Fara í efni

Kerfisáætlun Landsnets 2025-2034

Málsnúmer 2505077

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 146. fundur - 14.05.2025

Landsnet lagði fram til kynningar og umsagnar Kerfisáætlun 2025-2034 í samræmi við raforkulög. Landsnet leggur að þessu sinni fram þriggja ára framkvæmdaáætlun með kerfisáætlun. Kjarninn í kerfisáætlun er forgangsröðun framkvæmda til uppbyggingar flutningskerfisins. Í langtímaáætlun er kynnt hvaða framkvæmdir verði ráðist í á næstu 10 árum. Í framkvæmdaáætlun er greint nánar frá þeim framkvæmdum sem farið verður í á næstu þremur árum, hvaða valkostir hafi verið skoðaðir og hvað hafi ráðið vali. Einnig fylgir áætluninni umhverfismatsskýrsla.

Byggðarráð samþykkir samhljóða eftirfarandi umsögn:

Í fyrirliggjandi drögum að Kerfisáætlun Landsnets er fjallað um þau verkefni sem áformuð eru á árabilinu 2025-2034. Ljóst er að megin flutningslínur raforku til Skagafjarðar eru fulllestaðar og geta ekki borið meira rafmagn en þær gera í dag. Við þetta má bæta að Rangárvallalína sem liggur frá Varmahlíð til Akureyrar er elsti hluti byggðalínunnar á Íslandi, með tilheyrandi takmörkunum flutningsgetu, viðhaldsþörf og tapi á raforku. Byggðarráð fagnar því að gert sé ráð fyrir endurnýjun Rangárvallalínu með tilkomu Blöndulínu 3 og að ráð sé fyrir gert að framkvæmdir við þá línu hefjist á árinu 2026. Hið sama má segja um lagningu Holtavörðuheiðarlínu 1 og 3 en það er líka fagnaðarefni að ráð sé fyrir því gert að framkvæmdir við þær línur hefjist á árinu 2027. Byggðarráð harmar hins vegar að ekki sé gert ráð fyrir endurnýjun á Sauðárkrókslínu 1, sem er 66 kV loftlína sem var tekin í notkun árið 1954 og er því 71 árs gömul, en ástand hennar er ekki metið gott. Byggðarráð Skagafjarðar leggur því til að hún verði endurnýjuð hið fyrsta, að undangengnu mati á möguleikum þess að lagður verði 132 kV jarðstrengur í stað hennar við hlið Sauðárkrókslínu 2 eða með hringtengingu um Þverárfjall. Með aukningu á flutningsgetu rafstrengja til Sauðárkróks ásamt endurnýjun byggðalínunnar munu möguleikar héraðsins til orkuskipta og nýtingu endurnýjanlegrar raforku til fjölbreyttrar starfsemi aukast sem er mikilvægt fyrir alla framtíðar uppbyggingu í Skagafirði.