Fara í efni

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar

306. fundur 10. október 2013 kl. 11:00 - 12:27 í Safnahúsi við Faxatorg
Nefndarmenn
  • Bjarni Jónsson forseti
  • Stefán Vagn Stefánsson aðalm.
  • Bjarki Tryggvason aðalm.
  • Viggó Jónsson aðalm.
  • Jón Magnússon aðalm.
  • Sigríður Svavarsdóttir aðalm.
  • Sigurjón Þórðarson aðalm.
  • Þórdís Friðbjörnsdóttir 1. varam.
  • Þorsteinn Tómas Broddason 1. varam.
  • Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri
  • Helga Sigurrós Bergsdóttir ritari
Fundargerð ritaði: Helga Sigurrós Bergsdóttir stjórnsýsluritari
Dagskrá
Þar sem bæði 1. varaforseti Sigríður Magnúsdóttir og 2. varaforseti Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir eru fjarverandi, leggur forseti til að Þórdís Friðbjörnsdóttir sinni því embætti á fundinum. Engar athugasemdir voru gerðar við þá tillögu.

1.Áform um sameiningu heilbrigðisstofnana innan heilbrigðisumdæma

Málsnúmer 1309361Vakta málsnúmer

Forseti, Bjarni Jónsson kynnti bréf velferðarráðuneytis er varða fyrirhuguð áform um sameiningu heilbrigðisstofnanna innan heilbrigðisumdæma.
Stefán Vagn Stefánsson kvaddi sér hljóðs og kynnti ályktun sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur móttekið bréf velferðarráðuneytisins dags. 25. september sl., þar sem fram kemur að ráðuneytið stefni að sameiningu heilbrigðisstofnana, m.a. sameiningu 6 stofnana á Norðurlandi í eina í heilbrigðisumdæmi Norðurlands.


Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hafnar alfarið framkomnum áformum velferðarráðuneytis um sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi. Þá er ljóst að það framlag sem heilbrigðistofnuninni á Sauðárkróki er ætlað í fjárlögum fyrir árið 2014 mun þýða áframhaldandi niðurskurð og fækkun starfa og mikla þjónustuskerðingu fyrir íbúa héraðsins. Við slíkt verður ekki unað.
Sveitarstjórn skorar á heilbrigðisráðherra að endurskoða framkomnar hugmyndir og óskar formlega eftir viðræðum við ráðherra um yfirtöku stofnunarinnar og leiðir til að núverandi þjónusta skerðist ekki frekar en orðið er.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hafnar alfarið áformum stjórnvalda og bendir á að þau gangi þvert gegn tveimur mjög viðamiklum og metnaðarfullum stefnumiðum stjórnvalda sem boðuð hafa verið og unnið að á liðnum árum. Er þar annars vegar um að ræða aukinn tilflutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga, þ.m.t. tilfærslu heilsugæslu og öldrunarþjónustu frá ríki til sveitarfélaga til að tryggja góða þjónustu og stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúana og hins vegar Sóknaráætlun landshluta þar sem Norðurland vestra er skilgreint sem eitt sóknarsvæði.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar bendir á að enginn landshluti hafi orðið jafn illa fyrir barðinu á niðurskurði í ríkisrekstri eins og Norðurland vestra, líkt og staðfest er í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Langverst hefur niðurskurðurinn bitnað á heilbrigðisþjónustu á svæðinu og þá ekki síst á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki. Á sama tíma hefur ársverkum ríkisstarfsmanna fjölgað verulega á höfuðborgarsvæðinu, suðurnesjum og Suðurlandi.

Sameining heilbrigðisstofnana þvert yfir svæði sóknaráætlana er aðeins til þess fallin að skerða enn frekar þjónustu við íbúa í Skagafirði og draga úr samkeppnishæfni svæðisins. Er það þvert á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem leggur áherslu á jafnrétti til búsetu og að íbúar landsins fái notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í nútímasamfélagi. Í stefnuyfirlýsingu ríkistjórnarinnar segir að unnið verði að opinberum áætlunum í samvinnu við sveitarfélögin og hlutverk þeirra aukið sem og að heimamenn komi að forgangsröðun verkefna í héraði.
Gengur það jafnframt gegn niðurstöðum um skipulag heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi sem unnin var af stjórnendum og fagfólki á heilbrigðisstofnunum á Norðurlandi en það fagfólk telur ekki skynsamlegt að allar heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi verði sameinaðar í eina stofnun.

Við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki er rekin saman heilsugæsla, sjúkrarými og öll hjúkrunar- og dvalarrými í umdæminu. Við stofnunina er húsnæði fyrir dagvist aldraðra sem Sveitarfélagið Skagafjörður rekur, einnig er samstarf stofnunarinnar við sveitarfélagið mikið, sem er hentugt fyrir báða aðila. Í ljósi framangreinds óskar Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar eftir viðræðum við velferðarráðuneytið um að sveitarfélagið taki við rekstri Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki og núverandi verkefnum hennar, samkvæmt samningi við ríkið. Verði það unnið með svipuðum hætti og gert er vegna mögulegrar yfirtöku Vestmannaeyjabæjar á heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum.

Bjarki Tryggvason
Bjarni Jónsson
Jón Magnússon
Sigríður Svavarsdóttir
Sigurjón Þórðarson
Stefán Vagn Stefánsson
Viggó Jónsson
Þorsteinn Tómas Broddason
Þórdís Friðbjörnsdóttir

Sigurjón Þórðarson, Þorsteinn Tómas Broddason, Jón Magnússon, Bjarni Jónsson með leyfi forseta, Sigurjón Þórðarson tóku til máls.

Forseti bar upp framkomna ályktun sveitarstjórnar og var hún samþykkt með níu atkvæðum.

2.Boðaður niðurskurður í fjárlögum til stofnana og verkefna í Skagafirði

Málsnúmer 1310108Vakta málsnúmer

Stefán Vagn Stefánsson kvaddi sér hljóðs og kynnti ályktun sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir furðu sinni á að með framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014 skuli ríkisstjórn Íslands enn halda áfram þeirri aðför að sveitarfélaginu sem viðgengist hefur frá efnahagshruninu árið 2008.

Fram hefur komið við upplýsingaöflun Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, að frá árinu 2008 og til dagsins í dag hafa hátt í 50 stöðugildi á vegum ríkisins í Skagafirði verið lögð niður eða flutt til annarra landsvæða. Þessar tölur eru mjög í takt við nýja skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir Byggðastofnun en hún leiðir í ljós að enginn annar landshluti hefur orðið fyrir jafn miklum hlutfallslegum niðurskurði af hálfu ríkisins og Norðurland vestra. Á sama tíma hefur ríkisstörfum fjölgað á höfuðborgarsvæðinu og nálægum landshlutum.

Nái fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2014 fram að ganga óbreytt mun störfum á vegum ríkisins í Skagafirði fækka um a.m.k. 20 til viðbótar við þau störf sem þegar eru horfin úr héraðinu. Það er í hróplegu ósamræmi við allt sem eðlilegt getur talist í jafnræði við íbúa landsins og fögur fyrirheit í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar um jafnrétti til búsetu, að íbúar landsins fái notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í nútímasamfélagi og að stuðlað verði að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, m.a. með dreifingu opinberra starfa.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar leggur áherslu á að skagfirðingar eru reiðubúnir að axla byrðar þær sem lagðar hafa verið á landsmenn til jafns við aðra íbúa. Með öllu er hins vegar óverjandi að skagfirðingar þurfi að taka á sig mun meiri þjónustuskerðingar og niðurskurð en aðrir landsmenn. Hafa ber í huga að hagvöxtur á svæðinu var neikvæður á árunum fyrir efnahagshrunið og því ekki þensluvalda að finna þar.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á ríkisstjórn Íslands og Alþingi að draga nú þegar til baka boðaðan niðurskurð gagnvart starfsemi ríkisins á svæðinu og beita sér þvert á móti fyrir eðlilegri uppbyggingu og þjónustu til jafns við aðra landshluta.

Bjarki Tryggvason
Bjarni Jónsson
Jón Magnússon
Sigríður Svavarsdóttir
Sigurjón Þórðarson
Stefán Vagn Stefánsson
Viggó Jónsson
Þorsteinn Tómas Broddason
Þórdís Friðbjörnsdóttir

Sigurjón Þórðarson, Bjarni Jónsson með leyfi forseta, Viggó Jónsson tóku til máls.
Forseti bar upp framkomna ályktun sveitarstjórnar og var hún samþykkt með níu atkvæðum.

Fundi slitið - kl. 12:27.