Fara í efni

Fyrirspurn um skoðun á hvort vöntun sé á lóðum eða svæðum á Sauðárkróki fyrir verslun og þjónustu

Málsnúmer 2505061

Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd - 75. fundur - 28.05.2025

Álfhildur Leifsdóttir leggur fram eftirfarandi fyrirspurn:
Í bókun meirihluta á 31. fundi sveitarstjórnar þann 23. október 2024, í tengslum við tillögu undirritaðrar sem lögð var fram á 59. fundi skipulagsnefndar þann 19. september 2024, kemur fram eftirfarandi:
"Meirihluti sveitarstjórnar leggur því til að tillögunni verði hafnað og vísar því til skipulagsnefndar að skoða í framhaldinu hvort vöntun sé á lóðum eða svæðum á Sauðárkróki fyrir verslun og þjónustu."
Með vísan í ofangreinda bókun er óskað eftir upplýsingum um stöðu þeirrar vinnu sem meirihlutinn vísaði til skipulagsnefndar. Nánar tiltekið er óskað svara við eftirfarandi:
1. Hefur skipulagsnefnd fjallað um þessa tilvísun og ef svo er, hvenær og með hvaða niðurstöðu?
2. Ef málið hefur ekki verið tekið fyrir, hvenær er gert ráð fyrir að það verði sett á dagskrá skipulagsnefndar og með hvaða hætti stendur til að kanna umrædda vöntun?
3. Hver er ábyrgðaraðili varðandi undirbúning eða eftirfylgni þessarar skoðunar?

Skipulagsfulltrúi upplýsir um að skoðun um hvort vöntun sé á lóðum eða svæðum fyrir verslun og þjónustu sé erfitt að útfæra. Áreiðanlegustu upplýsingar um slíkt er fjöldi formlegra umsókna og fyrirspurna sem berast embættinu um ýmis konar atvinnulóðir. Skipulagsfulltrúi upplýsir jafnframt um að landnotkunarflokkurinn verslun- og þjónusta var stækkaður í vinnslutillögu aðalskipulags Skagafjarðar 2025-2040 og við vinnslu deiliskipulagstillögu fyrir Athafnarsvæði - Sauðárkrókur - AT-403 var reynt að stilla upp miklum fjölda af fjölbreyttum stærðum og gerðum af athafnarlóðum fyrir atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta er á mengun. Jafnframt var reynt að hafa gott samráð við hagsmunaaðila við gerð deiliskipulagstillögunnar með m.a. opinni vinnustofu fyrir utan lögbundið kynningarferli. Með nýlegri auglýsingu á lausum atvinnu- og athafnalóðum við Borgarbraut er útlit fyrir að nægur fjöldi lóða sé til reiðu til að anna eftirspurn. Til viðbótar bætast svo innan fárra mánaða aðrar lóðir innan athafnarsvæðis - AT-403. Ekki hafa borist umsóknir um lóðir frá rekstraraðilum lágvöruverðsverslana.

Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi VG og óháðra óskar bókað:
Þakka veitt svör en ítrekar mikilvægi þess að fylgt sé góðum stjórnsýsluháttum. Sérstaklega er brýnt að kjörnir fulltrúar vísi skýrt í verklagsreglur þannig að starfsfólk sveitarfélagsins geti með auðveldum hætti farið eftir þeim ferlum sem lagðir eru til grundvallar.