Anna Árnína Stefánsdóttir lætur af störfum sem leikskólastjóri Tröllaborgar

Þau tímamót urðu nú síðsumars að Anna Árnína Stefánsdóttir lét af störfum sem leikskólastjóri Leikskólans Tröllaborgar eftir tuttugu og níu ára farsælt starf. Anna Árnína hefur sinnt starfi sínu af mikilli fagmennsku og verið öflugur leiðtogi í málefnum ungra barna. Hún hefur sinnt forystuhlutverki sínu með miklum ágætum, verið rökföst og hefur leitt leikskólastarfið með jákvæðum en mildum hætti. Með því móti hefur Anna Árnína náð að skapa jarðveg fyrir gróskumikið lærdómssamfélag í Leikskólanum Tröllaborg. Hún hefur unnið með yfirstjórn skólamála í héraði af metnaði, verið með eindæmum úrræðagóð og hefur ætíð haft hagsmuni skjólstæðinga sinna að leiðarljósi. Jafnframt hefur Anna Árnína lagt mikið af mörkum í faglegu samstarfi leikskólastjóra í Skagafirði.

Við þessi tímamót er Önnu Árnínu þakkað hennar framlag til skólamála í skólasamfélaginu í Skagafirði. Um leið er henni óskað alls velfarnaðar í þeim verkefnum sem hún nú tekur sér fyrir hendur.