Fara í efni

Samráð; Áform um breytingu á lögum nr. 49 1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Málsnúmer 2509007

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 160. fundur - 04.09.2025

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 154/2025, „Áform um breytingu á lögum nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum“. Umsagnarfrestur er til og með 19.09.2025.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar endurskoðun laganna en minnir á að vandamál vegna jarðvegsskriða á byggðum svæðum í bæði þéttbýli og dreifbýli hafa aukist á liðnum árum vegna m.a. hækkandi hitastigs, aukins gróðurs í bröttum brekkum og hærri vatnsstöðu í rigningarsömum árum. Þetta hefur nú þegar leitt til algjörlega ófyrirsjáanlegra skriðufalla sem hafa valdið tjóni á íbúðarhúsum og mannvirkjum í þéttbýli sem erfiðlega hefur gengið að fá bætt af Ofanflóðasjóði. Frá því að lög um varnir gegn ofanflóðum og skriðföllum tóku gildi hefur margt breyst í veðurfari og samfélagsgerð á Íslandi, sem hefur eðlilega haft og mun hafa enn frekari áhrif á þau verkefni sem Ofanflóðasjóði er ætlað að fjármagna.
Í dag er vaxandi ógn af jarðvegsskriði í Nöfunum fyrir ofan Sauðárkrók. Skríði þessi jarðvegur fram meira en nú þegar er orðið mun það leiða til skemmda á löngu byggðum íbúðarhúsum og öðrum mannvirkjum. Í þessu tilfelli er jafnframt mjög kostnaðarsamt að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir og fjarlægja jarðveg og gróður eða ráðast í gerð varnargarða til að koma í veg fyrir frekara tjón. Því er nauðsynlegt við endurskoðun laganna að sveitarfélög geti sótt fjármuni í Ofanflóðasjóð til bæði fyrirbyggjandi aðgerða og einnig ef til tjóns kemur. Minna má að vítt og breytt um landið má finna hús og byggðir sem risu löngu áður en núverandi skipulagslög eða varnir gegn ofanflóðum tóku gildi.
Jafnframt þarf að kveða á um með skýrari hætti en er í gildandi lögum að óski sveitarstjórnir eftir gerð hættumats vegna mögulegra ofanflóða þá skuli skilyrðislaust orðið við slíkri beiðni. Það er ekki að gamni gert að sveitarstjórnir leggi slíka beiðni fram.
Enn fremur er nauðsynlegt að skýra ákvæði 1. greinar umræddra laga hvað varðar fall eða flóð af náttúrulegum ástæðum þannig að óumdeilt sé að undir ákvæði laganna falli ofanflóð vegna óstöðugra jarðlaga, í ljósi þeirra breytinga á náttúrufari sem þegar hefur orðið vart við.