Fara í efni

Skipulagsnefnd

47. fundur 04. apríl 2024 kl. 10:00 - 12:20 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Sigríður Magnúsdóttir formaður
  • Eyþór Fannar Sveinsson aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
  • Þröstur Magnússon varam.
Starfsmenn
  • Sæunn Kolbrún Þórólfsdóttir skipulagsfulltrúi
  • Sigurður H Ingvarsson starfsmaður skipulagsfulltrúa
Fundargerð ritaði: Sæunn Kolbrún Þórólfsdóttir skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Endurskoðun aðalskipulags Skagafjarðar 2025-2040

Málsnúmer 2404001Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Skagafjarðar hefur samþykkt að hefja endurskoðun á aðalskipulagi Skagafjarðar. Í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er lögð fram skipulags- og matslýsing, þar sem gerð er grein fyrir helstu forsendum og áherslum komandi skipulagsvinnu, valkostum til skoðunar, nálgun umhverfismats og kynningarmálum.
Endurskoðunin er m.a. tilkomin vegna sameiningar Akrahrepps og sveitarfélagsins Skagafjarðar 29. maí 2022 og fjölbreyttra áskorana sem felast í byggðaþróun ásamt nýjum áskorunum vegna loftslagsmála.
Skipulagsvinnan mótar stefnu um hagkvæma nýtingu lands, samgöngur og gæði byggðar. Jafnframt felur skipulagið í sér mótun stefnu í umhverfismálum og hvernig skipulag getur stuðlað að kolefnishlutleysi í samræmi við markmið Íslands þar um og lög nr. 70/2012 um loftslagsmál.
Nýtt endurskoðað aðalskipulag sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 var staðfest 4. apríl 2022. Nýtt aðalskipulag sameinaðs sveitarfélags Skagafjarðar og Akrahrepps mun byggja á þeirri vinnu sem unnin var í tengslum við þá endurskoðun.
Á kynningartíma skipulagslýsingar er óskað eftir ábendingum, sjónarmiðum og athugasemdum frá íbúum og öðrum hagsmunaaðilum, sem að gagni gætu komið í þeirri skipulagsvinnu sem framundan er. Jafnframt er leitað til lögboðinna umsagnaraðila á þessu stigi og haft samráð við Skipulagsstofnun um umfang og áherslur við mat á umhverfisáhrifum aðalskipulagsins.

Skipulagsfulltrúa falið að vinna málið áfram í samræmi við umræður fundarins.

2.Beiðni um kynningarfund vegna breytinga á Aðalskipulagi 2020-2035

Málsnúmer 2404002Vakta málsnúmer

Hanna Dóra Björnsdóttir sendir inn erindi þar sem hún óskar eftir opnum íbúafundi eða kynningarfundi vegna breytingar á Aðalskipulagi sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 er varðar afþreyingar- og ferðamannasvæði við Sauðárgil (AF-402) á Sauðárkróki.
Málið er númer 515/2023 í Skipulagsgáttinni, sjá nánar hér: https://skipulagsgatt.is/issues/2023/515.

Skipulagsnefnd fellst á beiðni um opinn kynningarfund og mun dagsetning hans vera auglýst innan tíðar.

3.Freyjugarðurinn - Deiliskipulag

Málsnúmer 2305141Vakta málsnúmer

Lögð fram uppfærð deiliskipulagstillaga fyrir Freyjugarðinn á Sauðárkróki sem unnin var hjá Landslagi ehf. af Önnu Kristínu Guðmundsdóttur, teikning nr. 01, verknúmer 23111, dag. 23.03.2024. Tekið hefur verið tillit til þeirra athugasemda sem fram komu við auglýsingu vinnslutillögu og á íbúafundi sem haldinn var vegna málsins þann 28.02.2024 og að hluta til gerðar breytingar á deiliskipulagstillögunni.

Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram í samræmi við umræður fundarins.

4.Mjólkursamlagsreitur breyting á deiliskipulagi - Skagfirðingabraut 51 - Deiliskipulag

Málsnúmer 2404003Vakta málsnúmer

Sigurjón R. Rafnsson fyrir hönd Kaupfélags Skagfirðinga, þinglýsts lóðarhafa Skagfirðingabrautar 51 og Ártorgs 1, óskar eftir heimild til að láta vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi mjólkursamlagsreitsins, einkum á lóð Skagfirðingabrautar 51, á kostnað framkvæmdaraðila skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingarsvæðið er á norðvestur horni lóðarinnar og breytingin snýr að stækkun byggingareits á lóðinni fyrir viðbyggingu mjólkursamlags. Umrædd stækkun byggingarreits gerir lóðarhafa kleift að endurnýja framleiðslubúnað án þess að stöðva starfsemi mánuðum saman. Stærð skipulagssvæðis, afmarkanir lóða og lóðastærðir er óbreytt. Skipulagssvæðið er á miðsvæði nr. M402, í Aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035.

Að fenginni heimild, til að láta vinna deiliskipulag skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, verður lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi mjólkursamlagsreitsins, skipulagsuppdráttur nr. DS01, í verki nr. 56293201, dags. 27.03.2024, unnin hjá Stoð ehf. verkfræðistofu.

Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu málsins og óskar eftir að funda með forsvarsmönnum Kaupfélags Skagfirðinga vegna málsins.

5.Staðarbjargarvík - Hofsós - Deiliskipulag

Málsnúmer 2402024Vakta málsnúmer

Farið yfir samantekt á innsendum umsögnum við skipulagslýsingu fyrir Staðarbjargarvík, Hofsósi, Skagafirði, mál nr. 210/2024 (https://skipulagsgatt.is/issues/2024/210) í Skipulagsgáttinni, samráðsgátt Skipulagsstofnunar um skipulagsmál.

Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram í samræmi við umræður fundarins.

6.Grafargerði L146527 - Umsókn um byggingarreit

Málsnúmer 2403156Vakta málsnúmer

Magnús Bogi Pétursson þinglýstur eigandi jarðarinnar Grafargerði, landnúmer 146527 óska eftir heimild til að stofna 625,25 m² byggingarreit á landi jarðarinnar, skv. meðfylgjandi afstöðuuppdrætti nr. S01 í verki 74700102, útg. 21. mars 2024. Afstöðuppdráttur var unnin á Stoð ehf. verkfræðistofu af Birni Magnúsi Árnasyni.
Um er að ræða byggingarreit fyrir einnar hæðar íbúðarhús. Hámarksbyggingarmagn verður 200 m² og hámarksbyggingarhæð verður 5 m frá gólfi í mæni.
Byggingarreitur, sem sótt er um, er á landbúnaðarsvæði í aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035 og er í samræmi við ákvæði aðalskipulags um uppbyggingu á landbúnaðarsvæðum.

Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að afgreiða erindið að fenginni umsögn minjavarðar.

7.Beiðni um aðalskipulagsbreytingu vegna deiliskipulagsvinnu - Neðri-Ás í Viðvíkursveit

Málsnúmer 2404005Vakta málsnúmer

Ingólfur Fr. Guðmundsson á Kollgátu ehf. fyrir hönd landeigenda óskar eftir leyfi til óverulegrar breytingar á aðalskipulagi vegna landsspildu í landi Neðri Áss 2 í Hjaltadal þar sem unnið hefur verið að deiliskipulagi fyrir frístundabyggð undanfarin ár. Stærð landnýtingarreitsins hækkar úr 25,2 ha í 31,7 ha sem er 20% stækkun á nýtingu undir frístundabyggð. Nýting svæðisins er þó óbreytt.
Fyrir liggur deiliskipulagstillaga fyrir svæðið sem gerir ráð fyrir 9 frístundalóðum sem standa nær tjörn, vestast á skipulagssvæðinu og eru þessar lóðir nú utan skilgreinds frístundasvæðis F8 skv. aðalskipulagi.
Óskað er eftir því að mörk flákans verði stækkuð eins og sýnt er í meðfylgjandi gögnum.
Svæðið var við upphaf deiliskipulagsvinnu þessarar merkt með fjólubláum punkti eins og tíðkast á dreifbýlissvæðum en við síðustu aðalskipulagsbreytingu Skagafjarðar hefur svæðið verið dregið í fláka á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulagsins og áform deiliskipulagsins rúmast ekki innan núverandi forms á svæðinu sem merkt er sem F8 í Aðalskipulagi sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Samþykkt var hjá sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar 22. júní 2015 að umrætt land væri tekið úr landbúnaðarnotkun og skilgreint sem frístundarsvæði.

Skipulagsnefnd fellst á að um óverulega breytingu á gildandi aðalskipulagi sé að ræða og leggur til við sveitarstjórn að samþykkja ofangreinda breytingingu og senda Skipulagsstofnun, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

8.Neðri-Ás 2, land 3 og 4 - Umsókn um deiliskipulag

Málsnúmer 1505046Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá sveitarstjórnar Skagafjarðar á 402. fundi þeirra þann 23.09.2020, þá bókað:
“Málinu vísað frá 386. fundi skipulags- og byggingarnefndar frá 21. september 2020 til afgreiðslu sveitarstjórnar. Lögð er fram tillaga frá Kollgátu arkitektum dags. 3.9.2019, að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Neðri-Áss 2, land 3 og land 4 í Hjaltadal. Um er að ræða 8,5 ha spildu sem staðsett er á ási, sem skilur að Hjaltadal í vestri og Kolbeinsdal í austri. Deiliskipulagið gerir ráð fyrir 9 lóðum undir frístundahús og 9 lóðum fyrir orlofshúsabyggð. Fyrir eru á svæðinu nokkur frístundahús. Aðkoma að svæðinu er um Siglufjarðarveg og um aðkomuveg af Ásavegi. Deiliskipulagið er í samræmi við gildandi aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2009-2021 og tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 sem er í skipulagsferli. Borið upp til afgreiðslu og samþykkir Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar tillöguna með níu atkvæðum og mælist til að hún verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010."

Í dag liggur fyrir uppfærð umsókn frá Ingólfi Fr. Guðmundssyni hjá Teiknistofunni Kollgátu ehf. fyrir fyrir hönd landeigenda að Neðri Ás 2, og leggur fram deiliskipulagstillögu Neðri Ás 2, Hjaltadal, Skagafirði, uppdráttur nr. 001, uppfærður 08.03.2024 ásamt greinargerð með sömu dagsetningu.
Ekkert deiliskipulag er til af umræddu svæði.
Deiliskipulagið fjallar um 9 sumarhúsalóðir í landi Neðri Áss og eru 5 af þeim nú þegar byggðar að hluta eða öllu leiti og einnig 10 nýjar lóðir fyrir frístundahús, baðhús og skemmu.

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja framkomna tillögu og auglýsa deiliskipulagstillöguna fyrir Neðri Ás 2, Hjaltadal, Skagafirði skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

9.Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 35

Málsnúmer 2403030FVakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð byggingarfulltrúa frá fundi nr. 35 þann 26.03.2024.

Fundi slitið - kl. 12:20.