Fara í efni

Hækkun - raforkuverðs og dreifingar raforku

Málsnúmer 2511058

Vakta málsnúmer

Landbúnaðar- og innviðanefnd - 37. fundur - 13.11.2025

Fyrir fundinum liggur fréttatilkynning frá Rarik um hækkun á gjaldskrá fyrir dreifingu og flutning á raforku frá 1. nóvember 2025.
Samkvæmt fyrirliggjandi gjaldskrá er hækkun raforkuverðs nú vegna dreifingar Rarik 7% í þéttbýli og 5% í dreifbýli, ásamt því að öll tengigjöld og gjald fyrir innmötun hækka einnig um 7%.
Landbúnaðar- og innviðanefnd lýsir furðu sinni á enn einni hækkuninni á flutningi raforku en þetta er í fjórða skiptið á þessu ári sem Rarik eða Landsnet hækka gjaldskrár sínar á flutningi og dreifingu raforku á landsbyggðinni. Ef miðað er við einbýlishús sem notar 5.000 kwh á ári hefur gjald vegna flutnings raforku á árinu 2025 hækkað um 13% í dreifbýli og 12% í þéttbýli. Á árinu 2024 voru einnig miklar hækkanir, en frá janúar 2024 til dagsins í dag hefur flutningskostnaður fyrir rafmagn hækkað um 25% í þéttbýli og rúm 30% í dreifbýli.
Samhliða þessum hækkunum og öðrum sem gerðar hafa verið frá árinu 2020, hefur niðurgreiðsla ríkisins á rafmagni í dreifbýli ekki hækkað um eina krónu frá 1. mars 2023. Afleiðingin af þessu er sú að í dag er flutningskostnaður á rafmagni í dreifbýli orðinn 38% hærri en hann er í þéttbýli á landsbyggðinni.
Landbúnaðar- og innviðanefnd lýsir miklum vonbrigðum með þessar gríðarlegu hækkanir á flutningskostnaði sem virðast engan enda ætla að taka hjá Rarik eða Landsneti. Ljóst er að áhrifin af þessum hækkunum eru mjög neikvæð á lífskjör fólks ásamt því sem þær auka kostnað fyrirtækja í sínum rekstri. Ekki er ásættanlegt að flutningskostnaður rafmagns á vegum ríkisfyrirtækjanna Rarik og Landsnets hækki um tveggja stafa prósentutölu ár eftir ár, á meðan t.d. sveitarfélögin berjast við að halda sínum hækkunum í lágmarki til að draga úr þenslu, kostnaði og verðbólgu. Á milli áranna 2025 og 2026 hækkar t.d. sveitarfélagið Skagafjörður sínar gjaldskrár almennt um 2,7% og flest önnur sveitarfélög eru á svipuðu eða eilítið hærra róli með 3-4% hækkun.

Landbúnaðar- og innviðanefnd skorar á fagráðherra málaflokksins, Jóhann Pál Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að taka þessar gríðarlegu hækkanir til skoðunar samhliða þeirri vinnu sem er í gangi við jöfnun flutningskostnaðar um land allt, en það er fagnaðarefni að sú vinna skuli vera komin í gang.