Fara í efni

Daggæsla barna í leikskólum og á einkaheimilum í Skagafirði

15.02.2017
Auglýst var eftir dagforeldrum í Sjónhorninu 15. febrúar 2017.

Eins og mörgum er kunnugt um skapast iðulega vandræði hjá foreldrum ungra barna síðla hausts og eftir hver áramót og fram að næstu inntöku í leikskóla. Aðalinntaka barna í leikskólann er í ágúst og september ár hvert og síðan eftir því sem pláss í skólunum losna. Það eru þó aldrei mörg pláss sem losna eftir að aðalinntöku lýkur og því skapast vandkvæði með vistun barna sem verða eins árs eftir þann tíma og jafnvel vegna enn yngri barna en eins árs, enda hefur orðið æ erfiðara að fá dagforeldra til starfa. Ítrekað hefur verið auglýst eftir dagforeldrum til starfa en án mikils árangurs.

Staðan í dagvistarmálum á Sauðárkróki virðist ætla að verða mjög erfið á þessu ári. Miðað við stöðuna þegar þetta er skrifað er búið að skrá 31 barn á biðlista sem verða eins árs á árinu og viðbúið er að fleiri börn eigi eftir að bætast við þar sem misjafnt er hve snemma foreldrar skrá börn sín. Eins og listinn er í dag þá eru 10 börn nú þegar orðin eins árs. Til viðbótar þessum 10 börnum verða 12 börn eins árs á tímabilinu mars-maí og níu börn til viðbótar verða orðin eins árs á tímabilinu júní-september. Samtals verða því 31 börn orðin eins árs við inntöku í leikskólann í haust.  Gert er ráð fyrir að hægt verði að taka inn 20 börn í haust og því ljóst að ekki verður hægt að taka inn öll börn. Því er útlit fyrir að 11 börn fá þá ekki leikskólavist í haust. Þetta þýðir að barn nr. 21 á biðlista verður orðið 27 mánaða, eða tveggja ára og þriggja mánaða, að öllu óbreyttu, þegar það kemst inn í leikskóla.

 

Dagforeldrar:

Dagforeldrar starfa sjálfstætt og vistun barns hjá dagmóður byggist á samningi milli foreldranna og dagforeldrisins. Þáttur sveitarfélags í dagvistun á einkaheimilum er að veita dagforeldrum starfsleyfi og að hafa eftirlit með starfsemi þeirra. Sveitarfélagið niðurgreiðir foreldrum vistun hjá dagforeldrum og er miðað við að foreldrar greiði sambærilegt gjald og þeir myndu greiða fyrir leikskólavist.

Dagforeldrar hafa leyfi til að hafa að hámarki fimm börn í vistun að eigin börnum meðtöldum. Þegar þetta er ritað starfa tveir dagforeldrar nú á Sauðárkróki með samtals níu börn í vistun. Til að anna biðlista þyrftu starfandi dagforeldrar að vera á bilinu 5-6. Ekkert útlit er fyrir að auðveldara verði að fá dagforeldra til starfa miðað við núverandi stöðu á vinnumarkaði.

Sveitarfélagið hefur áform um aðgerðir til að gera starf dagforeldra meira aðlaðandi og vilja ræða við þær/þá sem hafa áhuga á þessu starfi. Þau sem áhugasöm eru að vita meira um málið er bent á að hafa samband við Gunnar M. Sandholt, sandholt@skagafjordur.is eða Hrafnhildi Guðjónsdóttur, hrafnhildurg@skagafjordur.is eða í síma 455 6000.

 

Ömmuleyfi og au-pair

Samkvæmt reglum sveitarfélagsins er heimilt að niðurgreiða vistun hjá nákomnum ættingjum (ömmuleyfi) og hjá aupair starfsmönnum. Skv. verklagsreglum þarf viðkomandi ættingi eða foreldrar sem hafa au-pair í sinni þjónustu að framvísa kvittun fyrir að greiðsla sé innt af hendi. Hvorug þessara lausna hafa verið nýttar undanfarin ár þrátt fyrir að bent hafi verið á möguleikann.

 

Staða leikskólamála austan Vatna og í Varmahlíð:

Í Tröllaborg er enginn biðlisti. Á Hofsósi eru 9 börn í leikskólanum og útlit fyrir að þau verði 10 frá og með næsta hausti. Ekki er talið æskilegt að bæta þar við fleiri börnum eins og staðan er í húsnæðismálum þar. Á Hólum byrjuðu 13 börn í haust, fækkaði um eitt um áramótin og eitt til viðbótar hættir um miðjan mars. Þar væri hægt að bæta við allt að 13 börnum. Útliti er fyrir að 10 börn verði á Hólum frá og með næsta hausti en eins og kunnugt er er nokkuð flökt á fjölda barna þar enda ræðst íbúafjöldi og samsetning talsvert af nemendum háskólans hverju sinni.

Í Birkilundi er verið að fylla í þau pláss sem laus voru þar. Þá verða börnin orðin 39 og ekki hægt að bæta við börnum þar.

Staðan í dagvistunarmálum var rædd á fundi fræðslunefndar, fimmtudaginn 9. febrúar. Eðlilega hafa nefndarmenn og starfsmenn fjölskylduþjónustu áhyggjur af stöðu mála og mikill vilji er til að reyna að finna viðeigandi lausn fyrir foreldra. Ýmsir fletir og leiðir voru ræddar sem starfsmönnum var falið að vinna áfram með og eftirfarandi bókun gerð:

 

,,Staða leikskóla- og dagforeldramála á Sauðárkróki kynnt. Samþykkt að auglýsa eftir dagforeldrum til starfa. Jafnframt er samþykkt að leita allra leiða til að leysa þann vanda sem upp er kominn í dagvistunarmálum m.a. með því að gera starf dagforeldra fýsilegra.“