Dagur íslenskrar tungu

Skáldið Bólu-Hjálmar
Skáldið Bólu-Hjálmar

Í dag er dagur íslenskrar tungu móðurmálsins okkar og fæðingardagur rómantíska skáldsins Jónasar Hallgrímssonar en hann var fæddur árið 1807. Jónas var ekki bara skáld, hann var líka náttúrufræðingur og rannskaði íslenska náttúru en hann lauk  námi í náttúruvísundum frá Hafnarháskóla vorið 1838. Jónas hafði mikinn áhuga á móðurmálinu og var ötull við nýyrðasmíði til að forðast tökuorð m.a. þýddi hann bók um stjörnufræði og þar má finna mikinn fjölda nýyrða s.s. reikistjarna og sporbaugur.

Margir skólar og stofnanir víðsvegar um landið halda dag íslenskrar tungu hátíðlegan og er Skagafjörður þar á meðal.

Í kvöld er dagskrá í tilefni dags íslenskrar tungu í Löngumýri en það eru 7. bekkur Varmahlíðarskóla, Kammerkór Skagafjarðar og Kór eldri borgara sem standa fyrir henni. Þetta er orðin árlegur viðburður og í ár snýst dagskráin um Bólu-Hjálmar eða Hjálmar Jónsson skáld. Hjálmar var fæddur í Eyjafirði 29. september 1796 en fluttist í Skagafjörð 1820 og bjó lengi á Bólu í Blönduhlíð sem hann er kenndur við. Hjálmar var fjölhæft skáld og orti á kjarnyrtri íslensku. Hann var einnig smiður góður og eru nokkrir gripir eftir hann í eigu Byggðasafns Skagfirðinga. Dagskráin hefst í kvöld kl 20.