Byggðasafn Skagfirðinga hlýtur Íslensku safnaverðlaunin 2016

Sigríður Sigurðardóttir tekur við Íslensku safnaverðlaununum 2016 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum…
Sigríður Sigurðardóttir tekur við Íslensku safnaverðlaununum 2016 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag.

Byggðasafn Skag­f­irðinga hlaut í dag Íslensku safna­verðlaun­in er þau voru af­hent í 10. sinn við hátíðlega at­höfn á Bessa­stöðum. Í rök­stuðningi dóm­nefnd­ar kem­ur fram að starf­semi safns­ins sé metnaðarfull og yf­ir­grips­mik­il, þar sem hlúð er að hverj­um þætti safn­a­starfs­ins á fag­leg­an hátt. Verðlauna­féð nem­ur einni millj­ón króna.

Það var Sigríður Sigurðardóttir, safnstjóri, sem tók við verðlaununum frá hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Verðlaunin eru mikill heiður fyrir safnið og starfsfólk þess og viðurkenning á því metnaðarfulla starfi sem þar er unnið. 

Íslensku safnaverðlaunin eru veitt annað hvert ár og er ætlað að vekja athygli á því sem vel er gert á íslenskum söfnum. Þeim er jafnframt ætlað að efla faglegan metnað og vera hvatning til að kynna menningu þjóðarinnar á framsækinn og áhugaverðan hátt. Verðlaunin eru veitt einu safni sem þykir hafa skarað fram úr og vera til eftirbreytni. 

Höfuðstöðvar Byggðasafns Skagfirðinga og aðal sýning þess eru í Glaumbæ, en skrifstofa Fornleifadeildar, aðstaða til rannsókna og megin geymsla safnsins er í Minjahúsinu á Sauðárkróki. Þar er einnig önnur fastasýninga safnsins og sérsýningar. Megin sýning Byggðasafnsins „Mannlíf í torfbæjum á 19. öld“ var opnuð þann 15. júní 1952 í Glaumbæ. Föst búseta var í bænum til 1947 og í nokkur sumur eftir það. Bæjarhúsin eru misgömul, byggð frá miðri 18. öld og til 1897. Bærinn er torfmesti bær landsins, um 730 fermetra gangnabær af stærstu gerð og snúa sex burstir fram á hlaðið. 

Við óskum Sigríði Sigurðardóttur, safnstjóra, starfsfólki safnsins og öllum Skagfirðingum til hamingju með þessa viðurkenningu.

Hlekkur á frétt um verðlaunin á mbl.is

Hlekkur á síðu Byggðasafns Skagfirðinga