Fara í efni

Umsagnarbeiðni; Breyting á þingsályktun nr. 24 152 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða

Málsnúmer 2511097

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 172. fundur - 25.11.2025

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar 237. mál, Breyting á þingsályktun nr. 24/152 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Frestur til að senda inn umsögn er til og með 25. nóvember nk.

Byggðarráð Skagafjarðar telur að nauðsynlegt sé að ráðast í aukna orkuöflun þar sem það á við til að styðja við orkuöryggi, orkuskipti og verðmætasköpun um land allt. Brýnt er í ljósi óvissu sem uppi er vegna áhrifa jarðhræringa á virkjanir og virkjanakosti og vegna orkuöryggis þjóðarinnar að litið sé til hagkvæmra virkjanakosta utan eldvirkra svæða. Byggðarráð bendir á að Skatastaðavirkjun er einn besti valkosturinn af fyrirliggjandi virkjunarkostum á Íslandi í þeirri vegferð að orkuskiptum á Íslandi skuli lokið fyrir árið 2040. Einnig má benda á að á Norðurlandi öllu er verulegur skortur á orku ásamt því að vegalengdir frá virkjunum hamla meðal annars möguleikum á nýtingu jarðstrengja í uppbyggingu flutningskerfisins á Norðurlandi. Dreifing raforkuvinnslu hefur jákvæð áhrif á flutningskerfi raforku samhliða því að styrkja staðbundið orkuöryggi. Jafnframt er rétt að minna á þá miklu jarðfræðilegu óvissu sem ríkir í dag um jarðvarmavirkjanir á Suðvesturhorni landsins en við virkjun Blöndu á sínum tíma voru meðal annars notuð þau rök að hún væri utan eldvirkra svæða. Sömu rök gilda einnig í dag um virkjun Skatastaðavirkjunar en ógnin af áhrifum eldsumbrota á virkjanir á Suðvesturhorninu hefur aldrei verið áþreifanlegri en í dag. Um hreint þjóðaröryggismál er að ræða.

Fulltrúi VG og óháðra óskar bókað:
"VG og óháð mótmæla fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum í Héraðsvötnum á þeim grunni að hún sé í þveröfugu samræmi við forsendur rammaáætlunarinnar og stofni í hættu bæði lífríki svæðisins og sjálfbærri þróun.
Í rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða er skýrt kveðið á um að svæði með mjög mikla eða verulega náttúruverndargildi skuli vernduð og virkjanaheimildir takmarkaðar þannig að verndargildin eigi forgang. Ef litið er til Héraðsvatnasvæðisins, þá er þar er til staðar fjölbreytt lífríki sem verður fyrir verulegu raski. Virkjun sem ætlað er að breyta fallvatni og vatnaflæði rennur bersýnilega gegn markmiðum um vernd líffræðilegrar fjölbreytni og náttúruauðlinda.
Talið var að um ofmat væri að ræða í rökstuðningi faghóps rammaáætlunar 3 og óskað var eftir endurmati á þeim grundvelli. Voru Héraðsvötn færð aftur í biðflokk í síðustu rammaáætlun fyrir vikið. Niðurstöður endurmatsins eru afdráttarlausar. Höfundar greinargerðar um endurmat telja að ekki hafi verið um ofmat að ræða á áhrifum fyrirhugaðra virkjana í Héraðsvötnum á þá þætti náttúrufars sem óskað var nánari skoðunar á.

Meðal þess sem fram kom í athugunum endurmatsins var:
- Náttúruverndargildi Héraðsvatna er mjög hátt enda meðal umfangsmestu flæðiengja landsins. Þetta endurspeglast í því að svæðið hefur fengið sérstaka stöðu m.t.t. náttúruverndar, bæði innanlands og alþjóðlega, m.a. vegna mikilvægi svæðisins fyrir fugla og líffræðilega fjölbreytni.
- Líffræðileg fjölbreytni og vistkerfi flæðiengjanna hafa þróast í takt við reglubundnar sveiflur í umhverfinu. Aurinn sem berst með flóðum sem veita vatni á landið er vistfræðilega mikilvægur fyrir flæðiengjarnar og forsenda fyrir því að þær geti viðhaldið sér. Vatnsmiðlun vegna virkjunarframkvæmda hefur mikil og ófyrirsjáanleg áhrif á eðli flóða í vatnakerfinu en þau eru grundvöllur vistkerfis flæðiengjanna.
- Flæðiengjar í Skagafirði eru hluti af stærri vistfræðilegri heild og því mikilvægt að huga að því þegar horft er til verðmætamats og mögulegra áhrifa aðgerða á vatnasvið Héraðsvatna. Orravatnsrústir sem eru efst á vatnasviði Héraðsvatna hafa hátt náttúruverndargildi ekki síst vegna rústamýra sem teljast alþjóðlega verndarþurfi og eru fremur sjaldgæfar hérlendis. Lón Skatastaðavirkjunar mun teygja sig inn á svæðið sem lagt er til að verði friðlýst og gæti haft áhrif á rústirnar.

VG og óháð í Skagafirði krefjast þess að farið verði eftir því faglegu mati og um leið þeirri faglegu sátt sem rammaáætlun er ætlað að skapa."