Fara í efni

Umsagnarbeiðni; Verndar- og orkunýtingaráætlun (bætt málsmeðferð og aukin skilvirkni)

Málsnúmer 2504061

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 142. fundur - 16.04.2025

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar 268. mál - Verndar- og orkunýtingaráætlun (bætt málsmeðferð og aukin skilvirkni).

Frestur til að senda inn umsögn er til og með 23. apríl nk.

Byggðarráð fagnar framkomnu frumvarpi og markmiði þess um að gera ferli rammaáætlunar skilvirkara og með skilgreindum tímafrestum vegna ýmissa þátta við meðferð mála í áætluninni, án þess að dregið sé úr faglegum kröfum. Nauðsynlegt er að ráðast í aukna orkuöflun þar sem það á við til að styðja við orkuöryggi, orkuskipti og verðmætasköpun um land allt. Brýnt er í ljósi óvissu sem uppi er vegna áhrifa jarðhræringa á virkjanir og virkjanakosti og vegna orkuöryggis þjóðarinnar að litið sé til hagkvæmra virkjanakosta utan eldvirkra svæða.

Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir fyrir hönd VG og óháðra óskar bókað:
"VG og óháð telja mikilvægt að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun standi vörð um náttúru Íslands og tryggi að ákvarðanir um orkuvinnslu byggi á heildstæðu og faglegu mati á áhrifum á náttúru, menningarminjar og samfélag. Áhersla á skilvirkni í stjórnsýslu má aldrei ganga á kostnað náttúruverndar eða draga úr vönduðum ferlum.

Frumvarpið felur í sér að ráðherra geti veitt undanþágu til matsskyldra orkurannsókna á virkjunarhugmyndum í biðflokki. VG og óháð telja slíka heimild varhugaverða þar sem hún getur grafið undan meginmarkmiðum verndar- og orkunýtingaráætlunar. Slíkar undanþágur opna á framkvæmdaforsendur áður en endanlegt faglegt mat og pólitísk afstaða hafa verið tekin. Það getur leitt til óafturkræfrar röskunar á náttúru áður en ljóst er hvort svæðið hljóti samþykki til nýtingar.

Það er réttmæt krafa að ákvarðanataka sé skilvirk, en frumvarpið leggur ríka áherslu á tímafresti og hraða sem gætu haft áhrif á gæði og vandaða málsmeðferð. VG og óháð minna á að tafir í málsmeðferð rammaáætlunar hafa ítrekað stafað af stjórnmálalegum ákvörðunum eða tregðu Alþingis til að samþykkja tillögur, en ekki af faglegri vinnu verkefnisstjórnar. Það er því misvísandi að lögð sé áhersla á að hraða ferlinu án þess að tryggja að gæði og gagnsæi haldist."