17. júní haldinn hátíðlegur á Sauðárkróki

Áróra Árnadóttir var fjallkonan á 17. júní
Áróra Árnadóttir var fjallkonan á 17. júní

Þrátt fyrir að veðurguðirnir séu okkur ekki hliðhollir þessa dagana var 17. júní haldinn hátíðlegur í Skagafirði og fór hátíðardagskrá  fram á Sauðárkróki. Teymt var undir börnum á hestbaki, andlit máluð í öllum regnbogans litum og skátarnir leiddu skrúðgöngu inn á íþróttaleikvanginn þar sem hátíðarhöldin fóru fram.

Sólborg Una Pálsdóttir, héraðsskjalavörður, flutti hátíðarræðu og fjallkonan, sem í ár var Áróra Árnadóttir, nýstúdent frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, flutti ljóð. Leikfélag Sauðárkróks með þá Eystein Ívar Guðbrandsson og Inga Sigþór Gunnarson í fararbroddi sáu um að skemmta fólkinu og töframaðurinn John Tómasson fór með töfrabrögð. Hvolpasveitin kíkti í heimsókn og þau yngstu brugðu á leik í hoppuköstulum og loftboltum.

Að lokum var boðið upp á dýrindis lýðveldisköku, en í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins hannaði Landssamband bakarameistara lýðveldisköku í samstarfi við forsætisráðuneytið. Boðið var upp á kökuna í þeim bæjarfélögum þar sem félagsmenn í Landssambandi bakarameistara reka bakarí og var sú kaka 75 metrar á lengd sem skiptist niður á viðkomandi bæjarfélög. Kakan var í boði á eftirtöldum stöðum, í samvinnu við sveitarfélög á hverjum stað:  Sauðárkróki, Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Fjallabyggð, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi, Hveragerði og Reykjanesbæ. Þá var einnig boðið var upp á kökuna í miðbæ Reykjavíkur og var hún 75 metrar á lengd.

Lýðveldiskakan var þriggja botna mjúk súkkulaðikaka með karamellu- rjómaostakremi og Odense marsipani og það var Sauðárkróksbakarí sem sá um að baka kökuna á Sauðárkróki.