Fara í efni

Veitustjórn

55. fundur 13. desember 2001 kl. 17:00 - 19:15 Skrifstofa Sveitarfélagsins

Veitustjórn  Skagafjarðar
Fundur 55 – 13.12.2001

 

            Fimmtudaginn 13. des. árið 2001 kom veitustjórn saman kl. 17.00 á skrifstofu sveitarfélagsins.

            Mættir voru veitustjórnarfulltrúarnir: Snorri Styrkársson, formaður, Árni Egilsson, Sigrún Alda Sighvats, Einar Gíslason og Páll Sighvatsson varamaður Ingimars Ingimarssonar ásamt veitustjórunum Sigurði Ágústssyni og Páli Pálssyni. Einnig sat Jón Gauti Jónsson sveitarstjóri fundinn og Kristján Jónasson endurskoðandi.

 

DAGSKRÁ:

  1. Málefni Rafveitu Sauðárkróks
  2. Breytingar á rekstrarfyrirkomulagi hita- og vatnsveitu. Kristján Jónasson endurskoðandi mætir á fundinn.
  3. Fjárhagsáætlun hita- og vatnsveitu f. árið 2002.
  4. Önnur mál

 

Formaður setti fund kl. 17.00

 

AFGREIÐSLUR:

1. Formaður lagði fram drög að samningi milli Sveitarstjórnar Skagafjarðar og Rafmagnsveitna ríkisins um kaup þess síðarnefnda á Rafveitu Sauðárkróks fyrir 330.000.000.- Þrjúhundruðogþrjátíumilljónir. Stefnt er að því að undirrita kaupsamninginn mánudag 17. des. nk. Veitustjórn samþykkir framlögð drög. Sigrún Alda Sighvats og Árni Egilsson taka ekki þátt í afgreiðslu þessa samnings og vísa í fyrri bókanir sjálfstæðismanna um sölu rafveitunnar. Formaður og rafveitustjóri sögðu frá fundi í gær með forsvarsmönnum Rarik um starfsmannamál eftir sölu á rafveitunni. Kom fram að almennir starfsmenn rafveitunnar ætla að þiggja störf sem í boði eru hjá Rarik, en ekki liggur á lausu starf fyrir rafveitustjóra að hans mati sem talist getur sambærilegt við hans núverandi starf. Því fer hann fram á að við sig verði gerður starfslokasamningur samkvæmt lögum og venjum sem um slíkt gilda. Þá var einnig rætt um fyrirkomulag áramótaálesturs og síðustu orkureikningagerð rafveitunnar. Ákveðið að álesturinn fari fram á milli jóla og nýárs og á fyrstu dögum ársins, svo fljótt sem auðið er miðað við aðstæður.

 

2. Kristján Jónasson endurskoðandi yfirfór helstu bókhaldsupplýsingar viðvíkjandi breytingu á hita- og vatnsveitu úr núverandi rekstrarfyrirkomulagi yfir í hlutafélagsrekstur og lagði fram tvo áætlaða ársreikninga hlutafélagsins miðað við mismunandi yfirtöku lána frá sveitarsjóði. Hér yfirgaf sveitarstjóri fundinn. Þá dreifði Kristján og útskýrði uppkast að lögum, samþykktum og stofnsamningi fyrir væntanlegt hlutafélag. Nú yfirgaf Kristján Jónasson fundinn.

 

3. Veitustjóri lagði fram drög að fjárhagsáætlun hita-og vatnsveitu fyrir árið 2002 ásamt áætlaðri stöðu ársins 2001. Fjárhagsáætlunin verður tekin til frekari umfjöllunar og afgreiðslu á næsta fundi.

 

4. Önnur mál:
    a)    Rætt um uppgjör á orlofsgreiðslum á fasta yfirvinnu starfsmanna veitna. Ákveðið er að greiða
    þessi gjöld nú í desember, með vöxtum og dráttarvöxtum 4 ár aftur í tímann, þ.e. frá og með
    1.1.1998. Árni Egilsson situr hjá við þessa afgreiðslu.

    b)    Veitustjórn samþykkir að Margeir Friðriksson fjármálastjóri sveitarfélagsins fari með umboð   
    rafveitu og hitaveitu á hluthafafundi Fjölnets ehf. sem haldinn verður í Gránu við Aðalgötu á
    Sauðárkróki í dag kl.17.00

 

Næsti fundur ákveðinn þriðjudaginn 18. des. kl. 18.00

Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt og fundi slitið kl. 19,15

 

                                                 Fundarritari

Snorri Styrkársson                   Sigurður Ágústsson

Páll Sighvatsson                      Páll Pálsson

Árni Egilsson

Sigrún Alda Sighvats

Einar Gíslason