Fara í efni

Dagur íslenskrar tungu 16. nóv

14.11.2014
Hallgrímur Pétursson

Dagur íslenskrar tungu, fæðingardagur okkar ástsæla skáld og náttúrufræðings Jónasar Hallgrímssonar, er á sunnudaginn. Jónas lifði á 19. öldinni og samdi mikið af ljóðum og verkum í óbundnu máli. Hann var einn af Fjölnismönnum og fylgdi rómantísku stefnunni sem þá var hvað vinsælust.

Annað mikið skáld verður til umræðu á Löngumýri á degi íslenskrar tungu, Hallgrímur Pétursson, sem jafnan er talinn vera fæddur í Gröf á Höfðaströnd árið 1614. Hann mun vera uppalinn á Hólum að mestu leyti en faðir hans, Pétur Guðmundsson, var hringjari á staðnum.  Hallgrímur fór til náms til Kaupmannahafnar í Vorrar frúar skóla og var m.a. fenginn til að hressa upp á kristindóm þeirra Íslendinga sem leystir voru úr ánauð eftir Tyrkjaránið sem framið var 1627. Eftir heimkomu hans til Íslands 1637 vann hann fyrst á Suðurnesjunum þar sem hann og kona hans Guðríður Símonardóttir munu hafa dregið fram lífið  við sára fátækt. Árið 1644 er hann síðan vígður til prests á Hvalnesi og vænkaðist þá hagur þeirra hjóna. Hallgrími var síðan veitt brauðið í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd 1651. Hallgrímur lést árið 1674 en hafði látið af prestskap nokkru áður vegna heilsubrests.

Í ár eru 400 ár liðin frá fæðingu Hallgríms Péturssonar og hefur þess verið minnst með ýmsu móti m.a. á Hólum . Næstkomandi sunnudag á degi íslenskrar tungu koma fram nemendur 7. bekkjar Varmahlíðarskóla ásamt Kammerkór Skagafjarðar og kór eldriborgara á Löngumýri með dagskrá um skáldið í tali og tónum sem hefst kl 16. Hallgrímur er einna þekktastur fyrir trúarlegan kveðskap og ber þar hæst Passíusálmana og jarðarfararsálminn Allt eins og blómstrið eina eða sálminn um blómið. Hann orti einnig mikið af veraldlegum kveðskap m.a. ádeilu á samtíma sinn sem hann nefndi Aldarhátt.