Fara í efni

Umhverfis- og samgöngunefnd

1. fundur 16. júní 2022 kl. 14:00 - 16:50 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Hrefna Jóhannesdóttir formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Sveinn Þ. Finster Úlfarsson aðalm.
  • Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir varam. áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs
  • Valur Valsson verkefnastjóri
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon Sveitastjóri
Dagskrá

1.Kosning formanns, varaformanns og ritara Umhverfis- og samgöngunefnd

Málsnúmer 2206130Vakta málsnúmer

Lögð var fram tillaga um Hrefnu Jóhannesdóttur sem formann nefndar, Sólborgu S. Borgarsdóttur sem varaformann og Sveinn Úlfarsson sem ritara.

Samþykkt samhljóða. Formaður tók við fundarstjórn.

2.Skoðanakönnun um sorphirðu í dreifbýli 2022

Málsnúmer 2206135Vakta málsnúmer

Ákveðið er að gera rafræna skoðanakönnun hjá íbúum í dreifbýli þar sem að valið verður á milli þess að heimilissorp verði sótt heim á lögheimili í dreifbýli eða að fyrirkomulagið verði með þeim hætti að íbúar skili sorpi á móttökustöð. Farið var yfir tillögu að kosningarseðli og leiðbeiningar sem verða fylgiskjal með útskýringum á hvaða áhrif möguleikarnir hafa á þjónustustig og kostnað.
Í aðdraganda skoðunarkönnunar verður sendur út upplýsingabæklingur á hvert heimili í dreifbýli Skagafjarðar. Áætlað er að kynning hefjist í síðustu viku júnímánaðar og að rafræn skoðanakönnun í beinu framhaldi. Íbúafundir verða haldnir í Varmahlíð og á Hofsósi og þeim streymt. Upplýsingar verða einnig aðgengilegar á heimasíðu Skagafjarðar.

Umhverfis- og samgöngunefnd finnst ánægjulegt að verið sé að stíga þetta skref í bættri grunnþjónustu úrgangsmála í dreifbýli Skagafjarðar og samþykkir að vísa málinu til staðfestingar sveitarstjórnar.

Sigfús Ólafur Guðmundsson Verkefnastjóri, atv. og menn. - í kynningarmálum sat þennan lið.

3.Útboð í sorpmálum 2022 - Efla

Málsnúmer 2011092Vakta málsnúmer

Vinna við gerð útboðsgagna vegna fyrirhugaðs útboðs á sorphirðu í Skagafirði er langt komin en vænta má að niðurstöður skoðanakönnunnar hjá íbúum í dreifbýli liggi fyrir um mánaðarmót júní - júlí næstkomandi. Þar verður valið á milli þess að heimilissorp verði sótt heim á lögheimili í dreifbýli eða að fyrirkomulagið verði með þeim hætti að íbúar skili sorpi á móttökustöð.

Sviðsstjóra Veitu- og framkvæmdasviðs er falið að vinna að því að koma útboði í framkvæmd sem fyrst. Áætlun gerir ráð fyrir að útboðsgögn verði klár til afhendingar um 10. júlí næstkomandi og verður útboðið auglýst á evrópska efnahagssvæðinu.

4.Skemmtilegri Skagafjörður erindi frá áhugamannahópi

Málsnúmer 2206169Vakta málsnúmer

Erindi hefur borist frá hópi áhugamanna sem nefnir sig "Skemmtilegri Skagafjörður". Markmið hópsins er að vinna að því að gera umhverfið okkar skemmtilegra með því að skreyta umhverfið og gera það meira eftirminnilegt fyrir gesti og ferðamenn. Lögð er fram tillaga hópsins að því að skreyta Kirkjutorgið á Sauðárkróki með myndlist þar sem suðurhlið húsanna Kirkjutorgs 1 og 3 verða myndskreytt auk þess sem að gangstéttin kringum torgið fái upplyftingu.

Umhverfis- og samgöngunefnd fagnar þessu frumkvæði hópsins Skemmtilegri Skagafjörður og samþykkir erindið fyrir sitt leyti en fer fram á að hópurinn fái skriflegt samþykki næstu nágranna sem eru í beinni sjónlínu við húsin.

Magnús Barðdal, Auður Ingólfsdóttir og Sigfús Ólafur Guðmundsson sátu fundinn undir þessum lið.

5.Snjómokstur á Sauðárkróki, framlenging á verksamningi.

Málsnúmer 2204081Vakta málsnúmer

Umhverfis- og samgöngunefnd hefur ákveðið að nýta sér heimildarákvæði um framlengingu í samningi við Vinnuvélar Símonar ehf um snjómokstur á Sauðárkróki. Samningurinn framlengist um eitt ár. Unnið verður að endurskipulagningu á reglum um snjómokstur og þjónustu á öllu þjónustusvæði Skagafjarðar og skal þeirri vinnu lokið áður en að nýtt útboð fer fram árið 2023.

Sviðsstjóra Veitu- og framkvæmdasviðs falið að ganga frá málinu við Vinnuvélar Símonar ehf.

6.Litli skógur, útikennslustofa

Málsnúmer 2004231Vakta málsnúmer

Vinna við byggingu útikennslustofu í Litla Skógi er hafin og er jarðvinnu vegna undirstaða lokið. Rætt hefur verið um að reyna að útvega við í mannvirkið sem mest úr skagfirskum skógum og er verið að vinna að lausn í því máli.

Sviðsstjóra er falið að ganga frá samningi um kaup á skagfirskum burðarvið og öðru smíðefni eins og hægt er. Hrefna Jóhannesdóttir formaður Umhverfis- og samgöngunefndar sat hjá við afgreiðslu málsins.

7.Nestún, Norðurhluti Sauðárkróki, gatnagerð 2022

Málsnúmer 2202017Vakta málsnúmer

Tilboð í verkið voru opnuð 2. júní síðastliðinn. Eitt tilboð barst frá Vinnuvélum Símonar ehf og reyndist tilboðið vera 104,6 % af kostnaðaráætlun verkkaupa. Byggðarráð samþykkti á fundi sínum 13. júní að taka tilboðinu og fól framkvæmdasviði að ganga til samninga við verktakann um verkið.

Búið er að sækja um framkvæmdaleyfi til skipulagsfulltrúa. Umhverfis- og samgöngunefnd felur sviðsstjóra að ganga til samninga við Vinnuvélar Símonar ehf um verkið og setja það í framkvæmd.

Fundi slitið - kl. 16:50.