Fara í efni

Breytt verkaskipting á fjölskyldusviði

04.05.2018
Ráðhús Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Þann 1. maí s.l. urðu nokkrar breytingar á verkaskiptingu innan fjölskyldusviðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Um nokkurt skeið hefur verið unnið að greiningu og skoðun á því hvernig auka megi samþættingu og samstarf í þjónustu við íbúa og hafa þegar komið til framkvæmda ýmsar breytingar en nú hefur skrefið verið stigið til fulls með formlegri breytingu á verkaskiptingu innan sviðsins.

Eins og kunnugt er heyrir öll félagsþjónusta, frístundaþjónusta og fræðsluþjónusta undir sviðið en auk þess að þjónusta íbúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar var gerður samningur við öll sveitarfélög á Norðurlandi vestra um að Sveitarfélagið Skagafjörður væri svo kallað leiðandi sveitarfélag í þjónustu við fatlað fólk á öllu svæðinu. Til fjölskyldusviðs heyra 76 stofnanir / málalyklar og þar starfa um 290 manns í fjölþættum og ólíkum störfum sem öll miða að því að auka lífsgæði íbúanna. Helstu breytingar eru eftirfarandi:

Öll félagsþjónusta þ.m.t. málefni fatlaðs fólks verður sameinuð undir einn hatt og verður Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir félagsmálastjóri en Gréta Sjöfn hefur stýrt málefnum fatlaðs fólks frá því er málaflokkurinn var fluttur frá ríki til sveitarfélaga. Gunnar Sandholt lætur af starfi félagsmálastjóra, en starfar áfram við hlið sérfræðinga fjölskyldusviðs, Selma Barðdal, sem verið hefur skólafulltrúi, verður fræðslustjóri en því starfi hefur Herdís Á. Sæmundardóttir gegnt, ásamt starfi sviðsstjóra sem hún mun áfram gegna. Þorvaldur Gröndal verður áfram frístundastjóri og Bertína Rodriguez verður áfram sérfræðingur á fjölskyldusviði með áherslu á fjármál sviðsins og kostnaðareftirlit. Samhliða þessu verður unnið að öðrum breytingum sem allar miða að því að auka gæði þjónustu og nýta þekkingu starfsmanna enn betur í þágu íbúa.