Dagur íslenskrar tungu verður laugardaginn 16. nóv á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, rómantíska skáldsins sem lagði mikið uppúr fallegu máli  og varðveislu íslenskrar tungu. Auk þess að vera rómað skáld á umbrotatíma í íslensku samfélagi, sjálfstæðisbaráttunni, var hann náttúrufræðingur og rannsakaði íslenska náttúru. Jónas og félagar hans, Fjölnismenn, gáfu út tímaritið Fjölni þar sem þeir héldu á lofti málfræðistefnu sinni. Hann stundaði einnig þýðingar og þýddi meðal annars stjörnufræðirit þar sem hann þurfti að nota málfræðihæfileika sína og búa til nýyrði. Mörg falleg orð eins og aðdráttarafl, þyngdarlögmál, sporbaugur og fleiri eru úr smiðju Jónasar.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hvetur skóla og aðrar stofnanir, sem og landsmenn alla, til að nota 16. nóv og dagana þar í kring til að gera íslenskri tungu hátt undir höfði.  Hægt er að minnast dagsins með ýmsu móti, t.d. með upplestri, leikþáttum, útgáfu, verðlaunum, viðurkenningum, bóka- og rithöfundakynningum og tónlistarflutningi.

Stofnun Árna Magnússonar hefur verið falið að annast ýmsa verkþætti í tengslum við viðburði á þessum degi og þeir sem vilja kynna viðburði sína á vef dags íslenskrar tungu eru hvattir til að senda upplýsingar á netfangið hes26@hi.is. Þangað má einnig beina fyrirspurnum um hvaðeina sem varðar hátíðisdaginn.

Minnum á vefinn www.menntamalaraduneyti.is/menningarmal/dit/

og Facebook-síðu dags íslenskrar tungu.