Fara í efni

Umferðaröryggismat fyrir Húnavallaleið og Vindheimaleið - Beiðni til Vegagerðarinnar um svör - Skoðanakönnun - Beiðni um afstöðu Húnabyggðar og Skagafjarðar til vega umræddar leiðir

Málsnúmer 2601114

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 178. fundur - 21.01.2026

Lagður fram tölvupóstur frá Samgöngufélaginu dagsettur 12. janúar 2026. Í tölvupóstinum fer félagið þess á leit við sveitarfélagið að gerð verði grein fyrir afstöðu sveitarfélagsins til lagningu Vindheimaleiðar.

Að teknu tilliti til umferðaröryggis, byggðaþróunar, skipulags, umhverfisáhrifa og fjárhags telur byggðarráð ekki forsendur til að mæla með framgangi verkefnisins.
1. Umferðaröryggi á núverandi leið telst ekki óásættanlegt samkvæmt meðfylgjandi gögnum. Í umferðaröryggismati Verkís frá desember 2025 kemur fram að meðalslysatíðni á umræddum köflum hringvegar sé undir landsmeðaltali þjóðvega í dreifbýli. Einnig er bent á að engin slys hafi verið skráð á kaflanum í gegnum Varmahlíð á síðustu fimm árum. Að teknu tilliti til framangreinds er ekki tilefni til að telja núverandi leið óörugga umfram landsmeðaltal.
2. Í skýrslunni er áætlað að stytting leiðarinnar um 6 km gæti fækkað slysum yfir 20 ára tímabil, en rökstuðningur byggir fyrst og fremst á styttingu ekinna km, fremur en því að núverandi vegur sé slysahættuvaldandi umfram viðmið. Á móti styttingu koma mikilvæg samfélags- og byggðaáhrif.
3. Í erindi Samgöngufélagsins er viðurkennt að ný veglína gæti dregið úr umsvifum í Varmahlíð og á Blönduósi. Í ljósi þess að íbúafjölgun á Norðurlandi vestra hefur verið hægari en landsmeðaltal síðasta áratuginn telur byggðarráð að slíkar framkvæmdir geti aukið byggðaröskun og grafið undan þjónustu og atvinnu á svæðinu.
4. Vísanir í áætlaðan kostnað Vindheimaleiðar byggja á eldri forsendum. Ekki liggur fyrir sjálfstæð, uppfærð arðsemisgreining sem sýnir með óyggjandi hætti að veggjöld mundi standa undir fjárfestingu miðað við áætlaða umferð og því telur byggðarráð fjárhagslegar forsendur ófullnægjandi.
5. Tillagan kallar á nýja stórbrú yfir Héraðsvötn, minni brú yfir Svartá og varnargarða sem þrengja árfarveg, auk þjónustumannvirkja og vegar á nýjum slóðum um ræktuð landbúnaðarsvæði (m.a. Saurbæ, Vindheima og Víðivelli). Ekkert umhverfismat fylgir erindinu né áhrifamat á landbúnað eða aðra atvinnuvegi Skagafjarðar. Byggðarráð telur óásættanlegt að hefja ferli án heildstæðs mats.
6. Í gögnum er tekið fram að hvorki drög að Aðalskipulagi Skagafjarðar 2025-2040 né Aðalskipulag Húnabyggðar geri ráð fyrir umræddri veglaggningu. Vegagerðin er umsagnaraðili í aðalskipulagsferli sveitarfélaganna og hefur í hvorugu tilvikinu sent inn umsögn með ábendingum um lagningu þessara vegstæða né hugmyndir um slíkt. Aðalskipulagsferli beggja sveitarfélaga fóru í gegnum viðamikil kynningaferli og öllum áhugasömum því í lófa lagið er senda inn ábendingar og athugasemdir.
7. Byggðarráð telur raunhæfara að einbeita sér að markvissum öryggisúrbótum á núverandi þjóðvegi 1, á borð við úrbætur í beygjum, sjónlengdum, tengingum og aðgreiningu hægari umferðar í stað nýrrar veglínu með miklum fjárútlátum og óafturkræfum áhrifum. Slíkar úrbætur samræmast betur forgangsröðun um öryggi og viðhald í landsáætlunum.

Að öllu framangreindu virtu er það afstaða byggðarráðs Skagafjarðar að ekki séu fyrir hendi fullnægjandi forsendur, hvorki umferðaröryggislegar, fjárhagslegar, skipulagslegar né umhverfislegar, til að gera ráð fyrir Vindheimaleið/Húnavallaleið í skipulagi eða samgönguáætlun á þessu stigi. Byggðarráð hvetur þess í stað til heildstæðra, uppfærðra greininga og forgangsröðunar hagkvæmra öryggisúrbóta innan núverandi vegaslóðar.