Byggingarnefnd menningarhúss á Sauðárkróki - 7
Málsnúmer 2601012F
Vakta málsnúmer
-
Byggingarnefnd menningarhúss á Sauðárkróki - 7
Þátt tóku í fundinum í gegnum fjarfundabúnað þau Birgir Teitsson, Sara Axelsdóttir og Heimir Freyr Hauksson frá ARKÍS arkitektum og fóru yfir drög að aðaluppdrætti nýs menningarhúss á Sauðárkróki.
Byggingarnefnd samþykkir samhljóða framlögð drög að aðaluppdráttum, þar sem búið er að hækka varðveislurými, hafa lokað milli sviðslistasals og sýningarsals og fækka fermetrum í nýbyggingu.
Bókun fundar
Fulltrúar VG og óháðra óskar bókað:
"VG og óháð telja mikilvægt að við svo stórt og þýðingarmikið samfélagslegt verkefni sé tryggð víðtæk aðkoma íbúa og gagnsæi í allri ákvarðanatöku. Menningarhús á að vera sameign samfélagsins og því nauðsynlegt að samtalið nái til fleiri hópa en þeirra sem þegar sitja við borðið.
Eftir að fjölmargar ákvarðanir voru teknar í hönnunarferli menningarhússins komu raddir úr samfélaginu sem vildu sjá fyrirhugaða notkun hússins víðtækari en gert er ráð fyrir og má þar nefna Tónlistarskóla Skagafjarðar sem getur séð fyrir sér aðstöðu í húsinu. Undanfarin ár hefur tónlistarkennsla á Sauðárkróki verið að mestu í kjallaraherbergjum Árskóla þar sem aðstaða er því miður ekki til fyrirmyndar. Þrátt fyrir áralöng loforð um úrbætur Tónlistarskólans er þetta staðan og verður líklega áfram. Hefði verið gott að ígrunda kosti og galla þess að Tónlistarskóli Skagafjarðar yrði staðsettur í nýju Menningarhúsi með hlutaðeigendum.
Jafnframt teljum við í VG og óháðum ákveðinn skort á því að verkefnið sé hugsað til enda, það er að segja hvað varðar rekstur hússins til framtíðar. Skýrar forsendur þurfa að liggja fyrir um rekstrarkostnað og rekstrarform svo tryggt sé að húsið verði lifandi menningarsetur, iðandi af lífi, en ekki fjárhagsleg byrði fyrir sveitarfélagið.
Að lokum viljum við nefna að það hefði verið eðlilegt og afar gagnlegt að heimsækja önnur menningarhús því með slíkum skoðunarferðum fæst betri innsýn í hvað virkar og hvað virkar ekki í hönnun. Einnig hefði mátt leita sérstaklega til ungs fólks í sveitarfélaginu og ræða við það um væntingar og hugmyndir um notkun hússins. Unga fólkið okkar er mikilvægur notendahópur framtíðarinnar og sjónarmið þeirra ætti vissulega að fá vægi í samfélagsverkefnum sem þessu.
VG og óháð hvetja því til þess að áframhaldandi vinna við Menningarhúsið byggi á opnu samtali og virkri þátttöku íbúa svo menningarhús á Sauðárkróki verði sannarlega hús allra, það er enn ekki of seint.
Álfhildur Leifsdóttir og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir, VG og óháðum."
Fulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
"Meirihluti sveitarstjórnar minnir á að grunnurinn að hönnun og útfærslu á miðstöð menningar og safna sem nú er verið að undirbúa byggingu á, er þarfagreining sem var unnin af starfshópi fulltrúa allra flokka í sveitarstjórn Skagafjarðar, ásamt fulltrúa ráðuneytisins að höfðu samráði við hagaðila. Þarfagreiningin er svo grunnurinn að þeim samningi sem gerður var við Mennta- og Menningarmálaráðuneytið um aðkomu ríkisins að uppbyggingunni. Rétt er líka að árétta að fulltrúar hagaðila hafa átt aðkomu að vali á teikningu og skipulagi. Fram undan er einnig fundur með ungmennaráði þar sem teikningar verða kynntar."
Fundargerð 7. fundar byggingarnefndar menningarhúss á Sauðárkróki var staðfest á 45. fundi sveitarstjórnar 21. janúar 2026 með níu atkvæðum.
Hlé gert á fundinum.
Einar E. Einarsson með leyfi varaforseta kvaddi sér hljóðs og lagði fram bókun.