Fara í efni

Ársreikningur Skagafjarðar 2024

Málsnúmer 2501114

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 140. fundur - 02.04.2025

Kristján Jónasson og Helgi Níelsson endurskoðendur frá KPMG sátu fundinn undir þessum lið og lögðu fram ársreikning Skagafjarðar 2024. Öllum kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum, sem ekki sitja í byggðarráði, var boðið að vera viðstödd kynningu hans.
Sveinn Þ. Finster Úlfarsson og Margeir Friðriksson fjármálastjóri Skagafjarðar sátu fundinn undir þessum dagskrárlið auk Hrundar Pétursdóttur og Sólborgar Sigurrósar Borgarfsdóttur sem tóku þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2024 námu 9.493 millj. kr. samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A- og B-hluta, þar af námu rekstrartekjur A-hluta 8.077 millj. kr. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum ársreikningi A- og B-hluta var jákvæð um 480 millj. kr., þar af jákvæð í A-hluta um 215 millj. kr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2024 nam 5.117 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A-hluta nam 2.781 millj. kr.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að vísa ársreikningnum til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Skagafjarðar - 37. fundur - 08.04.2025

Sveitarstjóri Sigfús Ingi Sigfússon kynnti ársreikning 2024.

Ársreikningur Skagafjarðar fyrir árið 2024 er hér lagður fram til fyrri umræðu.

Ársreikningurinn samanstendur af upplýsingum um A-hluta sveitarsjóðs og A- og B-hluta samantekinn. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóðs og þjónustustöðvar. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf. og Eyvindarstaðaheiði ehf., auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð sveitarfélagsins, þ.e. Norðurá bs. og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Rekstrartekjur Skagafjarðar námu á árinu 9.493 m.kr. af samstæðunni í heild. Þar af voru rekstrartekjur A-hluta 8.077 m.kr. Rekstrargjöld samstæðunnar að frátöldum afskriftum og fjármagnsliðum voru 8.130 m.kr., þar af A-hluti 7.251 m.kr. Rekstrarafgangur A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 1.364 m.kr., þar af er rekstrarniðurstaða A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði jákvæð um 826 m.kr. Afskriftir eru samtals 350 m.kr., þar af 193 m.kr. hjá A-hluta. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru hjá samstæðunni í heild samtals 516 m.kr., þ.a. eru 418 m.kr. fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur í A-hluta sveitarsjóðs. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta á árinu 2024 er jákvæð um 480 millj. króna og rekstrarniðurstaða A-hluta er jákvæð um 215 millj. króna.

Eignir Skagafjarðar A- og B-hluta voru í árslok samtals 15.417 m.kr, þar af voru eignir A-hluta 11.789 m.kr. Skuldir og skuldbindingar voru í árslok 2024 samtals 10.290 m.kr., þar af hjá A-hluta 9.007 m.kr. Langtímaskuldir námu alls 6.418 m.kr. hjá A- og B-hluta auk 604 m.kr. næsta árs afborgana. Eigið fé nam 5.127 millj. króna hjá samstæðunni í árslok og er eiginfjárhlutfall 33,3%. Lífeyrisskuldbindingar nema 1.986 m.kr. í árslok.

Veltufé frá rekstri A- og B-hluta nam 1.266 m.kr., þar af er veltufé frá rekstri A-hluta 753 m.kr. Handbært fé frá rekstri A- og B-hluta er 1.350 m.kr. Fjárfestingahreyfingar samstæðunnar námu á árinu 2024, 1.139 m.kr., þar af námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 1.268 millj. króna. Afborganir langtímalána og skuldbreytingar námu 664 m.kr. Handbært fé nam 320 m.kr. í árslok. Ný langtímalán voru að fjárhæð 328 m.kr.

Í 64. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. megi ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Frá heildarskuldum og skuldbindingum er heimilt að draga frá hluta lífeyrisskuldbindinga sem og tekjur og skuldir veitna og langtímakröfu vegna Brúar lífeyrissjóðs. Hjá Skagafirði er skuldahlutfall í ársreikningi fyrir árið 2024, 108% án þess að dreginn sé frá sá hluti af heildarskuldum sem heimilað er í lögum og reglugerð. Skuldaviðmið er 86% þegar búið er að draga frá það sem heimilt er vegna lífeyrisskuldbindinga og veltufé frá rekstri.

Sveinn Þ. Finster Úlfarsson, Sigfús Ingi Sigfússon, Álfhildur Leifsdóttir og Gísli Sigurðsson kvöddu sér hljóðs.

Ársreikningur 2024 borin upp til afgreiðslu og samþykktur með níu atkvæðum og vísað til síðari umræðu.

Sveitarstjórn Skagafjarðar - 38. fundur - 14.05.2025

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri kynnti ársreikninginn.

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2024 er hér lagður fram til seinni umræðu. Ársreikningurinn samanstendur af upplýsingum um A-hluta sveitarsjóðs og A- og B-hluta samantekinn. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóðs og þjónustustöðvar. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf., Flokka ehf. og Eyvindarstaðaheiði ehf., auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð sveitarfélagsins, þ.e. Norðurá bs. og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Rekstrartekjur Skagafjarðar námu á árinu 9.493 m.kr. af samstæðunni í heild, A- og B-hluta. Þar af voru rekstrartekjur A-hluta 8.077 m.kr. Rekstrargjöld samstæðunnar að frátöldum afskriftum og fjármagnsliðum voru 8.130 m.kr., þ.a. A-hluta 7.251 m.kr. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er jákvæð um 1.364 m.kr., þar af er rekstrarniðurstaða A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði jákvæð um 826 m.kr. Afskriftir eru samtals 350 m.kr., þar af 193 m.kr. hjá A-hluta. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru hjá samstæðunni í heild samtals 516 m.kr., þ.a. eru 418 m.kr. fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur í A-hluta sveitarsjóðs. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta á árinu 2024 er jákvæð um 480 m.kr. en rekstrarniðurstaða A-hluta er jákvæð um 215 m.kr.
Eignir Skagafjarðar A- og B-hluta voru í árslok samtals 15.417 m.kr., þ.a. voru eignir A hluta 11.789 m.kr. Skuldir og skuldbindingar voru í árslok 2024 samtals 10.290 m.kr., þ.a. hjá A-hluta 9.007 m.kr. Langtímaskuldir námu alls 6.418 m.kr. hjá A- og B-hluta auk 604 m.kr. næsta árs afborgana. Eigið fé nam 5.127 m.kr. hjá samstæðunni í árslok og er eiginfjárhlutfall 33,3%. Af þessari tölu nam eigið fé A-hluta 2.781 m.kr. og eiginfjárhlutfall 23,6%. Lífeyrisskuldbindingar nema 1.986 m.kr. í árslok.
Veltufé frá rekstri A- og B-hluta nam 1.266 m.kr., þar af er veltufé frá rekstri A-hluta 753 m.kr. Handbært fé frá rekstri A- og B-hluta er 1.350 m.kr. Fjárfestingahreyfingar námu á árinu 2024, 1.139 m.kr., þar af námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 1.268 m.kr. Afborganir og skuldbreytingar langtímalána á árinu 2024 eru 664 m.kr., handbært fé nam 320 m.kr. í árslok. Tekin voru ný langtímalán að fjárhæð 328 m.kr.
Í 64. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. megi ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Frá heildarskuldum og skuldbindingum er heimilt að draga frá hluta lífeyrisskuldbindinga sem og tekjur og skuldir veitna og langtímakröfu vegna Brúar lífeyrissjóðs. Hjá Skagafirði er skuldahlutfall í ársreikningi fyrir árið 2024, 108% án þess að dreginn sé frá sá hluti af heildarskuldum sem heimilað er í lögum og reglugerð. Skuldaviðmið er 86% þegar búið er að draga frá það sem heimilt er.
Að lokum þakkaði sveitarstjóri öllum þeim sem lögðu á sig ómælda vinnu við gerð þessa ársreiknings.

Álfhildur Leifsdóttir kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun:
VG og óháð samþykkir ársreikning Skagafjarðar fyrir árið 2024 en við viljum koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri.
Við fögnum því að rekstrarniðurstaða A og B hluta er jákvæð um 480 milljónir króna og að eigið fé sveitarfélagsins heldur áfram að styrkjast. Einnig teljum við það til bóta að rekstur hafi í meginatriðum farið fram í samræmi við fjárhagsáætlun og að óháður endurskoðandi hafi gefið fyrirvaralausa áritun.
Við teljum þó nauðsynlegt að vekja athygli á nokkrum þáttum sem betur mega fara:
Í endurskoðunarskýrslu KPMG kemur fram að verulegir veikleikar séu til staðar í innra eftirliti sveitarfélagsins hvað varðar bókunaraðgang í fjárhagsbókhaldi og aðgang að bankareikningi í eigu sveitarfélagsins. Það er talið auka hættu á villum og misferlum og veldur aukinni vinnu við afstemmingar og utanumhald bankareikninga. Slíkt dregur úr rekstraröryggi og getur haft áhrif á traust íbúa á fjármálastjórn. Þessa veikleika höfum við í VG og óháðum orðið vör við þar sem rúmt ár er liðið frá fyrirspurn okkar um hvaða verktakar hafa fengið verk frá sveitarfélaginu án útboðs en engin svör höfum við fengið núna ári síðar. Strandi það á bókunum í kerfinu er greinilegt að það þarfnast úrbóta svo úrvinnsla upplýsinga og gagnsæi sé ásættanlegt. Við teljum því eins og KPMG að nauðsynlegt að gripið verði tafarlaust til úrbóta og farið í markvissa greiningu á verkferlum, ábyrgð og gæðakerfum.
Heildarfjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum námu rúmlega 1,2 milljörðum króna, sem er umtalsverð fjárhæð. Mikilvægt er að fjárfestingar séu byggðar á raunverulegum samfélagslegum þörfum og framtíðarsýn og má þar nefna að klára Árskóla eins og lengi hefur staðið til sem og að reisa íþróttahús á Hofsósi svo eitthvað gamalt en þarft sé nefnt.
Skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins nema samtals yfir 10 milljörðum króna, þar af eru langtímaskuldir um 6,4 milljarðar. Þó staðan sé stöðug eins og er þarf að gæta varúðar í framtíðarákvörðunum, sér í lagi með hliðsjón af mögulegum vaxtahækkunum og ytri efnahagsáföllum.
Við teljum að alltaf þurfi forgangsröðun innan rekstrar vera með tilliti til velferðar barna, aldraðra og tekjulágra. Mikilvægt er að byggja upp félagslega innviði með markvissum hætti og tryggja að lögbundin þjónusta sé uppfyllt og má þar nefna matarþjónustu við eldri borgara, sem er fagnaðarefni að sé farin af stað en betur má ef duga skal. Í lögum um Félagsþjónustu, 40.grein kemur skýrt fram að að Sveitarstjórn eigi að sjá um að félagsþjónusta aldraðra sé fyrir hendi í sveitarfélaginu eftir þörfum, t.d. heimsending matar. Sem og er nauðsynlegt að halda áfram að sækja réttlæti í kostnaði sem ætti ekki að tilheyra sveitarfélaginu heldur Ríkinu eins og sveitarstjóri fór yfir en um það höfum við sveitarstjórnarfulltrúar verið sameinuð um að gera hingað til og erum það örugglega áfram.
Við þökkum fulltrúum, sveitarstjóra og starfsfólki fyrir góða vinnu.
Álfhildur Leifsdóttir, Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir VG og óháð

Sveinn Þ Finster Úlfarsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Ársreikningur fyrir árið 2024 skilar A hluti 215 milljóna króna hagnaði, því ber að fagna og er það mikill viðsnúningar milli ára.
Það kemur skýrt fram í ársreikningnum að verðbólga er á niðurleið. Verðbætur vegna lána við lánastofnanir fóru úr 492 milljónum króna Í 302 milljónir króna. Eins fóru fjármagnsgjöld úr 669 milljónum í 516 milljónir í A og B hluta.Teljum við því nauðsynlegt að missa ekki sjónar af uppbyggingu og viðhaldi grunnstoða samfélagsins og bíða með aðrar fjárfestingar. Enn og aftur sést það skýrt að það borgar sig að halda skuldum eins lágum hægt er.
Mikilvægt er að passa að fjárfestingar fari ekki fram úr hófi, forgangsröðun fjárfestinga sé skynsöm og snúist um uppbyggingu grunnstoða samfélagsins og þar að leiðandi ýti undir fjölgun íbúa sveitarfélagsins. Þar sem útsvar sveitarfélagsins er um 42 % af tekjum A-hluta og skiptir hver einstaklingur sem hér býr máli. Það er mikilvægt að grunnstoðir samfélagsins, leikskóla, grunnskólar og íþróttaaðstaða séu til staðar og geti tekið á móti þeim sem vilja setjast hér að og sinnt vinnu í öflugu atvinnulífi sem Skagafjörður hefur uppá að bjóða.
Að lokum viljum við þakka starfsfólki sveitarfélagsins fyrir sitt vinnuframlag.
Fulltrúar Byggðalistans Jóhanna Ey Harðardóttir og Sveinn Þ. Finster Úlfarsson.
Einar E Einarsson, með leyfi varaforseta, kvaddi sér hljóðs, þá Gísli Sigurðsson og lagði fram eftirfarandi bókun:

Ársreikningur Skagafjarðar fyrir árið 2024 hefur nú verið kynntur og liggur fyrir sveitarstjórn til samþykktar.
Afar ánægjulegt er að leggja fram ársreikning sem sýnir jákvæða rekstrarniðurstöðu fyrir A- og B-hluta sveitarsjóðs upp á 480 milljónir króna og að rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er sömuleiðis jákvæð upp á 215 milljónir króna. Rekstrarafgangur fyrir A- og B-hluta sveitarfélagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 1.364 milljónir króna.
Handbært fé A- og B-hluta var í árslok 320 milljónir króna. Veltufé frá rekstri A- og B-hluta nam 1.266 milljónum króna en nam 1.226 milljónum króna árið 2023, þar af er veltufé frá rekstri A- hluta 753 milljónir króna en nam 948 milljón króna árið 2023. Veltufé frá rekstri samstæðunnar er nú 13,3 % í hlutfalli við rekstrartekjur og hefur ósjaldan verið betra.
Skuldahlutfall samstæðu A- og B-hluta er 108% en var árið 2023 114%, án þess að dregið sé frá hluti af lífeyrisskuldbindingum sem og tekjur og skuldir veitna líkt og heimilt er. Í 64. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að skuldahlutfall megi ekki vera yfir 150% af reglulegum tekjum, en ef dregið er frá það sem heimilt er samkvæmt reglugerðum, er skuldaviðmið samstæðunnar nú 86% sem er langt undir þeim mörkum sem lögin setja sveitarfélögum, og fer ört lækkandi. Skuldaviðmið sveitarfélagsins fyrir árið 2022 var þannig 91% og árið 2023 93%.
Miðað hefur verið við í fjárhagsáætlunum síðustu ára að ný lántaka sé ekki umfram það sem greitt er niður af lánum. Ný lántaka langtímalána árið 2024 nam um 328 milljónum króna en afborganir langtímalána voru 664 milljónir króna.
Fjárfestingar voru miklar hjá sveitarfélaginu á síðasta ári og námu fjárfestingarhreyfingar samstæðunnar 1.139 milljónum króna nettó og fjárfestingar í varanlegum rekstarfjármunum námu 1.268 milljónum króna. Til að setja skuldastöðu sveitarfélagsins í betra ljós og samhengi má benda á að það tæki sveitarfélagið 5 ár að greiða niður allar skuldir sveitarfélagsins ef ekki yrði framkvæmt á sama tíma. Á árunum eftir hrun hafði það tekið um eða yfir 30 ár að gera sveitarfélagið skuldlaust. Ljóst er að mikill árangur hefur náðst.
Eignir samstæðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar námu um síðast liðin áramót tæpum 15,5 milljörðum króna en voru í árslok 2023 rúmir 14,5 milljarðar króna.
Mikilvægt er að halda áfram uppbyggingu innviða í samfélaginu í þeirri vegferð að gera samfélagið okkar í Skagafirði enn sterkara sem og að auka samkeppnishæfni þess. Rekstur sveitarsjóðs er í góðu jafnvægi og batnar frá síðasta ári sem er jákvætt og má sama segja um einstaka málaflokka hjá sveitarfélaginu en rekstur þeirra var heilt yfir á áætlun sem er gleðilegt og ber vott um ábyrga fjármálastjórn og stöðugleika í rekstri.
Fyrir það ber að þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum sveitarfélagsins sem þar lögðu hönd á plóg til að svo mætti verða. Útkoma ársins er ánægjuleg og henni ber að fagna og er ein sú besta sem hefur verið frá stofnun sveitarfélagsins.
Sveitastjóra og fjármálastjóra þökkum við sérstaklega þeirra vinnu sem og fulltrúum minnihlutans. Samstarfið hefur verið gott og öll erum við að róa í sömu átt að gera Skagafjörð að enn þá betra samfélagi.
Mikill árangur hefur náðst á undanförnum árum í rekstri sveitarfélagsins sem og stöðugleiki í rekstri. Þó er öllum ljóst að rekstur ársins 2025 verður krefjandi verkefni fyrir kjörna fulltrúa sem og starfsmenn sveitarfélagsins.
Stöðugleiki í rekstri er undirstaðan fyrir áframhaldandi uppbyggingu samfélagsins. Það er verkefni okkar, kjörinna fulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins að viðhalda þeim stöðugleika og sækja fram fyrir Skagafjörð.

Gísli Sigurðsson
Sólborg Borgarsdóttir
Einar E Einarsson
Hrund Pétursdóttir
Hrefna Jóhannesdóttir

Ársreikningur 2024 borinn upp til afgreiðslu og samþykktur með níu atkvæðum.