Fara í efni

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar

377. fundur 13. desember 2018 kl. 16:30 - 17:25 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson aðalm.
  • Ingibjörg Huld Þórðardóttir aðalm.
  • Laufey Kristín Skúladóttir aðalm.
  • Gísli Sigurðsson aðalm.
  • Regína Valdimarsdóttir forseti
  • Bjarni Jónsson aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Helga Sigurrós Bergsdóttir ritari
Fundargerð ritaði: Helga Sigurrós Bergsdóttir stjórnsýsluritari
Dagskrá
Fyrir sveitarstjórnarfundinn fengu sveitarstjórnarmenn kynningu á fyrirhugaðri starfsemi Sýndaveruleika ehf í Aðalgötu 21 af hálfu Ingva Jökuls Logasonar og annarra starfsmanna fyrirtækisins.
Arnór Halldórssonar hrl. fór yfir og skýrði samningana sem fyrir fundinum liggja.

1.Byggðarráð Skagafjarðar - 850

Málsnúmer 1812007FVakta málsnúmer

Fundargerð 850. fundar byggðarráðs lögð fram til afgreiðslu á 377. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Stefán Vagn Stefánsson kynnti fundargerð.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 850 Á fund byggðarráðs komu Ingvi Jökull Logason forsvarsmaður Sýndarveruleika ehf. og Arnór Halldórsson hrl. og fóru yfir samninga og bókanir vegna samstarfs um sýndarveruleikasýningu í Aðalgötu 21 á Sauðárkróki. Véku þeir af fundi kl. 14:00.
    Byggðarráð samþykkir með tveimur atkvæðum að vísa samstarfssamningi um uppbyggingu sýndarveruleikasýningar ásamt fylgigögnum til afgreiðslu sveitarstjórnar.
    Bjarni Jónsson óskar bókað:
    Þrátt fyrir breytingar á nokkrum atriðum í samningsdrögum, eiga þeir fyrirvarar og gagnrýni sem VG og óháð hafa áður sett fram vegna málsins enn við í meginatriðum. Því er afstaðan óbreytt. Að öðru leyti vísast til umfjöllunar við fyrirtöku á fyrirhuguðum sveitarstjórnarfundi. VG og óháð eru andvíg samningunum í núverandi mynd.
    Bjarni Jónsson, VG og óháðum.

    Bókun fundar Málið áður á dagskrá á fundi sveitarstjórnar þann 21. mars 2018, en því frestað.

    Bjarni Jónsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögur frá minnihlutanum:
    Sveitarstjórn samþykkir að fela endurskoðanda sveitarfélagsins að leggja mat á áhrif samningsins og þeirra langtímaskuldbindinga sem hann felur í sér á rekstur og framkvæmdagetu sveitarfélagsins á samningstímanum.

    Stefán Vagn Stefánsson tók til máls.

    Ólafur Bjarni Haraldsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu frá minnihlutanum: Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkir að efna til íbúakosningar á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um Samstarfssamning um uppbyggingu sýndarveruleikasýningar á Sauðárkróki, sem byggðaráð samþykkti fyrir sitt leyti hinn 11. desember 2018 og vísaði til afgreiðslu sveitarstjórnar.
    Sveitarstjórn samþykkir að íbúakosningin fari fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosningarinnar verði rafræn. Um framkvæmd kosninganna fari eftir ákvæðum bráðabirgðaákvæðis V við sveitarstjórnarlög, sbr. og reglugerð nr. 1002/2015 um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár.
    Íbúakosningin hefjist eins fljótt og lög leyfa og heimilað er og standi yfir í 7 sólarhringa. Sveitarstjórn felur byggðaráði að auglýsa kosninguna og ákveða hvenær hún hefst. Byggðaráð ákveði ennfremur hvar á opinberum stöðum í sveitarfélaginu kjósendur geti greitt atkvæði, þar sem til staðar er tækjabúnaður sem til þarf. Efnisatriði samningsins er varða skuldbindingar sveitarfélagsins, tímalengd þeirra, ívilnanir og annan fjárhagslegan stuðning sveitarfélagsins sem samningnum og verkefninu tengist verði aðgengilegur íbúum í aðdraganda íbúakosningarinnar.

    Gísli Sigurðsson, Ólafur Bjarni Haraldsson og Bjarni Jónsson kvöddu sér hljóðs.

    Stefán Vagn Stefánsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun meirihlutans:
    Farið var í það að fá óháða úttektaraðila til að meta samninginn líkt og óskað var eftir þann 8. mars og var Meginn lögmannsstofa fenginn til að gera lögfræðilega úttekt á samningum sem og að ráðgjafafyrirtækið Deloitte ehf. var fengið til að gera fjárhagslega úttekt á áhrifum uppsetningar á sýndarveruleikarsýningar á Sauðárkróki fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð. Niðurstaða þeirrar vinnu var lögð fram í byggðarráði 3.maí 2018 og kom þar fram að Nettó áhrif verkefnisins fyrir sveitarfélagið Skagafjörð voru metinn 195 milljónir á samningstímanum.

    Tillaga frá Bjarni Jónssyni borin upp til afgreiðslu og felld með með fimm atkvæðum gegn fjórum. Bjarni Jónsson tók til máls og lagið fram bókun svohljóðandi frá Vg og óháðum: Að mati undirritaðra uppfyllti álit Deloitte ekki þær kröfur sem gera þarf til álits áháðs aðila og áður hefur verið bent á.

    Tillaga Ólafi Bjarna Haraldssyni borin upp til afgreiðslu og felld með með fimm atkvæðum gegn fjórum. Bjarni Jónsson bókar eftirfarandi frá minnihlutanum: Í ljósi umfangs og tímalengdar samningsins sem spannar kjörtímabil 7 sveitarstjórna, er augljóst að gefa ætti íbúum kost á segja sitt álit á samningnum.
    Fulltrúar minnihluta.

    Stefán Vagn Stefánsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta:
    Sá samningur sem hér um ræðir á langa sögu innan sveitarfélagsins og ekki ástæða hér til að rifja hana alla upp nú. Ástæða þess að ráðist var í þetta verkefni á sínum tíma var að efla ferðamennsku í Skagafirði og styðja við atvinnuuppbyggingu og aukna fjölbreytni starfa. Að fá hingað segul fyrir svæðið sem myndi styðja við aðra uppbyggingu á svæðinu s.s. ferðaþjónustu, veitingarekstur, gistingu og sölu á almennri vöru og þjónustu. Að fá hingað nýsköpunarfyrirtæki og fjárfesta sem bjóða upp á sýningu sem ekki á sér fordæmi á Íslandi og verður stærsta sögutengda sýndarveruleikasýning á Norðurlöndunum, sýning sem setur Skagafjörð enn betur á kortið en nú er og ef áætlanir ganga eftir mun leiða til fjölgunar ferðamanna á svæðinu um tugi þúsunda á komandi árum. Við þurfum á því að halda. Kynningarstarf er þegar hafið á verkefninu og hefur það fengið mjög jákvæð viðbrögð, meðal annars meðal rekstraraðila skemmtiferðarskipa sem er jákvæð þróun fyrir svæðið.
    Það er mikilvægt að hafa í huga að sveitarstjórn hafði þegar samþykkt samhljóða viðgerðir á húsunum við Aðalgötu 21a og 21b, óháð því hvaða starfsemi færi þangað inn, enda húsin orðin mikið lýti á Aðalgötu Sauðárkróks. Byggðarráð og sveitarstjórn samþykktu í tvígang að bjóða verkið út, í lokuðu og opnu útboði og að lokum var samið við fyrirtækið Performa um verkið. Allt voru þetta ákvarðanir sem samþykktar voru samhljóða af öllum flokkum í sveitarstjórn þess tíma. Með uppgerð húsanna mun innkoman inn í Sauðárkrók gjör breytast til hins betra og hús sem áður voru lýti verða prýði.
    Ávinningur sveitarfélagsins af verkefninu hefur verið metinn af Deloitte og eru niðurstöður þess mats að Sveitarfélagið Skagafjörður mun hafa um 195 milljónir króna í hagnað af verkefninu á samningstímanum sem er 30 ár. Gert er ráð fyrir að 10 manns muni starfa hjá fyrirtækinu í upphafi og fjölga upp í 15?18 þegar fram líða stundir, gangi áætlanir eftir.
    Tveir starfsmenn Sveitarfélagsins Skagafjarðar munu vera staðsettir í húsnæðinu en upplýsingamiðstöð sveitarfélagsins á Sauðárkróki verður staðsett þar. Er það efling frá því sem verið hefur en opnunartími miðstöðvarinnar verður lengri en verið hefur og er þar með komið til móts við kröfu um aukinn opnunartíma upplýsingamiðstöðvar á Sauðárkróki.
    Sveitarfélagið fær með framlagi sínu 10% eignarhlut í Sýndarveruleika ehf. Sú húsaleiga sem Sýndarveruleiki ehf. greiðir sveitarfélaginu nýtist til að mynda eignarhlut sveitarfélagsins í félaginu.
    Ef áætlanir ganga ekki eftir og Sýndarveruleiki ehf. hættir starfsemi þá eru í samningunum ákvæði sem verja sveitarfélagið t.d. er varðar húsnæðið og heimila riftun leigusamnings þannig að húsnæðið gengur að fullu til baka til sveitarfélagsins.
    Er það mat meirihluta sveitarstjórnar að mikil tækifæri felist í þessu verkefni fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð og að það muni verða til þess að koma Skagafirði enn betur á kortið og fjölga ferðamönnum í Skagafirði verulega með öllum þeim fjölmörgu afleiddu störfum, verkefnum og tækifærum sem því fylgir. Úttektir sýna að verkefnið er hagfellt fyrir sveitarsjóð, störfum mun fjölga og nýir fjárfestar skjóta föstum rótum í samfélaginu.
    Meirihluti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar nýrri fjárfestingu og er það eitt af markmiðum þess meirihluta að efla atvinnu og fjölga störfum í Sveitarfélaginu Skagafirði. Að því munum við vinna áfram.

    Álfhildur Leifsdóttir kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun:
    Umfang og tímalengd skuldbindinga, ívilnana og fjárútláta er tengjast samstarfssamningi um uppbyggingu sýndarveruleikasýningar Sýndarveruleika ehf. og áhrif þeirra á rekstur og framkvæmdagetu sveitarfélagsins næstu 30 árin, er fordæmalaust hjá sveitarfélagi á Íslandi.
    Að mörgu leyti stendur þetta mál enn á svipuðum stað og skilið var við það fyrir rúmu hálfu ári síðan. Þrátt fyrir breytingar á nokkrum atriðum í samnings drögum, eiga þeir fyrirvarar og gagnrýni sem VG og óháð hafa áður sett fram vegna málsins, bæði bréfleiðis og í bókunum í fundargerðir byggðaráðs, enn við í meginatriðum. Er því sú afstaða sem þar kemur fram ítrekuð hér. Ljóst er að langtíma skuldbindingar, ívilnanir og fjárútlát vegna fyrirtækisins Sýndarveruleiki ehf. munu fela í sér aukin rekstrargjöld og skerða framkvæmdagetu sveitarfélagsins næstu áratugi. Enn fremur er ítrekað mikilvægi þess að íbúar geti kynnt sér efni samningsins er varða skuldbindingar og ívilnanir sveitarfélagsins vegna hans.
    Áður hafa VG og óháð bent á að við meðferð málsins hafi ekki verið tekið tilliti til mikilvægra stórra og augljósra skuldbindinga og áhrifum þeirra á rekstur sveitarfélagsins til lengri tíma litið, sem myndu hleypa fjárhagslegum skuldbindingum sveitarfélagsins vegna Sýndarveruleika ehf. yfir 700 milljónir ef engu er undan skotið. Líklegt er að þær skuldbindingar hafi ekki lækkað frá þeim tíma þó hluti stuðningsins hafi verið settur í annan búning, svo sem að þeir tveir starfsmenn sem sveitarfélagið stendur straum af launakostnaði fyrir næstu 10 ár, verði starfsmenn sveitarfélagsins en ekki fyrirtækisins.
    Enn hefur ekki verið unnin fagleg óháð úttekt á heildarskuldbindingum Sveitarfélagsins vegna Sýndarveruleika ehf. Minnisblað lögmanna sveitarfélagsins hjá Megin, sem unnu að sjálfri samningagerðinni og sáu um að svara fyrir hönd meirihlutans kærum og fyrirspurnum stjórnvaldsaðila er því ekki tækt.
    VG og óháð hafa einnig sett fyrirvara við álit Deloitte um ávinning sveitarfélagsins af verkefninu sem virðist mjög óverulegur í ljósi þess hve mikið sveitarfélagið hyggst leggja í verkefnið. Álitið byggðist á forsendum og gögnum sem þeim voru lögð til, svo sem væntingum um gestafjölda, sem óvíst er að gangi eftir. Eðlilegt er að gera ríkari kröfur til vandaðri efnistaka og greiningar slíks fyrirtækis en álitið virtist fela í sér. Þá hefur ekki enn verið óskað eftir því við endurskoðanda sveitarfélagsins að hann leggi mat á áhrif samningsins og þeirra langtímaskuldbindinga sem hann felur í sér á rekstur og fjárfestingagetu sveitarfélagsins á samningstímanum.
    Ljóst er að þó meirihluti sveitarstjórnar samþykki samninginn, eru margar vörður á leiðinni varðandi málsmeðferðina sem þarf að tryggja að gætt verði að. Ekki eru öll kurl komin til grafar varðandi ferlið sem framundan er. Afstaða til samningsins er óbreytt. Þó vissulega sé fagnaðarefni að fyrirtæki eins og Sýndarveruleiki ehf. bætist við í flóru afþreyingar í héraðinu, ætti það eins og önnur afþreyingarfyrirtæki hér að geta staðið á eigin fótum. Eru VG og óháð því andvíg samningunum í núverandi mynd.
    Álfhildur Leifsdóttir og Bjarni Jónsson, VG og óháð

    Jóhanna Ey Harðardóttir kvaddi sér hljóðs og lagði fram bókun: Við undirrituð lögðum m.a. til að fram skuli fara almenn atkvæðagreiðsla meðal íbúa til að fá niðurstöðu í málið. Það er okkar mat að með því hefði fengist hvað mest sátt um málið, sem allir gætu unað við. Því var hafnað, og er það miður. Við hinsvegar skorumst ekki undan ábyrgð og er afstaða okkar skýr, og munum við greiða atkvæði á móti því að samningurinn verði samþykktur. Það gerum við m.a. á þeim forsendum að við teljum okkur ekki hafa neitt umboð til þess að skuldbinda sveitarfélagið til svo langs tíma með þessum hætti.
    Það er mikilvægt að átta sig á því, í þessu samhengi, að íslenskt efnahagslíf getur gjörbreyst á stuttum tíma, mun styttri en gildistími þessa samnings hljóðar uppá, og getur þá verið nauðsynlegt að hagræða og skera niður í rekstri, en samningur þessi mun að öllu leiti komast hjá þesskonar aðgerðum.
    Að lokum vil ég benda á að það er samningurinn sem við greiðum atkvæði okkar á móti, og sú afgerandi þátttaka sveitarfélagsins við rekstur setursins, en ekki útfærsla á viðskiptahugmyndinni sem slíkri, sem vonandi gengur upp í alla staði og verður sveitarfélaginu til sóma.

    Jóhanna Ey Harðardóttir
    Ólafur Bjarni Haraldsson

    Samningurinn borinn upp til afgreiðslu og samþykktur með fimm atkvæðum gegn fjórum.

2.Samningur um byggingarstjórn og verkefnastýringu vegna Aðalgötu 21

Málsnúmer 1803027Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá á fundi sveitarstjórnar þann 21. mars 2018, en því frestað.
Lagður fram til samþykktar samningur um byggingarstjórn, verkefnastýringu og fleira vegna Aðalgötu 21 við verktakafyrirtækið Performa. Bjarni Jónsson kvaddi sér hljóðs.
Samningurinn borinn upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykktur með fimm atkvæðum meirihluta. Bjarni Jónsson og Álfhildur Leifsdóttir sátu hjá. Ólafur Bjarni Haraldsson og Jóhanna Ey Harðardóttir sátu hjá.

Fundi slitið - kl. 17:25.