Fara í efni

Fyrirspurn um félagsheimili

Málsnúmer 2505168

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 147. fundur - 21.05.2025

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 16. maí sl. frá Álfhildi Leifsdóttur, fulltrúa VG og óháðra í byggðarráði. Í tölvupóstinum ber Álfhildur upp fyrirspurn svohljóðandi:

"Í auglýsingu sveitarfélagsins Skagafjarðar þar sem leitað er eftir rekstraraðila eftir félagsheimilinu í Hegranesi og Skagaseli eru skilmálar um að leigugreiðsla skuli taka mið af álögðum fasteignaskatti, skyldutryggingum og viðhaldskostnaði sem nemur 1,5% af brunabótamati fasteignamati.
VG og óháð óskar eftir eftirfarandi upplýsingum vegna þessa skilmála:

1. Á hvaða forsendum byggir sú ákvörðun að krefjast þess að árlegur viðhaldskostnaður skuli nema 1,5% af brunabótamati viðkomandi húsnæðis?

2. Er fyrirhugað að beita sömu viðhaldsskilyrðum (1,5% af brunabótamati) við leigu annarra félagsheimila í eigu sveitarfélagsins?

3. Eru þessi viðhaldskilyrði almennt notuð í viðhaldi eigna sveitarfélagsins? Ef ekki, við hvað er þá miðað?

4. Hvaða upphæðir er um að ræða séu reiknuð 1,5% af brunabótamati af öllum félagsheimilum í eigu sveitarfélagsins (hverju fyrir sig)?

5. Eru önnur húsnæði í eigu sveitarfélagsins sem nú eru í leigu eða rekstri með samsvarandi árlega viðhaldsskyldu?

6. Eru einhver húsnæði í eigu sveitarfélagsins algjörlega undanskilin því að greiða fasteignagjöld og/eða viðhaldskostnað?

7. Hvernig verður tryggt að viðmið sem þessi mismuni ekki rekstraraðilum eftir eðli og staðsetningu húsnæðis?

Veitt eru eftirfarandi svör við fyrirspurninni:

1. Á hvaða forsendum byggir sú ákvörðun að krefjast þess að árlegur viðhaldskostnaður skuli nema 1,5% af brunabótamati viðkomandi húsnæðis?
Sveitarfélagið leitaði ráðgjafar til KPMG og fékk þau tilmæli að ráðlegt væri að miða við 1,5% - 2,5% af brunabótamati fasteignar árlega til viðhalds fasteigna. Við ákvörðunina var það metið eðlilegt að gæta meðalhófs og miða við neðri mörkin.

2. Er fyrirhugað að beita sömu viðhaldsskilyrðum (1,5% af brunabótamati) við leigu annarra félagsheimila í eigu sveitarfélagsins?
Á 137. fundi byggðarráðs þann 12. mars sl. var ákvörðun tekin um að auglýsa eftir áhugasömum til að taka við rekstri þeirra tveggja félagsheimila sem umræðan á þeim fundi sneri um, það eru Skagasel og Félagsheimili Rípurhrepps. Sömu skilyrði giltu um bæði félagsheimilin. Gert er ráð fyrir að verði ákvörðun tekin um að fara sömu leið með önnur félagsheimili í Skagafirði, þá muni sömu skilmálar gilda um þau félagsheimili. Uppreiknaður kostnaður leigutaka við Félagsheimili Rípurhrepps verður leigugreiðsla að upphæð 213.250 krónum á mánuði sem gerir 766 krónur á hvern fermeter. Skagasel yrði leigt á 244.026 krónur á mánuði eða 819 krónur á fermeter. Það er lang lægsta leiguverð á hvern fermetra fyrir nokkra þá eign sem sveitarfélagið á. Þess ber að geta að ekki er gert ráð fyrir afskriftum við ákvörðun leiguverðs á félagsheimilunum tveimur.

3. Eru þessi viðhaldskilyrði almennt notuð í viðhaldi eigna sveitarfélagsins? Ef ekki, við hvað er þá miðað?
Það fer eftir tegund eignar og aðstæðum við hvaða viðhaldsskilyrði er miðað við. Félagslegar leiguíbúðir hafa verið leigðar út með það fyrir augum að mæta fjármögnunarkostnaði auk umsýslukostnaðar á sama tíma og leitast er við að halda leigufjárhæð í lágmarki, sökum eðli starfseminnar. Við útleigu á rýmum á Faxatorgi hefur sveitarfélagið haft markaðsverð slíkra rýma til viðmiðunar, en þar nemur leigufjárhæð um 4,9% af brunabótamati auk þess sem leigutakar greiða allan rekstrarkostnað fasteignarinnar. Innri leiga sveitarfélagsins tekur mið af reglugerð 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga þar sem innheimta skal leigu í samræmi við raunverulegan kostnað sem viðkomandi fjárfesting ber með sér yfir lengri tíma. Til slíks kostnaðar teljast fjármagnskostnaður vegna viðkomandi rekstrarfjármuna, afskriftir, skattar og tryggingar og viðhaldskostnaður, auk eðlilegrar þóknunar eignasjóðs fyrir umsýslu.

4. Hvaða upphæðir er um að ræða séu reiknuð 1,5% af brunabótamati af öllum félagsheimilum í eigu sveitarfélagsins (hverju fyrir sig)?
1,5% af brunabókamati hverrar eignar fyrir sig er hér gefin upp í heild sinni, taka skal mið af því að kostnaðurinn deilist niður á 12 mánuði þegar reikna á út hvert álag viðhalds verður ofan á leiguverð hvers félagsheimilis fyrir sig:
Melsgil: 1.103.250 kr.
Ljósheimar: 2.744.250 kr.
Félagsheimili Rípurhrepps: 2.021.250 kr.
Árgarður: 5.164.050 kr.
Höfðaborg: 7.452.750 kr.
Ketilás: 2.121.150 kr.
Miðgarður: 17.556.000 kr.
Skagasel: 2.298.000 kr.
Bifröst: 3.825.000 kr.
Héðinsminni: 1.683.750 kr.

5. Eru önnur húsnæði í eigu sveitarfélagsins sem nú eru í leigu eða rekstri með samsvarandi árlega viðhaldsskyldu?
Stærstur hluti samninga sveitarfélagsins um leigu er á félagslegum grunni eða innri leiga á eigin fasteignum. Þar á eftir koma samningar um leigu á skrifstofurými í Faxatorgi 1, þar er vísað í svar við lið 3 varðandi forsendur. Það eru ekki fordæmi um rekstrarsamninga á borð samninga sem nú eru auglýstir varðandi félagsheimili Rípurhrepps og Skagasel enda er hér um nýbreytni að ræða. Vísað er hér til ákvörðunar 137. fundar byggðarráðs þann 12. mars sl. þegar ákveðið var að falla frá beinni sölu félagsheimilanna og auglýsa frekar eftir áhugasömum rekstraraðilum sem eru tilbúnir til að taka við rekstri félagsheimilanna þannig sveitarfélaginu stafi enginn kostnaður af rekstrinum. Tekið skal fram að ekki er tekið mið af afskriftum húsnæðis við ákvörðun leiguverðs.

6. Eru einhver húsnæði í eigu sveitarfélagsins algjörlega undanskilin því að greiða fasteignagjöld og/eða viðhaldskostnað?
Nei, sveitarfélagið greiðir fasteignagjöld af öllum sínum eignum. Viðhaldi er sinnt eftir þörfum og stærri viðhaldsaðgerðum á fasteignum í eigu sveitarfélagsins er forgangsraðað í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins ár hvert.

7. Hvernig verður tryggt að viðmið sem þessi mismuni ekki rekstraraðilum eftir eðli og staðsetningu húsnæðis?
Þessi viðmið eiga við um bæði þau félagsheimili sem ákveðið var að auglýsa á 137. fundi byggðarráðs þann 12. mars sl. (sjá nánar í fundargerð: https://www.skagafjordur.is/is/fundargerdir/byggdarrad-skagafjardar/5580). Það þarf að skoða heildrænt hvert verkefni fyrir sig því mismunandi reglur gilda um hin ýmsu rekstrarform. Hvert verkefni þarf að skoða heildrænt með markmið að leiðarljósi. Félagslegt húsnæði á vegum sveitarfélagsins er leigt út með það að leiðarljósi að útvega þeim húsnæði sem þurfa sérstakan stuðning til þess, innri leiga eignarsjóðs á fasteignum í eigu sveitarfélagsins hefur það að markmiði að hýsa starfsemi stofnanna sveitarfélagsins og í þessu tilviki byggist ákvörðun byggðarráðs á því að koma til móts við hóp sem var andvígur sölu félagsheimilanna á almennum markaði og hafði lýst yfir áhuga á því að taka við rekstri félagsheimilis Rípurhrepps. Ákveðið var að fresta sölunni og bjóða áhugasömum einstaklingum eða lögaðilum að taka við rekstri umræddra félagsheimila sem til stóð að selja. Þessi leið þótti henta best með tilliti til þess að áherslur í byggðarráði hafa verið að eins verði komið fram við alla og sama aðferð verði nýtt um öll félagsheimili sem umræður kunna að beinast að því að selja. Með þessu móti sitja allir við sama borð, allir hafa möguleikann á að taka við rekstrinum án þess að verið sé að afhenda sameiginlegar eignir allra Skagfirðinga með gjafagjörningum til fárra útvalinna. Stígi aðilar fram sem hafa áhuga og getu til að taka við rekstri þeirra félagsheimila þannig að sveitarfélagið beri engan kostnað af hafa þeir möguleikann á því.

Álfhildur Leifsdóttir, fulltrúi VG og óháðra óskar bókað:
"Fulltrúi VG og óháðra þakkar fyrir svör við fyrirspurn hvað varðar skilmála varðandi leigu á félagsheimilunum í Hegranesi og Skagaseli, sérstaklega varðandi ákvörðun um að árlegur viðhaldskostnaður skuli nema 1,5% af brunabótamati.
Í bókun meirihluta og Byggðalista af 137. fundar byggðaráðs og staðfest á sveitarstjórnarfundi þann 12. mars síðastliðnum segir m.a.: “Mikilvægt er að koma málefnum og rekstri félagsheimilanna til betri vegar með það að markmiði að notagildi þeirra verði meira, samfélaginu öllu til góða. Í þeirri vinnu er jafnframt mikilvægt að hafa í huga að hlutur sveitarfélagsins í félagsheimilunum er eign allra íbúa Skagafjarðar og því þarf að gæta að jafnræði milli íbúa, hvort sem er við leigu þeirra eða sölu."
Það einmitt mat VG og óháðra að mikilvægt sé að tryggja samræmi og jafnræði milli þeirra aðila sem leigja húsnæði af sveitarfélaginu. Slík viðmið þurfa að byggja á skýrum og gagnsæjum forsendum sem eiga við öll sambærileg tilfelli, óháð staðsetningu eða eðli húsnæðis. Er því miður ekki að sjá að það sé raunin með þeim áformum sem auglýsing húsanna sýnir. Það að meirihluti og Byggðalisti telji að þessi einhliða ákvörðun þeirra um þessa skilmála séu til þess fallnir að koma sem best og jafnast fram við öll sýnir að okkar mati skort á því samtali sem æskilegt hefði verið að færi fram við þann hóp sem andvígur var sölunni.
Fulltrúi VG og óháðra hvetur því til þess að sveitarfélagið móti heildstæða stefnu um leigu og viðhaldsskyldur þeirra sem leigja eignir sveitarfélagsins, þannig að skýrt sé við hvað sé miðað og hvernig tryggt sé að aðilum sé ekki mismunað."