Fara í efni

Áhugaverður bæklingur nemenda austan Vatna

12.09.2014

Bæklingur sem Leikskólinn Tröllaborg og Grunnskólinn austan Vatna gáfu út á síðasta skólaári hefur vakið athygli m. a. í Háskólanum á Akureyri. Bragi Guðmundson prófessor og formaður kennaradeildar ætlar að sýna bæklinginn í grenndarkennslunámskeiði í vetur sem hvatningu til dáða. Hann segir þetta lýsandi dæmi um vel heppnað samvinnuverkefni ólíkra aldurshópa og einnig sýni þetta verkefni fjölbreytta möguleika til náms og menntunnar.

Um verkefnið

Leikskólinn Tröllaborg og Grunnskólinn austan Vatna eru Grænfánaskólar. Eitt af viðfangsefnum Grænfánaverkefnisins er nærumhverfið, menning og samfélag. Síðastliðinn vetur var unnið með grenndarkennslu. Í framhaldi af þeirri vinnu kom upp spurning um hvað væri áhugavert fyrir gesti sem koma á þetta svæði að skoða.

Ákveðið var að gefa út bækling fyrir ferðamenn þar sem bent er á áhugaverða menningarstaði sem vert er að skoða í austanverðum Skagafirði, þ.e. frá Hólum og út í Fljót. Í bæklingnum eru myndir af þeim stöðum ásamt upplýsingum um hvern og einn og kort þar sem staðirnir eru merktir inn á.

Bæklingurinn er gefinn út á fjórum tungumálum, íslensku, ensku, dönsku og þýsku.

Bæði leik- og grunnskólinn eru reknir á þremur starfsstöðvum og sáu börnin um vinnuna við bæklinginn á sínu heimasvæði. Myndirnar eru ýmist teknar að vori, hausti eða vetri.

Leikskólabörnin sáu um að taka myndirnar, 1.-6. bekkur unnu texta við myndirnar og settu inn í tölvu, 7.-10. bekkur sáu um að þýða textann yfir á ensku og dönsku en þýskumælandi nemandi í 5. bekk þýddi textann yfir á þýsku með aðstoð þýskumælandi leikskólakennara.

Um lokafrágang sáu skólastjórar beggja skólastiga ásamt tveimur kennurum frá báðum skólastigum.

Bæklingur liggur frammi á flestum ferðamannastöðum í Skagafirði.