Skipulagsnefnd - 81
Málsnúmer 2509005F
Vakta málsnúmerSveitarstjórn Skagafjarðar - 41. fundur - 17.09.2025
Fundargerð 81. fundar skipulagsnefndar frá 4. september 2025 lögð fram til afgreiðslu á 41. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Einar E. Einarsson kynnti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
-
Skipulagsnefnd - 81 Farið yfir samantekt á innsendum umsögnum við deiliskipulagsbreytingu fyrir Staðarhof í Skagafirði, mál nr. 993/2025 (https://skipulagsgatt.is/issues/2025/993/ ) í Skipulagsgáttinni, samráðsgátt Skipulagsstofnunar um skipulagsmál.
Deiliskipulagsbreytingin var í auglýsingu dagana 16.07.2025- 27.08.2025 og bárust 7 umsagnir sem gefa tilefni til minniháttar breytinga í texta.
Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að samþykkja tillöguna að breyttu deiliskipulagi Staðarhofs, og senda hana Skipulagsstofnun til yfirferðar. Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Staðarhof L230392 - Breyting á deiliskipulagi, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða. -
Skipulagsnefnd - 81 Gunnsteinn Björnsson, f.h. Hátækniseturs Íslands ses, kt. 620906-0340, óskar eftir vilyrði sveitarstjórnar Skagafjarðar fyrir svæði sem afmarkast af Borgargerði að austan, Borgarmýri og lóðum við Borgarmýri að norðan, Víðimýri og afmörkun íbúðabyggðar nr. ÍB-405, í gildandi aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035, að vestan og girðingar, norðan Sauðár, að sunnanverðu.
Svæðið sem sótt er um er um það bil 4,1 ha að stærð. Meðfylgjandi, hnitsettur yfirlitsuppdráttur dags. 08.05.2025 sýnir umrædda afmörkun.
Sótt er um vilyrðið á grundvelli 8. gr. reglna um úthlutun byggingarlóða í sveitarfélaginu Skagafirði, sem samþykktar voru í sveitarstjórn Skagafjarðar þann 14. september 2022.
Í auglýstri vinnslutillögu aðalskipulags Skagafjarðar 2025-2040 eru lagðar línur að auknum umsvifum háskólastarfsemi á Sauðárkróki og kveður umsækjandi sig sjá sóknarfæri fyrir samfélagið í því. Umsækjandi hyggst óska eftir heimild til að láta vinna deiliskipulag fyrir svæðið og skipuleggja svæði fyrir starfsemi háskóla, nýsköpunar, atvinnuþróunar, nemendagarða og hótels. Jafnframt að skapa grundvöll til framtíðar þar sem ný starfsemi og fyrirtæki geti byggst upp.
Skipulagsnefnd bendir á að umbeðið svæði sé í auglýstri aðalskipulagstillögu skilgreint sem miðsvæði M-404. Undir fyrirsögninni „lýsing“ segir „háskólasetur, nýsköpun, nemendagarðar, atvinnuþróun og hótelgisting“. Skilmálar eru þeir að leyfilegt verði að vera með ferðamannagistingu eða hótel. Áhersla skuli lögð á hagkvæma nýtingu lóða og vandaða ásýnd bygginga og lóðafrágang á verslunar- og þjónustulóðum. Til að ná þeim áherslum verði lögð áhersla á að í deiliskipulagi verði markmið að stuðla að góðri ásýnd svæðisins með vandaðri hönnun bygginga, lóðaskipulagi og fyrirkomulagi bílastæða. Öruggt og gott aðgengi allra að starfsemi verslunar- og þjónustusvæða verði tryggt og leitast við að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar.
Skipulagsnefnd sýnist hugmyndir umsækjanda um uppbyggingu á miðsvæði M-404 samræmast vel fyrirhugaðri landnotkun á því svæði. Þá sé styrkur í því að umsækjandi hafi einmitt að tilgangi sínum, skv. stofnskrá, að byggja upp fjölbreytni á sviði hátækni og þekkingariðnaðar. Þá sé það jákvætt að umsækjandi hafi á liðnum misserum getað sótt fjárhagslegan og faglegan styrk til bakhjarla sem gegna mikilvægu hlutverki á sviði fyrirhugaðrar landnotkunar, skv. áðurgreindri aðalskipulagstillögu. Málefnalegar ástæður séu því til staðar að veita vilyrði fyrir umræddu svæði fyrir umrædda atvinnustarfsemi án auglýsingar, sbr. 1. mgr. 8. gr. reglna um úthlutun byggingarlóða í sveitarfélaginu.
Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að veita vilyrði, skv. 8. gr. úthlutunarreglna sveitarfélagsins, fyrir umbeðnu svæði til eins árs og skal umsækjandi á þeim tíma móta hugmyndir sínar um framtíðarskipulag svæðisins að höfðu samráði við sveitarstjórn/skipulagsnefnd, með það að markmiði að unnt verði, innan þess tímramma, að afgreiða fyrirhugaða umsókn félagsins um heimild þess til að vinna sjálft að gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 38. gr. l. 123/2010, á grundvelli grunndraga félagsins að skilmálum deiliskipulags, sem fylgi umsókn. Óski félagið þá eftir að umræddu svæði verði úthlutað til félagsins sem þróunarsvæði skv. 8. gr. úthlutunarreglna sveitarfélagsins leggur skipulagsnefnd til að umsækjandi skuli þá láta fylgja umsókn sinni tímasetta áætlun um uppbyggingu svæðisins í áföngum og drög að samningi milli sveitarfélagsins og félagsins um þróun svæðisins ásamt fjármögnun. Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Umsókn um vilyrði fyrir þróunarreit, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða. -
Skipulagsnefnd - 81 Gunnsteinn Björnsson, f.h. Hátækniseturs Íslands óskar eftir heimild til að láta vinna tillögu að deiliskipulagi fyrir svæðið sem afmarkast af Borgargerði að austan, Borgarmýri að norðan, afmörkun íbúðabyggðar ÍB-405, eins og hún er í gildandi aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar, að vestan og Sauðá að sunnan, á kostnað framkvæmdaraðila skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Ætlunin er að skipuleggja svæði fyrir starfsemi háskóla, nýsköpunar, atvinnuþróunar, nemendagarða og hótels. Jafnframt að skapa grundvöll til framtíðar þar sem ný starfsemi og fyrirtæki geta byggst upp og þróast.
Svæðið, sem sótt er um, er á hluta athafnasvæðis nr. AT-403 í gildandi aðalskipulagi en var auglýst sem VÞ/S-401 í vinnslutillögu aðalskipulags Skagafjarðar 2025-2040. Umsækjandi lagði inn umsögn við vinnslutillögu varðandi umrætt svæði þann 25.04.2025.
Að fenginni heimild sveitarstjórnar verður unnin tillaga að deiliskipulagi fyrir háskólastarfsemi, nýsköpunarstarfsemi, nemendagarða og hótelgistingu, sbr. áðurnefnda umsögn við vinnslutillögu aðalskipulags. Að fenginni heimild sveitarstjórnar er áætlað að lýsing skipulagsverkefnis, skv. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að fresta afgreiðslu málsins og vísar til bókunar við mál nr. 2505245 sem var í 2. dagskrálið hér fyrir ofan. Bókun fundar Afgreiðsla 81. fundar skipulagnefndar staðfest á 41. fundi sveitarstjórnar 17. september 2025 með níu atkvæðum. -
Skipulagsnefnd - 81 Málið áður á dagskrá á 62. fundi skipulagsnefndar þann 14.11.2024 þar sem eftirfarandi er bókað:
"Skipulagsfulltrúi fer yfir minnispunkta frá fundi sem haldinn var með Reimari Marteinssyni hjá Kaupfélagi Skagfirðinga þann 7.11. síðastliðinn vegna umsóknar þeirra um lóð og beiðni um samráð í deiliskipulagsvinnu Gamla bæjarins á Sauðárkróki. Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að frestar afgreiðslu málsins og felur skipulagsfulltrúa að funda aftur með Kaupfélagi Skagfirðinga í samræmi við umræður fundarins."
Afgreiðsla 62. fundar skipulagnefndar var staðfest á 32. fundi sveitarstjórnar 27. nóvember 2024 með sjö atkvæðum.
Skipulagsnefnd vill árétta að umrætt svæði sé innan verndarsvæðis í byggð. Þá óskar nefndin eftir að fá fulltrúa umsækjanda á fund nefndarinnar til að fara yfir framtíðarsýn svæðisins.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimila umsækjanda að vinna deiliskipulag á eigin kostnað skv. 38 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir umbeðið svæði. Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Deiliskipulag Gamla bæjarins - Lóðarumsókn og beiðni um samráð í deiliskipulagsvinnu, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða. -
Skipulagsnefnd - 81 Á fundi 27. fundi Sveitarstjórnar Skagafjarðar þann 15.5.2024 eftirfarandi bókað:
"Vísað frá 48. fundi skipulagsnefndar til afgreiðslu sveitarstjórnar, þannig bókað: "Reimar Marteinsson fulltrúi rekstarstjórnar Kaupfélags Skagfirðinga sendir inn fyrirhugaða tímalínu á umbeðnum þróunarreit við Borgarflöt nr. 23, 25, 27 og 29 á Sauðárkróki. Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að vísa ákvörðun um erindi Kaupfélags Skagfirðinga um beiðni um þróunarreit til sveitarstjórnar." Sveitarstjórn samþykkir, með níu atkvæðum, að fela sveitarstjóra að ræða við fulltrúa rekstrarstjórnar Kaupfélags Skagfirðinga um endurskoðun á fyrirhugaðri tímalínu á umbeðnum þróunarreit við Borgarflöt 23, 25, 27 og 29 á Sauðárkróki."
Uppfærð tímalína verkáætlunar barst þann 03.09.2025.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu málsins og óskar eftir að fá fulltrúa umsækjanda á fund nefndarinnar til að fara yfir framtíðarsýn svæðisins. Bókun fundar Afgreiðsla 81. fundar skipulagnefndar staðfest á 41. fundi sveitarstjórnar 17. september 2025 með níu atkvæðum. -
Skipulagsnefnd - 81 Pétur Helgi Stefánsson, Jóhanna Sigríður Stefánsdóttir og Margrét Sigurlaug Stefánsdóttir þinglýstir eigendur Víðidals suðurhluta land 1 (L222901), óska eftir heimild til að skipta 1.088 m2 lóð úr landinu. Vísað er til meðfylgjandi afstöðuuppdráttar sem gerður er á Stoð ehf. verkfræðistofu af Atla Gunnari Arnórssyni, dags. 25. ágúst 2025. Númer uppdráttar er S-101 í verki nr. 7730-0403.
Óskað er eftir að lóðin fái heitið Víðidalur 1, landheiti vísar til upprunajarðar.
Einnig er óskað er eftir því að lóðin verði skráð íbúðarhúsalóð og að á henni verði stofnaður byggingarreitur fyrir íbúðarhús og garðskála úr timbri á forsteyptum undirstöðum, auk bílgeymslu úr timbri á staðsteyptu gólfi, heildarstærð íbúðar og bílskúrs allt að 250 m2.
Landskiptin samræmast aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035. Landskiptin hafa engin áhrif á búrekstrarskilyrði og skerða ekki landbúnaðarsvæði í I. og II. flokki. Ekkert ræktað land er innan útskiptrar lóðar. Engin verndarsvæði skv. gildandi aðalskipulagi eru innan útskiptrar lóðar.
Umsögn minjavarðar liggur fyrir án athugasemda.
Merkjalýsing skv. reglugerð um merki fasteigna nr. 160/2024 er fylgiskjal með umsókinni, málsnúmer M002592 hjá Landeignaskráningu HMS.
Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða umbeðin landskipti ásamt nafnleyfi og samþykkir jafnframt samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að heimila umbeðinn byggingarreit. Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Víðidalur suðurhluti land 1 L222901 - Umsókn um stofnun lóðar, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða. -
Skipulagsnefnd - 81 Agnar H. Gunnarsson og Dalla Þórðardóttir þinglýstir eigendur lóðarinnar Úlfsstaðir lóð L146352, óska eftir heimild skipulagsnefndar til eftirfarandi ráðstafana. Vísað er til meðfylgjandi afstöðuuppdrátta sem gerðir eru á Stoð ehf. verkfræðistofu af Atla Gunnari Arnórssyni, dags. 21. ágúst 2025. Númer uppdrátta eru S-101 og S-102 í verki nr. 7581-8000.
Óskað er eftir staðfestingu merkja lóðarinnar Úlfsstaðir lóð L146352. Lóðin var upphaflega leigð út úr landi Úlfsstaða, L146351 árið 1981, og afmörkun hennar skilgreind í leigusamningi sem þinglýst var sama ár, skjal nr. 81/353. Stærð lóðarinnar er ekki skilgreind í ofangreindum leigusamningi. Lóðin er í dag skráð sem sumarbústaðaland í fasteignaskrá HMS. Lóðin hefur nú verið mæld upp, og reynist hún vera 45.315 m2. Stærð upprunajarðarinnar Úlfsstaða er óþekkt. Merkjalýsing skv. reglugerð um merki fasteigna nr. 160/2024 er fylgiskjal með umsókninni, málsnúmer M002504 hjá Landeignaskráningu HMS.
Einnig er óskað eftir að stofna byggingarreit fyrir frístundahús á lóðinni, en fyrirhugað er að flytja þangað tilbúið frístundahús úr timbri og setja það niður á forsteyptar undirstöður.
Umsögn minjavarðar liggur fyrir án athugasemda.
Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða umbeðna staðfestingu landamerkja og samþykkir jafnframt samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að heimila umbeðinn byggingarreit. Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Úlfsstaðir lóð í Blönduhlíð - Umsókn um byggingarreit og landskipti, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða. -
Skipulagsnefnd - 81 Guðrún Brynja Guðsteinsdóttir og Gylfi Ingimarsson þinglýstir eigendur lóðarinnar Árfell L215214, í Tungusveit, óska eftir heimild til að stofna 522,9 m² byggingarreit á lóðinni skv. meðfylgjandi afstöðuuppdrætti nr. S01, í verki 74381001, útg. 28. ágúst 2025. Afstöðuuppdráttur var unnin á Stoð verkfræðistofu ehf.
Um er að ræða byggingarreit fyrir íbúðarhús, hámarksbyggingarmagn 100 m² og hámarksbyggingarhæð 6 m. Byggingarreitur er í um 578 m fjarlægð frá Skagafjarðarvegi (752) og liggur um 40 m neðar í landinu. Ásýndaráhrif frá veginum verða því hverfandi. Fyrirhuguð bygging verður innan um trágróður og ásýndaráhrif frá Sölvanesi, þar sem framkvæmdir eru í gangi, verða því óveruleg. Staðsetning reitsins er í samræmi við ákvæði aðalskipulags Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 um að nýta núverandi innviði, vegi og veitustofna. Reiturinn er rúmlega 50 m frá Kornárvegi (7540).
Byggingarreitur er á landbúnaðarsvæði L-1 í aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035 og á landbúnaðarlandi í flokki I, mjög gott ræktunarland. Skv. aðalskipulagi nær landbúnaðarsvæði L-1 til lands undir 200 m hæð og til ræktarlands í flokki I og II ásamt bæjartorfum bújarða. Fyrst og fremst gert ráð fyrir ræktun eða akuryrkju og við uppbyggingu skal leitast eftir að hlífa góðu ræktar landi. Forðast skal að rjúfa samfellu landbúnaðarlands með framkvæmdum. Byggingarreitur sem sótt er um er á mólendi og munu framkvæmdir innan hans ekki raska vistgerðum með hátt verndargildi. Byggingarreiturinn er ekki það stór að hann hafi veruleg áhrif á búrekstrarskilyrði enda takmarkar landslag og landhalli lóðarinnar möguleika á samfelldri túnræktun.
Skv. gildandi aðalskipulagi getur sveitarstjórn ákveðið að veita megi leyfi til stakra bygginga án deiliskipulags, ef uppbygging fellur að markmiðum aðalskipulags um búsetu í dreifbýli og er til þess að styrkja atvinnulíf í dreifbýli, og ef uppbygging nýtir núverandi veitu- og samgöngukerfi. Uppbygging sem hér er sótt um kallar ekki á lagningu nýrra stofnlagna eða nýrrar vegtengingar við þjóðveg.
Fyrirliggur umsögn minjavarðar án athugasemda.
Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að heimila umbeðinn byggingarreit. Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Árfell L215214 í Tungusveit, Skagafirði - Umsókn um stofnun byggingarreits, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða. -
Skipulagsnefnd - 81 Hulda Sóllilja Aradóttir og Rúnar Þór Guðbrandsson þinglýstir eigendur jarðarinnar Vatnsleysa 3 L235732, í Skagafirði óska eftir heimild til að stofna 800 m² byggingarreit á jörðinni fyrir vélaskemmu, skv. meðfylgjandi afstöðumynd dags. 02.09.2025 Afstöðumynd unnin af Ellert Má Jónssyni byggingaverkfræðing.
Um er að ræða byggingarreit fyrir vélaskemmu sem ætluð er til að hýsa vélar og fleira.
Byggingarreitur, sem sótt er um, er á skilgreindu landbúnaðarlandi nr. L-2 í Aðalskipulagi sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035. Uppbygging sem sótt er um byggingarreit fyrir er í samræmi við almenn ákvæði aðalskipulags um uppbyggingu og landnotkun á landbúnaðarsvæðum, m.a. þar sem núverandi innviðir nýtast áfram, uppbygging nýrra, stakra bygginga fer ekki yfir 2.000 m², notast er við núverandi vegtengingu og heimreið sem flutt verður austur fyrir íbúðarhúsið og uppbygging veldur ekki neikvæðum áhrifum á landbúnað með mengun eða skertu aðgengi né með því að rjúfa samfellu í ræktuðu landi.
Í nefndu aðalskipulagi segir m.a þá getur sveitarstjórn ákveðið að veita megi leyfi til byggingar á stökum byggingum sem tengjast starfsemi bújarðar án deiliskipulags, ef umfang og/eða aðstæður gefi tilefni til. Á það við þegar byggingaráform varða ekki hagsmuni annarra en umsækjandans, samrýmast landnotkun og yfirbragði svæðisins og hafa ekki neikvæð umhverfisáhrif.
Lögð verður áhersla á að áformuð bygging samrýmist yfirbragði og ásýnd svæðisins, sé í samræmi við núverandi byggingar og hafi ekki neikvæð umhverfisáhrif. Áformin skerða ekki aðgengi að nærliggjandi byggingum.
Meðfylgjandi er jákvæð umsögn minjavarðar.
Umsækjendur eru einnig eigendur lögaðilans Trostan ehf. sem er þinglýstur eigandi jarðarinnar Vatnsleysa 2, L235731 og 50% eigandi Vatnsleysu 4, L235733.
Einnig skrifa undir erindið eigendur Vatnsleysubúsins ehf. sem er 50 % eigandi Vatnsleysu 4, L235733, þar sem þeir lýsa því yfir með undirskrift sinna að ekki séu gerðar athugasemdir við ætlaða framkvæmd.
Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að heimila umbeðinn byggingarreit. Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Vatnsleysa 3 L235732 - Umsókn um byggingarreit, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða. -
Skipulagsnefnd - 81 Magnús Gunnlaugur Jóhannesson og Sigurveig Jóhannesdóttir þinglýstir eigendur lóðarinnar Miðhús 1 og 1B, L232778, í Óslandshlíð, óska eftir heimild til að stofna 655,4 m² byggingarreit á lóðinni skv. meðfylgjandi afstöðuuppdrætti nr. S01, í verki 71612000, útg. 28. ágúst 2025. Afstöðuuppdráttur var unnin á Stoð verkfræðistofu ehf.
Um er að ræða byggingarreit fyrir skemmu, hámarksbyggingarmagn 300 m² og hámarksbyggingarhæð 7,5 m. Byggingarreitur er í um 100 m fjarlægð frá Siglufjarðarvegi (76) og liggur um 35 m hæð eða um 5 m ofar en þjóðvegur. Reiturinn er á bæjarhlaði lóðarinnar og er í rúmlega 220 m fjarlægð frá sumarbústað í landi Miðhúsa lands, L193958, sem stendur jafnframt rúmum 10 m ofar. Staðsetning reitsins er í samræmi við ákvæði aðalskipulags Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 um að nýta núverandi innviði, vegi og veitustofna.
Byggingarreitur er á landbúnaðarsvæði L-1 í aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035 og á landbúnaðarlandi í flokki II, gott ræktunarland. Skv. aðalskipulagi nær landbúnaðarsvæði L-1 til lands undir 200 m hæð og til ræktarlands í flokki I og II ásamt bæjartorfum bújarða. Fyrst og fremst gert ráð fyrir ræktun eða akuryrkju og við uppbyggingu skal leitast eftir að hlífa góðu ræktar landi. Forðast skal að rjúfa samfellu landbúnaðarlands með framkvæmdum. Framkvæmdir innan byggingarreits sem sótt er um munu ekki raska vistgerðum með hátt verndargildi, reiturinn er á þegar röskuðu svæði og mun ekki hafa veruleg áhrif á búrekstrarskilyrði eða rjúfa samfellu landbúnaðarlands.
Skv. gildandi aðalskipulagi getur sveitarstjórn ákveðið að veita megi leyfi til stakra bygginga án deiliskipulags, ef uppbygging fellur að markmiðum aðalskipulags um búsetu í dreifbýli og er til þess að styrkja atvinnulíf í dreifbýli, og ef uppbygging nýtir núverandi veitu- og samgöngukerfi. Uppbygging sem hér er sótt um kallar ekki á lagningu nýrra stofnlagna eða nýrrar vegtengingar við þjóðveg.
Notkun byggingar, sem hér er sótt um byggingarreit fyrir, er algeng í dreifbýli og stuðlar að því að halda bæjarhlaði snyrtilegu með því að gera landeigendum kleift að geyma tæki og búnað innandyra.
Reiturinn liggur að landamerkjum Miðhúsa 1 og Miðhúsa, landnr. 146567. Landeigandi Miðhúsa, L146567 áritar einnig erindið til staðfestingar um að hann geri ekki athugasemdir við byggingarreit eða fyrirhugaða uppbyggingu á Miðhúsum
Umsögn minjavarðar liggur fyrir án athugasemda.
Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að heimila umbeðinn byggingarreit. Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Miðhús 1 og 1B L232778 í Óslandshlíð - Umsókn um stofnun byggingarreits, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða. -
Skipulagsnefnd - 81 Sigurjóna Skarphéðinsdóttir óskar eftir að skráningu landsins Skuggabjörg land L197801 verði breytt úr sumarbústaðarland í annað land (80).
Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að breyta skráningu Skuggabjarga land úr sumarbústaðarlandi í almennt land. Bókun fundar Afgreiðsla 81. fundar skipulagnefndar staðfest á 41. fundi sveitarstjórnar 17. september 2025 með níu atkvæðum. -
Skipulagsnefnd - 81 Árni Sigurjón Sigurðsson og Ragnheiður Guðmundsdóttir eigendur að lóðinni Marbæli land 1 L221580 óska eftir að breyta nafni lóðarinnar í Eikarás. Vísar nafnið til þess að landið ofan (vestan) vegar á Lagnholti er öllu jöfnu kallað Ás eða Ásinn auk þess sem gróðursett hefur verið Eik í garði lóðarinnar. Samkvæmt upplýsingum á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ber engin önnur fasteign í Skagafirði nafnið Eikarás.
Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða umbeðið nafnleyfi. Bókun fundar Afgreiðsla 81. fundar skipulagnefndar staðfest á 41. fundi sveitarstjórnar 17. september 2025 með níu atkvæðum. -
Skipulagsnefnd - 81 Lögð fram til kynningar fundargerð byggingarfulltrúa frá fundi nr. 69 þann 22.08.2025. Bókun fundar Afgreiðsla 81. fundar skipulagnefndar staðfest á 41. fundi sveitarstjórnar 17. september 2025 með níu atkvæðum.