1238: Battle of Iceland hlýtur viðurkenninguna Sproti ársins

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri MN og Freyja Rut Emilsdóttir, fulltrúi 1238. Mynd: Markaðs…
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri MN og Freyja Rut Emilsdóttir, fulltrúi 1238. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi var haldin á dögunum, en það er Markaðsstofa Norðurlands sem stendur fyrir uppskeruhátíðinni árlega að undanskildu árinu í fyrra þar sem fella þurfti niður uppskeruhátíðina vegna Covid. Það var því glatt á hjalla hjá ferðaþjónustuaðilum á Norðulandi, þ.a.m. skagfirskum, en að þessu sinni var farið um vestanverðan Eyjafjörð, fyrirtæki voru heimsótt á Dalvík og Ólafsfirði áður en haldið var í Fljótin og þaðan á Siglufjörð. Á Kaffi Rauðku var svo slegið upp veislu um kvöldið en þar voru, venju samkvæmt á uppskeruhátíð, fyrirtækjum veittar viðurkenningar fyrir sín störf. Þar hlaut m.a. fyrirtækið 1238: Battle of Iceland viðurkenninguna Sproti ársins.

Í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðulands segir:

Sproti ársins er 1238: Battle of Iceland. Þessi viðurkenning er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. 1238: Battle of Iceland var stofnað árið 2019 og býður uppá frábæra aðstöðu fyrir bæði minni og stærri hópa. Sögusetrið 1238 er gagnvirk sýning sem færir viðskiptavini nær sögulegum stóratburðum en hefðbundnar fræðslusýningar. Með hjálp nýjustu tækni í miðlun og sýndarveruleika er þeim boðið að taka þátt í átakamestu atburðum Íslandssögunnar og beinlínis stíga inn í sögu Sturlungaaldar. Fyrirtækið hefur sýnt mikinn metnað í stafrænni markaðssetningu og verið mjög sýnilegt á öllum helstu boðleiðum. Í fyrra þurfti fyrirtækið að aðlaga þá markaðssetningu í meiri mæli að Íslendingum og tókst það vel. Sýningin hefur fyrir vikið vakið mikla athygli innanlands en einnig á erlendum mörkuðum. Þetta starf ýtir undir uppbyggingu á öflugri ferðaþjónustu í Skagafirði allt árið og vekur athygli bæði á nærsvæði fyrirtækisins en einnig Norðurlandi öllu. Freyja Rut Emilsdóttir tók við viðurkenningunni fyrir hönd 1238: Battle of Iceland.

Óskum við fyrirtækinu 1238: Battle of Iceland til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra MN, ásamt Freyju Rut Emilsdóttur, fulltrúa 1238.