Fara í efni

Atvinnupúlsinn í Skagafirði frumsýndur í kvöld

04.10.2017
Frá Sauðárkróki

Sjónvarpsstöðin N4 vinnur nú að gerð átta þátta um atvinnulífið í Skagafirði, Atvinnupúlsinn í Skagafirði. Fyrsti þátturinn verður frumsýndur í kvöld, klukkan 20:30.

Sambærilegir þættir voru á dagskrá N4 í upphafi ársins þar sem kastljósinu var beint að Eyjafjarðarsvæðinu. Þeir þættir féllu í góðan jarðveg hjá áhorfendum og atvinnulífið tók umfjölluninni fagnandi. Umsjónarmenn Atvinnupúlsins í Skagafirði eru þau María Björk Ingvadóttir og Karl Eskil Pálsson.

Í þáttunum verður rætt við fólk sem þekkir vel til í atvinnulífinu, auk þess sem fyrirtæki og stofnanir verða heimsótt.

Ímynd svæðisins

„Við á N4 leggjum metnað okkar í þetta verkefni. Á tímum upplýsingatækni er nauðsynlegt að atvinnulífið kynni sína starfsemi og styrki um leið ímynd svæðisins. Umfjöllunin verður ekki bara í sjónvarpi, þar sem við á N4 erum nokkuð öflug á samfélagsmiðlum og í blaðaútgáfu. Nýverið hófum við að gefa út blaðið N4 Landsbyggðir, sem fer inn á öll heimili landsbyggðanna, eintökin eru samtals 54.500. Síðast en ekki síst leggjum við áherslu á samvinnu við héraðsmiðla, sem gegna mikilvægu hlutverki. Þannig verða þættirnir strax aðgengilegir á feykir.is,“ segir María Björk Ingvadóttir framkvæmdastjóri N4.

Víða komið við

„Í þessari þáttaröð ætlum við að kynnast atvinnulífinu í Skagafirði með það að markmiði að sýna fjölbreytt og samkeppnishæf fyrirtæki. Þættirnir verða í senn fræðandi og varpa um leið ljósi á sérstöðu fyrirtækja, starfsemi, starfsumhverfi, menntamál og stoðkerfi.“ Skagafjörður hefur margt fram að færa og ég er viss um að þessi umfjöllun kemur til með að vekja verðskuldaða athygli,“ segir Karl Eskil Pálsson.

Þættirnir á vefmiðlum

Eins og fyrr segir verður hægt að horfa á þættina á feykir.is en einnig á n4.is, auk þess sem vísað verður á þættina hér á skagafjordur.is. Fyrsti þátturinn verður kominn inn á síðurnar á morgun, fimmtudag.