Umhverfisviðurkenningar afhentar

Afhending umhverfisviðurkenninga Sveitarfélagsins Skagafjarðar fór fram í fjórtánda sinn í gær, en það er Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar sem hefur umsjón með útnefningu þessara viðurkenninga fyrir Sveitarfélagið.

Í ár voru veittar viðurkenningar í 5 flokkum, en þá hafa verið veittar 87 viðurkenningar á 14 árum.

Býli með búskap sem hlaut viðurkenninguna í ár er Stóra-Gröf syðri. Þar búa hjónin Laufey Leifsdóttir og Sigfús Ingi Sigfússon. Þau eru með fjárbú og hross. Í Stóru-Gröf syðri er mjög fallegt heim að líta. Íbúðarhús og útihús eru máluð í sama lit og vel við haldið. Töluverður trjágróður er við bæinn og einnig vel snyrt hekk. Allt gerir þetta ásýndina mjög hlýlega.

Býli án búskapar sem hlaut viðurkenninguna í ár er Hátún 2. Þar búa Björg Baldursdóttir og Ragnar Gunnlaugsson. Húsastæðið situr frekar hátt og afar fallegt útsýni af bæjarhlaðinu. Umhverfi húss og skemmu er mjög snyrtilegt og ásýnd falleg. Húsakosti vel við haldið og vel málað. Trjágróður er fyrir neðan húsið og gefur það hlýlega tilfinningu.

Í ár voru verðlaunaðir tveir garðar í þéttbýli.

Eskihlíð 1, Sauðárkróki. Eskihlíð 1 er í eigu hjónanna Kristínar Sveinsdóttur og Gunnars Sveinssonar. Íbúðarhúsið, ásamt bílskúrnum er vel við haldið, allt málað og snyrtilegt. Garðurinn er opinn, mjög smekklegur og ávallt vel snyrtur. Tré og runnar af ýmsum tegundum eru fallega formuð og nýtur gróðurinn sín vel með steinum á milli. Samspil húss og garðs nýtur sýn vel þar sem hvorugt skyggir á annað. Vel hirt eign til margra ára.

Víðihlíð 3, Sauðárkróki. Víðihlíð 3 er í eigu hjónanna Jóhönnu Haraldsdóttur og Jónasar Svavarssonar. Þar er húsi og bílskúr vel við haldið. Garðurinn er fallegur, með mjög fjölbreyttan gróður. Þar má t.d. finna gömul, há og falleg tré, fjölær blóm í beðum, sem eru vel skipulögð. Einnig má finna þar matjurtagarð og skemmtilegt útisvæði, sem sýnir einnig notagildið fyrir íbúa þess og gesti. Umgengni og umhirða á lóð er mjög góð. Ásýnd húss og lóðar er falleg og heildarmynd til fyrirmyndar.

Stofnunin sem gladdi mest þetta árið var Vínbúðin, eða ÁTVR við Smáragrundina á Sauðárkróki. ÁTVR er stofnun með vel uppgerðu, smekklegu, nýklæddu húsi með fallegri merkingu og skreytingu. Því fylgir stór lóð með mjög snyrtilegu bílaplani með vel afmörkuðum bílastæðum. Á planinu eru falleg ker, skreytt blómum og litlum furutrjám. Húsið og planið eru nýlega uppgerð og til mikillar prýði í bænum.

Að lokum var veitt viðurkenning fyrir einstakt framtak. Í þetta sinn var það „Pokahópurinn“ svo kallaði, sem fékk viðurkenningu. Síðustu árin hefur fólk áttað sig betur á því að plastið hefur ekki bara kosti heldur mikla galla líka og það hafa myndast hópar hér á landi sem hafa sagt plastinu stríð á hendur. Hér voru það tvær kraftmiklar áhugakonur, þær Þuríður Helga Jónasdóttir á Hólum og Svanhildur Pálsdóttir á Stóru-Ökrum, sem ýttu úr vör hópum kvenna sem hafa svo komið saman og saumað margnota taupoka. Markmiðið var að fá að setja þá í verslanir hér og draga þannig úr notkun einnota innkaupapoka. KS í Varmahlíð og á Hofsósi og Hlíðarkaup á Sauðárkróki bjóða orðið upp á taupoka.

Sveitarfélagið Skagafjörður og Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar óska öllum sem viðurkenningarnar hafa fengið til hamingju og þakkar þeim fyrir að láta umhverfið skipta sig máli.