Beinar rútuferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar næsta vor

Ein af rútum Gray Line
Ein af rútum Gray Line

Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line hefur ákveðið að hefja beinar áætlunarferðir milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar næsta vor. Í apríl og maí verður ekið þrisvar í viku en daglega yfir sumarið fram í miðjan september.

Áætlun Gray Line Airport Express verður með þeim hætti að brottför verður frá Keflavík kl. 17:00, komið til Akureyrar um kl. 23:00. Þaðan verður haldið kl. 23:15 og komið til Keflavíkur kl. 05:15. Flugfarþegar sem koma til landsins síðdegis komast þannig norður fyrir miðnætti og farþegar að norðan komast beint í morgunflug.

Á leiðinni verður stoppað fyrir farþega í Borgarnesi, Staðarskála, Blönduósi og Varmahlíð. Fargjald aðra leið verður 11.000 milli Akureyrar og Keflavíkur, Varmahlíð 10.000 kr., Blönduós 9.000 kr., Staðarskáli 7.000 kr. og Borgarnes 4.500 kr.

Gray Line leggur áherslu á að ferðalagið verði þægilegt og ánægjulegt og verða eingöngu lúxusrútur úr flota fyrirtækisins notaðar á leiðinni. Þær eru með salernum og veitingaaðstöðu ásamt internetteningu og tveir bílstjórar verða ávallt með í för til að tryggja gæði þjónustunnar.

Fyrsta ferðin verður farin sunnudaginn 3. apríl 2016. Í apríl og maí verður ekið á þriðjudögum, fimmtudögum og sunnudögum, og síðan daglega yfir sumarið.

Ljóst er að tilkoma þessara ferða getur skapað ný tækifæri fyrir Norðurland vestra þar sem nú er að nokkru leyti komið til móts við kröfur erlendra ferðamanna um einfaldari og þægilegri valkost í ferðalögum frá Keflavík til Skagafjarðar og Húnavatnssýslna.