Fara í efni

Skipulagsnefnd

33. fundur 19. september 2023 kl. 09:00 - 11:00 í Ráðhúsi, Skr.
Nefndarmenn
  • Sigríður Magnúsdóttir formaður
  • Jón Daníel Jónsson varaform.
  • Eyþór Fannar Sveinsson aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sæunn Kolbrún Þórólfsdóttir skipulagsfulltrúi
  • Sigurður H. Ingvarsson starfsmaður skipulagsfulltrúa
Fundargerð ritaði: Sæunn Kolbrún Þórólfsdóttir skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Borgargerði 4 L234946 - Deiliskipulag

Málsnúmer 2304004Vakta málsnúmer

Farið yfir innsendar athugasemdir við skipulagslýsingu Borgargerðis 4 sem finna má á nýrri Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar mál nr. 425/2023 undir vefslóðinni https://skipulagsgatt.is/issues/425.
Skipulagsfulltrúa falið að vinna málið áfram í samræmi við umræður fundarins.

2.Sólheimar 2 - Deiliskipulag

Málsnúmer 2307129Vakta málsnúmer

Farið yfir innsendar athugasemdir við skipulagslýsingu Sólheima 2 í Blönduhlíð sem finna má á nýrri Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar mál nr. 449/2023 undir vefslóðinni https://skipulagsgatt.is/issues/449.
Skipulagsfulltrúa falið að vinna málið áfram í samræmi við umræður fundarins.

3.Brekkugata - Lindargata - Skógargata - Framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2309167Vakta málsnúmer

Að beiðni sveitarstjóra og sviðstjóra Veitu- og framkvæmdasviðs óskar Ingvar Páll Ingvarsson eftir að skipulagsnefnd Skagafjarðar taki fyrir eftirfarandi með tilvísun til fundargerða:
- Umhverfis og samgöngunefnd 18.8.2023 dagskrárliður nr. 1 „Nafir- ofanflóð Skógargata, Brekkugata og Lindargata, rannsóknir 2022“.
- Byggðarráð Skagafjarðar 23.8.2023 dagskrárliður nr. 2 „Nafir- ofanflóð Skógargata, Brekkugata og Lindargata, rannsóknir 2022“.
- Sveitarstjórn Skagafjarðar 13.8.2022 dagskrárliður nr 1.2 “Nafir- ofanflóð Skógargata, Brekkugata og Lindargata, rannsóknir 2022“.

Framlögð gögn:
Minnisblað Eflu verkfræðistofu dagsett 16.01. 2023.
Uppdrættir frá Stoð verkfræðistofu dagsettir júlí 2023 „ Brekkugata Sauðárkróki Mótfylling 2023“
Uppdrættir frá Stoð verkfræðistofu dagsettir ágúst 2023 „Lindargata 15-17 Sauðárkróki flái 2023“
Uppdrættir frá Stoð Verkfræðistofur dagsettir september 2023 „Skógargata 6b“

Með tilvísana í ofangreind gögn, niðurstöðu minnisblaðs Eflu þar sem m.a. segir „Við núverandi aðstæður er til skemmri tíma mesta hættan bundin við jarðvegstorfuna sem hleðst hægt og rólega upp og er á nokkrum stöðum komin í „yfirbratta“ og ógnar efstu húsum. Við þessu ástandi þarf að bregðast sem fyrst.“
Einnig er bent á að komi til mikilla haustrigninga eykst skriðuhætta umtalsvert.
Fyrirliggur umsögn minjavarðar vegna áætlaðrar framkvæmdar þar sem ekki er gerð athugasemd.

Skipulagsnefnd bendir á að umrætt svæði er innan Verndarsvæðis í byggð.
Nefndin leggur til við sveitarstjórn að heimila umbeðnar framkvæmdir og þeim verði hraðað eins og kostur sé í ljósi þess að um almannahagsmuni er að ræða vegna skriðuhættu.

4.Gamla bryggja Sauðárkróki - Ósk um framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2309166Vakta málsnúmer

Ingvar Páll Ingvarsson fh. Veitu- og framkvæmdasvið Skagafjarðar óskar eftir framkvæmdaleyfi við það svæði sem merkt er Gamla bryggja í gildandi deiliskipulagi Sauðárkrókshafnar, skipulagsnúmer 17500.
Leyfisumsókn nær til gatnagerðar og fráveitu, gangstíga, gerð bílastæða og annarrar landmótunar og umhverfis samkvæmt meðfylgjandi gögnum.

Nánar um framkvæmd sem mun byggja á meðfylgjandi gögnum sem eru:
Uppdráttur frá Teiknistofu Norðurlands - Gamla bryggjan Sauðárkróki, hafnartorg og umhverfi Siglingaklúbbsins Drangeyjar 13. júní 2022.
Uppdrættir frá verkfræðistofunni Stoð ehf. Siglingaklúbbur Sauðárkróki, - Malbikun 2023 afstöðumynd og hæðarlega, númer uppdrátta S-101 og S-102.
Stefnt er að hefja vinnu við hluta framkvæmdar nú í haust, þ.e.a.s. gatnagerð, fráveitu, malbik á gangstíga, akbrautir og bílastæði.

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að veita umbeðið framkvæmdaleyfi.

5.Hesthúsalóð 15 - Lóðarmál

Málsnúmer 2308181Vakta málsnúmer

Fyrir hönd dánarbús Jóhannesar Pálssonar óskar Sigurður Baldursson eftir að gert verði lóðarblað og lóðarleigusamningur fyrir hesthúsalóðina nr. 15 á Hofsósi.
Ekki liggur fyrir þinglýstur lóðarleigusamningur eða aðrar frumheimildir varðandi tilurð lóðarinnar.
Í fasteignaskrá er lóðin sögð 500m² og hesthús sem á lóðinni stendur skráð á
dánarbú Jóhannesar Pálssonar, 123,5m² og byggt árið 1987. Fasteignanúmer F2143819.

Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að vinna lóðarblað og gera lóðarleigusamning fyrir hesthúsalóð nr. 15 við Hofsós.

6.Hofsós lóð 2 (landnr. 146739) - Umsókn um stofnun landspildu og byggingarreits

Málsnúmer 2309165Vakta málsnúmer

Ævar Jóhannsson og Elsa Hlíðar Jónsdóttir þinglýstir eigendur ræktunarlandsins Hofsós lóð 2, landnúmer 146739 óska eftir heimild til að stofna 7275 m2 spildu úr landinu, sem “Naustabakki", skv. meðfylgjandi afstöðuuppdrætti nr. S01 í verki 79008900 útg. 13.09.2023. Afstöðuppdráttur var unnin á Stoð ehf. verkfræðistofu af Ínu Björk Ársælsdóttur.
Landheiti vísar í nærliggjandi örnefni.
Óskað er eftir að útskipt spilda verði skráð sem íbúðarhúsalóð (10).
Landskipti samræmast aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035 og styðja við markmið aðalskipulags um búsetu í dreifbýli.
Landskipti hafa óveruleg áhrif á búrekstrarskilyrði og skerða að litlu leyti landbúnaðarsvæði í I. og II. flokki.
Engin verndarsvæði skv. gildandi aðalskipulagi eru innan útskiptrar spildu.
Engin fasteign er á umræddri spildu.
“Hofsós lóð 2" verður eftir landskipti í 100% eigu Elsu Hlíðar Jónsdóttur.
Stofnuð lóð verður í eigu Ævars Jóhannssonar.

Óskað er eftir að aðkoma að lóðinni verði um núverandi veg sem liggur frá Vogavegi (7838) og um land “Hofsós lóð 4" (landnr. 219946) að Naustabakka, eins og sýnt er á meðfylgjandi uppdrætti.

Undirritaðir þinglýstir eigendur Hofsós 2 landnr. 146739, óska jafnframt eftir heimild til að stofna 4254 m2 byggingarreit fyrir íbúðarhús, líkt og sýnt er á meðfylgjandi uppdrætti. Áætlað er hámarksbyggingarmagn verði eigi meira en 300 m2. Byggingarreiturinn er innan útskiptrar spildu og mun tilheyra henni að landskiptum loknum.

Skipulagsnefnd samþykkir erindið eins og það er fyrirlagt og felur skipulagsfulltrúa að afgreiða umsókn um byggingarreit að fenginni umsögn Minjavarðar.

7.Iðutún 12 (L203233) - Lóðarframkvæmdir

Málsnúmer 2309012Vakta málsnúmer

Skipulagsfulltrúa barst ábending um framkvæmdir nýverið við Iðutún 12 á Sauðárkróki hafi gengið inná opið svæði sveitarfélagsins. Um er að ræða vegg hlaðinn úr stórgrýti sem nú hefur verið staðfest að sé að verulegu leyti (55m2) utan framangreindrar lóðar. Lóðin er allt að tveimur metrum lægri en yfirborð aðliggjandi opins svæðis. Er veggnum ætlað að halda við jarðveg sem liggur að lóðinni.

Skipulagsfulltrúa er falið að ná samkomulagi við lóðarhafa sem feli í sér að lóðarhafi hverju sinni undirgangist kvöð um að fallvarnir sem sveitarfélagið samþykki skuli vera við lóðarmörkin, lóðarhafi beri kostnað af gerð þeirra og viðhaldi en sveitarfélagið eigi allar framkvæmdir utan lóðar. Kvöðinni verði þinglýst á lóðina Iðutún 12. Náist ekki samkomulag um þetta við lóðarhafa sem sveitarfélagið sætti sig við verði undirbúið stjórnsýslumál til þess að hann fjarlægi framkvæmdina og færi jarðveg og gróður í fyrra horf á eigin kostnað.

8.Borgarsíða 4 - Lóðarmál

Málsnúmer 2309037Vakta málsnúmer

Á 23. fundi skipulagsnefndar 27. apríl sl. var beiðni lóðarhafa um 40 m breiðan innkeyrslustút hafnað. Meðfylgjandi erindi þessu er lóðaruppdráttur (S101 verknr. 3245) unnin af Áræðni ehf. kt. 420807-0150 dagsettur 23.08.2023, 3. útgáfa sem sýnir tillögu að lóðarskipulagi, byggingarreit, byggingarmagni og áfangaskiptingu ásamt tillögu að tveimur 15 m breiðum innkeyrslustútum. Líkt og fyrri tillaga helgast þessi breytingatillaga af lítilli fjarlægð húss frá götu sem orsakast af kvöð um helgunarsvæði háspennustrengja er liggja nyrst í lóðinni. Byggingarreitur stækkaður til norðurs um 1,5 m. Það gert ásamt því að færa húsið til norðurs um 2 m innan gildandi byggingarreits. Fyrirhugað er að húsinu verði skipt í tvær séreignir og innkeyrslustútar staðsettir gengt innkeyrsluhurðum séreigna. Ómar Kjartansson hefur gengið til samninga við G.Bentsson ehf. um kaup á helming hússins ásamt meðfylgjandi lóðarréttindum, undirrita því báðir aðilar umsókn þessa.

Skipulagsnefnd samþykkir erindið eins og það er fyrirlagt.

9.Gýgjarhóll - Ögmundarstaðir - Fyrirspurn um framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2309132Vakta málsnúmer

Eigendur jarðanna Gýgjarhóls L145974, Gýgjarhóll 1 L233888 og Ögmundarstaða L146013 í Skagafirði senda inn fyrirspurn dags. 10.09.2023 um hvort leyfi þurfi til framkvæmda/jöfnunar undir afréttargirðingu með vísan til 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2010.
Ástæða umsóknar/fyrirspurnar:
- Núverandi afréttargirðingar eru mjög lélegar og eða ónýtar og getur skepnum stafað hætta af.
- Horn sem eru í núverandi girðingarstæðum við landamerki Hafsteinsstaða 1 og Víkurfjalls tekin af, það gert m.a. samkvæmt ábendingum fagaðila, ráðunautar og girðingarverktaka.
- Horft er til þess að nýta þann hluta fjalllendisins sem ekki nýtist til ræktunar og ekki telst gott beitiland til landgræðslu og kolefnisjöfnunar og er það í samræmi við skipulagsstefnu sveitarfélagsins um flokkun landbúnaðarlands eftir gæðum ræktarlands.
Um ætlaða framkvæmd segir m.a. um er að ræða fjárhelda netgirðingu innan landamerkja ofangreindra jarða og forsenda þess því jöfnun girðingarstæðis.
Sá hluti framkvæmdar sem áhrif hefur á ásýnd lands er jöfnun undir girðingarstæði til einföldunar og hagræðis við girðingarvinnu sem jafnframt yrði vélfær slóði til viðhalds girðinga.
Öllu jarðraski verður haldið í lágmarki og lega girðingarstæðis valin með tilliti til hagræðis.
Í lægðum og drögum verða grjótræsi eða annar viðurkenndur frágangur.
Á landamerkjum verða grafnir niður fyrir frost raflínustaurar, einnig verða þar sem þurfa þykir í girðingarstæði grafnir niður fyrir frost raflínustaurar til styrkingar.
Að framkvæmd lokinni verður jarðrask lagað eins og kostur er og í samráði við aðila og eftir því sem þurfa þykir sáð í sár og að verkið verður unnið í samræmi við gildandi lög og reglur.

Skipulagsnefnd telur að nægar upplýsingar hafi verið veittar um framkvæmdina til þess að ákveða hvort hún sé leyfisskyld, skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin telur nauðsynlegt að tryggt sé að samhliða framkvæmd verði gripið til mótvægisaðgerða sem hafi það markmið að minnka umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og draga úr breytingum á ásýnd umhverfis sem af henni getur hlotist, t.d. vegna jarðvegsrofs, sem kostur er, s.s. með því að græða upp jarðrask sem fylgir framkvæmd sem mest lýti er að og að fjarlægja girðingar sem framkvæmdin leysir af hólmi.
Skipulagsnefnd samþykkir að framkvæmdaaðila verði gert að undirgangast framangreindar mótvægisaðgerðir, sbr. áður. Meðan slíkum aðgerðum sé fylgt sé ekki þörf á framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni eins og henni er lýst.

Sigurður H. Ingvarsson vék af fundi við afgreiðslu erindisins.

10.Víkurfjall L231371 - Tilkynning um framkvæmd og fyrirspurn um leyfisskyldu vegna afréttargirðingar

Málsnúmer 2309186Vakta málsnúmer

Arnór Halldórsson Hafstað tilkynnir sem eigandi Víkurfjalls, L231371 og sem lögmaður, f.h. Útvíkufélagsins ehf. vegna jarðarinnar Kúfhóla, L233783 og Friðriks Stefánssonar vegna jarðarinnar Glæsibæjar, L145975 um fyrirhugaða framkvæmd við afréttargirðingu í austanverðri Staðaröxl í eignarlöndum jarðanna.

Ástæða framkvæmdar og áhrif:
- Núverandi girðing í Glæsibæjarlandi er orðin mjög léleg og girðingar í landi Víkurfjalls og Kúfhóla hafa verið fjarlægðar, sbr. áður. Mikill ágangur búfjár af afrétti eru á þessar jarðir og skynsamleg nýting fjalllendis þeirra í raun óhugsandi við núverandi aðstæður. Þá er smölun afréttar í austanverðri Staðaröxl illframkvæmanlegur á meðan fé getur leitað niður í heimalönd umræddra jarða.
- Lega núverandi girðingar í landi Glæsibæjar er að hluta til óheppileg m.t.t. snjóalalaga, sem er ástæða fyrir áðurgreindum ráðgerðum flutningi hennar að hluta, auk þess sem tilfærslan gerir mögulegt að láta girðingu Kúfhóla og girðingu Glæsibæjar standast á, betur en áður. Núverandi horn sem myndast á afréttargirðingunni á þessum stað er óheppilegt samkvæmt ábendingum fagaðila, ráðunautar og girðingarverktaka.
- Gert er ráð fyrir að framkvæmdinni geti fylgt jákvæð áhrif, vegna friðunar eða mögulegrar beitarstýringar, á aðliggjandi land neðan við ráðgerða girðingu. Gert er ráð fyrir að sjónræn áhrif af vegslóða verði merkjanleg til þess að byrja með en slóðinn grói svo upp og verði svo smám saman ósýnilegur úr fjarlægð svo sem reynslan sýnir, sbr. mynd á fylgiskjali 2.

Mótvægisaðgerðir: Samhliða framkvæmd og að henni lokinni verður ráðist í mótvægisaðgerðir sem hafi það að markmiði að minnka umhverfisáhrif hennar, þ.m.t. draga, sem kostur er, úr breytingum á ásýnd umhverfis sem af henni getur hlotist, t.d. vegna jarðvegsrofs, s.s. með því að minnka halla á skeringum ofan við slóða ef slíkt er talið þjóna framangreindu markmiði og græða upp jarðrask sem fylgir framkvæmd sem mest lýti er að m.a. með sáningu, sem og að fjarlægja girðingar sem framkvæmdin leysir af hólmi. Við útfærslu mótvægisaðgerða verði haft samráð við þann aðila sem sveitarfélagið kann að fá í það verk og eftir því sem krafa verður gerð um slíkt samráð af hálfu þess.

Skipulagsnefnd telur að nægar upplýsingar hafi verið veittar um framkvæmdina til þess að ákveða hvort hún sé leyfisskyld, skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin telur nauðsynlegt að tryggt sé að samhliða framkvæmd verði gripið til mótvægisaðgerða sem hafi það markmið að minnka umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og draga úr breytingum á ásýnd umhverfis sem af henni getur hlotist, t.d. vegna jarðvegsrofs, sem kostur er, s.s. með því að græða upp jarðrask sem fylgir framkvæmd sem mest lýti er að og að fjarlægja girðingar sem framkvæmdin leysir af hólmi.
Skipulagsnefnd samþykkir að framkvæmdaaðila verði gert að undirgangast framangreindar mótvægisaðgerðir, sbr. áður. Meðan slíkum aðgerðum sé fylgt sé ekki þörf á framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni eins og henni er lýst.

Sigurður H. Ingvarsson vék af fundi við afgreiðslu erindisins.

11.Hrolleifsdalsafrétt - Framkvæmdir

Málsnúmer 2309133Vakta málsnúmer

Skipulagsfulltrúa barst nýverið ábending um framkvæmd án leyfis í Hrolleifsdal við viðhald og gerð vegslóða sem kunni að vera þess eðlis að hún hafi verið framkvæmdaleyfisskyld, skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þ.e. teljist til „meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku“.

Nefndin bendir á að þótt framkvæmd kunni að hafa fengið úthlutað framkvæmdafé sem ráðstafað sé skv. ákvörðun sveitarstjórnar frá fundi þeirra 23.08.2023 þá þýði það ekki sjálfkrafa að kveðið hafi verið uppúr með, af bærum aðila, að ekki þurfi framkvæmdaleyfi fyrir henni.

Þar sem afgeiðsla umsókna um framkvæmdaleyfi telst meðal verkefna sem nefndin hefur fullnaðarákvörðunarvald yfir, skv. 3. gr. viðauka I við samþykkt um stjórn Skagafjarðar verði að líta svo á að ákvörðun um hvort framkvæmd teljist framkvæmdaleyfisskyld, skv. 13. gr. falli undir slíkt valdsvið nefndarinnar. Áréttar nefndin því mikilvægi þess að framkvæmdaraðilar upplýsi nefndina um fyrirhugaðar framkvæmdir sem geti mögulega fallið undir áður tilvitnaða lýsingu 13. gr., þ.m.t. um mótvægisaðgerðir. Slíkt sé nauðsynlegt til þess að nefndin geti tekið ákvörðun um það hvort viðkomandi framkvæmdir séu framkvæmdaleyfisskyldar, að teknu tilliti til eðlis þeirra, umfangs, staðsetningar og mótvægisaðgerða sem framkvæmdaaðili skuldbindur sig til þess að undirgangast.

Þar sem umræddri framkvæmd sé lokið sé ekki tilefni til þess að undirbúa ákvarðanatöku um hvort umrædd framkvæmd hafi verið framkvæmdaleyfisskyld.

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að settar verði kvaðir á framkvæmdaraðila sem í þessu tilfelli er fjallskilanefnd Hrolleifsdals um að grípa til viðeigandi mótvægisaðgerða í samráði við umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa sveitarfélagsins og e.a. hagaðila, með það að markmiði að minnka umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og draga úr breytingum á ásýnd umhverfis sem af henni getur hlotist, t.d. vegna jarðvegsrofs, sem kostur er, s.s. með því að malarbera vegslóðann, ef við á, og græða upp jarðrask sem mest lýti er að. Jafnframt verði sótt um að vegslóðinn verði skráður inn á “Vegir í náttúru Íslands" kort í aðalskipulagi Skagafjarðar.

12.Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 23

Málsnúmer 2309008FVakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð byggingarfulltrúa frá fundi nr. 23 þann 14.09.2023.

Fundi slitið - kl. 11:00.