Fara í efni

Fyrirspurn vegna deiliskipulags AT-403

Málsnúmer 2510223

Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd - 85. fundur - 30.10.2025

Lögð fram fyrirspurn frá Álfhildi Leifsdóttur dags. 19.09.2025, vegna deiliskipulagsvinnu fyrir Athafnarsvæði AT-403 á Sauðárkróki, þar sem m.a. kemur fram:
"Þann 13. júní 2024 samþykkti skipulagsnefnd Skagafjarðar samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að samþykkja skipulagslýsingu fyrir Sauðárkrókur athafnarsvæði AT-403 og Skipulagsstofnun yrði send lýsingin til umsagnar skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að lýsingin verði kynnt almenningi skv. sömu grein.
Bókaði nefndin m.a. á þeim fundi: "Skipulagsnefnd leggur áherslu á að reynt sé að flýta verkefninu eins og kostur er þar sem vöntun sé orðin á lóðum fyrir athafnarstarfsemi á Sauðárkróki."

Í sveitarstjórn 14. maí 2025 var samþykkt með níu atkvæðum að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir "Sauðárkrókur - Athafnarsvæði AT-403" í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sama dag samþykkti byggðarráð samhljóða að auglýsa lóðir númer 2, 4, 6, 8, 10 og 12 lausar til umsóknar með fyrirvara um staðfestingu sveitarstjórnar á endanlegu deiliskipulagi svæðisins sem var svo gert.

Þann 16. júlí 2025 samþykkti byggðarráð samhljóða tillöguna um deiliskipulag með fullnaðarafgreiðslu og átti að senda hana Skipulagsstofnun til yfirferðar í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.

Þrátt fyrir þetta liggur fyrir nú í lok september að lóðir hafa enn ekki verið stofnaðar. Þeir aðilar sem sótt hafa um lóðir hafa því ekki fengið nauðsynlegar upplýsingar til að hefja hönnun og undirbúning framkvæmda.

Með vísan til þessa óska ég eftir skýringu á ferlinu öllu og upplýsingum um næstu skref.

Skipulagsfulltrúi sendi samantekt á tímaferili skipulagsvinnunnar við deiliskipulag Athafnasvæðis AT-403 dags. 17.10.2025 til nefndarmanna skipulagsnefndar þann sama dag.

Í framhaldinu kom annar tölvupóstur frá Álfhildi Leifsdóttur dags. 18.10.2025, þar sem m.a. kemur fram:

"1. Hvernig var forgangsröðun verkefnisins metin í tengslum við önnur deiliskipulagsverkefni sveitarfélagsins?

2. Hafa einhver skref í ferlinu tekið lengri tíma en upphaflega var áætlað?

3. Er 18 mánaða heildartímalína í samræmi við stefnu sveitarfélagsins um skipulagsvinnu, eða væri hægt að stytta hana með betra verklagi eða samhæfingu milli aðila?

4. Hvers vegna var jarðvegskönnun ekki hafin fyrr, þegar vitað var að jarðvegur á svæðinu gæti verið vandamál?

5. Hafa tafir á hæðarsetningu (20.08.-08.09.2025) verið rýndar nánar, t.d. hvort töf hafi orðið á verkbeiðni til Stoðar, eða hvort verklagið við hæðarsetningu gæti verið skilvirkara?

6. Hvernig er tryggt að á næsta stigi verði samræmi milli fráveitu-, hæðar- og skipulagsgagna til að forðast endurtekningu?

7. Hvaða lærdóm getur sveitarfélagið dregið af þessu ferli sem nýtist í næstu deiliskipulagsverkefnum?"

Forgangsröðun deiliskipulagsvinnunnar fyrir Athafnarsvæði AT-403 á Sauðárkróki var unnið jafn og þétt á 18 mánuðum frá upphafi til enda og var skipulagið í forgangi. Farið var eftir skipulagslögum við gerð deiliskipulagsins sem felur í sér ferlana þrjá, þar að segja skipulagslýsingu, vinnslutillögu og að lokum deiliskipulagstillögu.
Einnig var haldin á tímabilinu opin vinnustofa til að reyna ná fram sjónarmiðum sem flestra.
Deiliskipulagstillagan var samþykkt hjá Byggðaráði þegar að skipulagsfulltrúi er nýfarinn í sumarfrí og var það með fyrstu verkefnum að ganga frá lokagögnum til Skipulagsstofnunar að loknu sumarfríi. Í beinu framhaldi var unnið lóðarblað og merkjalýsing fyrir Borgarbraut 2 og henni skilað inn til HMS og lóðin lögformlega stofnuð.
Verkefnastaðan hjá skipulagsfulltrúa er mikil, unnið að gerð nokkurra deiliskipulaga samhliða endurskoðun á aðalskipulagi auk annarra lögboðinna verkefna hefur óhjákvæmilega áhrif á framvindu þeirra.
Við vinnu deiliskipulaga er ekki alltaf unnin jarðvegskönnun, eins og tekin var ákvörðun um að gera í þessu tilfelli. Var það talinn vera mikill ávinningur fyrir hönnunina að komast sem næst því að þekkja burðarhæfan botn með tilliti til hönnunar gatna og lóða á svæðinu.
Hönnun gatna og veitustofna er á borði veitu- og framkvæmdasviðs og viðkomandi veitna.
Fyrirhugað er að skýra verkferla sveitarfélagsins hvað varðar tenginguna á milli skipulags og framkvæmasviðs með skýrri forgangsröðun frá yfirstjórn.

VG og óháð þakka fyrir greinargóða samantekt á ferli við deiliskipulag AT-403 á Sauðárkróki. Slíkt yfirlit eykur gagnsæi og skilning á skipulagsferlum sveitarfélagsins. Nokkur atriði í ferlinu hafa tekið lengri tíma en áætlað var, m.a. vegna hæðarsetningar og jarðvegskönnunar, auk þess sem samskipti milli skipulagssviðs og framkvæmdasviðs virðist ekki hafa verið nægileg. Þannig var verkbeiðni um frágang á aðliggjandi götu ekki send fyrr en 16. október 2025. Mikilvægt er að boðleiðir séu skýrar hvað varðar verkefnastjórn þegar mál varða fleiri en eitt svið, þar sem sviðsstjórar hafa ekki boðvald hver yfir öðrum. VG og óháð fagna því að skýra eigi verkferla sveitarfélagsins hvað þetta varðar vonandi með það að markmiði að tryggja aukinn hraða, skilvirkni og góða þjónustu við íbúa.

Fulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Fyrir fundinum liggur ítarlegt yfirlit yfir verkferil vegna vinnu við deiliskipulag athafnasvæðis AT-403 á Sauðárkróki. Um er að ræða stórt svæði með fjölda athafnalóða þar sem þurft hefur að taka tillit til margvíslegra sjónarmiða og athugasemda. Jafnframt var leitast við að fá sem flest sjónarmið fram í vinnunni, m.a. með því að halda sérstaka vinnustofu vegna frekari hönnunar og hugmyndavinnu fyrir deiliskipulagið. Í ferlinu var horft til ýmissa umsagna, m.a. frá umsækjendum lóðar við Borgarbraut. Skipulagsnefnd, byggðarráð og sveitarstjórn hafa einnig lagt sig fram um að mæta sjónarmiðum umsækjenda og flýta ferlinu sem kostur er. Þannig má nefna að í maí 2025 samþykktu byggðarráð og sveitarstjórn að auglýsa lóðir nr. 2, 4, 6, 8, 10 og 12 við Borgarbraut lausar til úthlutunar í samræmi við úthlutunarreglur sveitarfélagsins, með fyrirvara um staðfestingu deiliskipulags. Í júní samþykktu skipulagsnefnd og sveitarstjórn að úthluta lóðinni Borgarbraut 2 til Þrastar Magnússonar, f.h. Myndunar ehf., og Péturs Arnar Jóhannssonar, f.h. Áka bifreiðaþjónustu sf. Bent var á fyrirvara um staðfestingu deiliskipulags og að afmörkun lóða, byggingarreita og skipulagsskilmálar gætu tekið breytingum. Jafnframt var bent á að lóðin yrði fyrst úthlutunarhæf þegar hún hefði verið stofnuð formlega. Deiliskipulag AT-403 var staðfest hjá Skipulagsstofnun 17. september sl. stofnun lóðarinnar var svo staðfest hjá sýslumanni 23. september sl.

Þann 10. október sl., sendi starfsmaður skipulagsfulltrúa tölvupóst á Stoð verkfræðistofu þar sem óskað var eftir upplýsingum um legu og hæð fráveitulagna að Borgarbraut 2. Framkvæmdastjóri Stoðar upplýsti starfsmann skipulagsfulltrúa að starfsmenn stofunnar hafi ekki fengið verkbeiðni frá veitu- og framkvæmdasviði. Því miður fór þessi feril ekki af stað fyrr enn 16. október, greinilega þarf að lagfæra boðleiðir á milli sviða sveitarfélagsins. Er miður að þessi staða hafi komið upp á lokametrum þeirrar góðu vinnu sem unnin hefur verið. Upplýsingar um legu og hæð fráveitulagna voru tilbúnar 28. október og öll hönnunargögn liggja nú fyrir. Hægt er að ráðast í gerð vestari innkeyrslustúts frá Borgarbraut inn á Borgarbraut 2 í kjölfarið og ætti að vera unnt að hefja framkvæmdir á lóð fyrir miðjan nóvember nk.

Rétt er að geta að atvinnulóð við Borgarflöt 21 sem er að fullu tilbúin til framkvæmda er laus og hefur verið laus um langa hríð og hefur umsækjendum lóðar við Borgarbraut 2 verið bent á það.