Fara í efni

Aukin heitavatnsnotkun Skagfirðinga í kuldatíðinni

06.12.2013

Logo SkagafjarðarveitnaÞað er búið að vera kalt í Skagafirði í dag líkt og víða á landinu. Frostið fór þannig í -21 °C á Sauðárkróksflugvelli kl. 9 í morgun og er búið að vera nálægt -20 °C í allan dag.

Notkun á heitu vatni hjá Skagafjarðarveitum er verulega meiri í kuldatíðinni heldur en er á meðaldegi að vetrarlagi. Þannig er notkunin í dag búin að vera tæpir 200 l/sek en að meðaltali er hún um 160 l/sek að vetrarlagi og um 95 l/sek yfir sumartímann. Notkunin í dag er því 25% meiri en á venjulegum vetrardegi og meira en tvöföld á við það sem gerist að sumarlagi.

Heitt vatn hefur verið notað í Skagafirði um aldaraðir eins og sést t.d. í Sturlungu þar sem kemur fram að konur hafi farið að Reykjarhóli (sem Varmahlíð er byggð sunnan og austan til í dag) til þvotta. Nýting jarðhitans hófst þó ekki að verulegu marki fyrr en kom fram á 20. öldina.

Skagafjarðarveitur reka í dag 6 hitaveitur, þ.e. Sauðárkróksveitu, Varmahlíðarveitu, Steinsstaðaveitu, Hjaltadalsveitu, Hofsósveitu og Sólgarðaveitu. Heitu vatni á vegum Skagafjarðarveitna er dreift til um 87% heimila í Skagafirði. Nýjasta viðbótin eru tengingar bæja í Hegranesi við hitaveitukerfi Skagafjarðarveitna.