Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2025-2028

Málsnúmer 2407014

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 114. fundur - 24.09.2024

Lagt fram til kynningar minnisblað frá greiningarteymi þróunarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga dagsett 18. september 2024 um forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2025 og 2026-2028.

Byggðarráð Skagafjarðar - 117. fundur - 18.10.2024

Undir þessum lið sat Margeir Friðriksson fjármálastjóri Skagafjarðar í gegnum fjarfundarbúnað.

Lögð fram fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árin 2025-2028.

Byggðarráð samþykkir samhljóða fjárhagsáætlun 2025-2028 til fyrri umræðu með áorðnum breytingum og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Skagafjarðar - 31. fundur - 23.10.2024

Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri tók til máls og kynnti fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2025.

Fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2025 er hér lögð fram til fyrri umræðu ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2026-2028. Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóða. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf., Flokka ehf. og Eyvindarstaðarheiði ehf, auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð sveitarfélagsins, þ.e. Norðurá bs. og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Áætlunin sýnir rekstraráætlun, áætlaðan efnahagsreikning og sjóðsstreymi fyrir sveitarfélagið, stofnanir og hlutdeildarfélög þess.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið 2025 gera ráð fyrir að rekstrartekjur Skagafjarðar nemi 9.504 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B-hluta, þar af eru rekstrartekjur A hluta áætlaðar 8.356 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða og afskrifta eru áætluð 8.248 m.kr., þar af A-hluti 7.577 m.kr.

Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 1.256 m.kr. Afskriftir nema 309 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur 341 m.kr. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga er 62 m.kr. Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætlaður samtals 669 m.kr. Rekstrarhagnaður A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 779 m.kr. Afskriftir nema 182 m.kr. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 271 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 327 m.kr.

Eignir Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2025, 17.891 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 13.253 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 12.410 m.kr. Þar af hjá A-hluta 10.541 m.kr. Eigið fé er áætlað 5.481 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall 30,64%. Eigið fé A-hluta er áætlað 2.712 m.kr. og eiginfjárhlutfall 20,47%. Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 640 m.kr. Veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 1.144 m.kr.

Helstu niðurstöður áætlunar fyrir árin 2026-2028 hvað samstæðuna varðar eru að áætlaðar tekjur 2026 eru 9.869 m.kr., fyrir árið 2027 10.003 m.kr. og fyrir árið 2028 10.315 m.kr. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er áætluð jákvæð fyrir árið 2026 um 631 m.kr., fyrir árið 2027 um 657 m.kr. og fyrir árið 2028 um 637 m.kr. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri fyrir árið 2026 verði 1.167 m.kr., fyrir árið 2027 verði það 1.187 m.kr. og fyrir árið 2028 verði það 1.209 m.kr.

Sveinn Þ. Finster Úlfarsson og Gísli Sigurðsson kvöddu sér hljóðs

Þá kvaddi Sveinn Þ. Finster Úlfarsson sér aftur hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Fulltrúar Byggðalistans leggja til að allir sveitarstjórnarfulltrúar verði boðaðir á þá fundi Byggðaráðs eða að haldnir verði vinnufundir sveitarstjórnar þar sem fjallað er um fjárhags- og framkvæmdaráætlun komandi árs á ári hverju.
Við teljum það mikilvægt að allir sveitarstjórnarfulltrúar hafi jafnan grundvöll til að rýna og koma áherslum á framfæri í vinnu við gerð fjárhags- og framkvæmdaáætlunar og séu þar af leiðandi eins vel upplýstir og kostur er þegar greiða á atkvæði um áætlunina."

Þá kvaddi Einar E. Einarsson hljóðs

Hlé gert á fundinum.

Þá kvaddi Sigfús Ingi Sigfússon sér hljóðs.

Jóhanna Ey Harðardóttir kvaddi sér hljóðs og bar upp svohljóðandi breytingartillögu:
"Fulltrúar Byggðalistans leggja til að haldnir verði vinnufundir sveitarstjórnar þar sem fjallað er um fjárhags- og framkvæmdaáætlun komandi árs á ári hverju. Þar er varðandi fjárhagsramma, fyrri umræðu, seinni umræðu og framkvæmdaáætlun.
Við teljum það mikilvægt að allir sveitarstjórnarfulltrúar hafi jafnan grundvöll til að rýna og koma áherslum á framfæri í vinnu við gerð fjárhags- og framkvæmdaáætlunar og séu þar af
leiðandi eins vel upplýstir og kostur er þegar greiða á atkvæði um áætlunina. Sveinn Þ. Finster Úlfarsson og Jóhanna Ey Harðardóttir."

Forseti bar tillögu byggðarlistans upp til atkvæðagreiðslu. Tillagan er samþykkt með níu atkvæðum.

Forseti gerir tillögu um að vísa fjárhagsáætlun 2025-2028 til nefnda og síðari umræðu í sveitarstjórn. Samþykkt með níu atkvæðum.

Byggðarráð Skagafjarðar - 120. fundur - 06.11.2024

Hjörvar Halldórsson, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs Skagafjarðar, sat fund byggðarráðs undir þessum lið.

Framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir fjárhagsáætlun 2025-2028 tekin til umræðu byggðarráðs.

Byggðarráð Skagafjarðar - 121. fundur - 11.11.2024

Mál áður á dagskrá 120. fundar byggðarráðs þann 6. nóvember sl. Umræðu um framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir fjárhagsáætlun 2025-2028 haldið áfram.

Byggðarráð Skagafjarðar - 122. fundur - 18.11.2024

Hjörvar Halldórsson, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum lið.

Mál síðast á dagskrá 121. fundar byggðarráðs þann 11. nóvember sl.

Umræðu um framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir fjárhagsáætlun 2025-2028 haldið áfram.

Byggðarráð Skagafjarðar - 123. fundur - 22.11.2024

Undir þessum lið sátu Bryndís Lilja Hallsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs og Hjörvar Halldórsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs.

Á fundinum var lögð fram áætlun um viðhald fasteigna, stærri fjárfestingar og nýframkvæmdir á vegum sveitarfélagsins og fyrirtækja þess. Listinn eins og hann er lagður fyrir, er niðurstaða umræðna síðustu þriggja funda byggðarráðs og vinnufunda sveitarstjórnar 29. október og 20. nóvember sl. Áætlunin er hluti fjárhagsáætlunar Skagafjarðar fyrir árið 2025.

Lögð fram fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2025, ásamt þriggja ára áætlun 2025-2028, til síðari umræðu.

Byggðarráð samþykkir með tveimur atkvæðum fjárhagsáætlunina og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar. Jóhanna Ey, fulltrúi Byggðalistans situr hjá.

Sveitarstjórn Skagafjarðar - 32. fundur - 27.11.2024

Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri kynnti fjárhagsáætlun.

Fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2025 er hér lögð fram til síðari umræðu ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2026-2028.

Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóða. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf., Flokka ehf. og Eyvindarstaðarheiði ehf, auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð sveitarfélagsins, þ.e. Norðurá bs. og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Fjárhagsáætlunin sýnir rekstraráætlun, sjóðsstreymi og áætlaðan efnahagsreikning fyrir sveitarfélagið Skagafjörð, stofnanir þess og hlutdeildarfélög.

Forsendur fjárhagsáætlunar Skagafjarðar 2025 og áætlunar fyrir árin 2026-2028 byggja meðal annars á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands varðandi verðlags- og launaþróun næstu ára.

Áætlun ársins 2025 gerir ráð fyrir að rekstrartekjur Skagafjarðar nemi 9.959 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B hluta, þar af eru rekstrartekjur A-hluta áætlaðar 8.472 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 8.890 m.kr., þ.a. A-hluti 7.796 m.kr. Rekstrarafgangur A- og B-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er áætlaður 1.409 m.kr, afskriftir nema 340 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 275 m.kr. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætluð jákvæð, samtals með 794 m.kr. í rekstrarafgang.

Rekstrarafgangur A-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er 858 m.kr, afskriftir nema 182 m.kr., fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 184 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 492 m.kr.

Eignir Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2025, 16.029 m.kr., þ.a. eignir A-hluta 12.011 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 10.431 m.kr., þ.a. hjá A-hluta 9.141 m.kr. Eigið fé er áætlað 5.598 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall því 34,93%. Eigið fé A-hluta er áætlað 2.870 m.kr. og eiginfjárhlutfall 23,89%.

Ný lántaka er áætluð 550 m.kr. hjá samstæðunni í heild og afborganir eldri lána og skuldbindinga verða 628 m.kr. Skuldir verða því greiddar niður um 78 m.kr. umfram lántöku á árinu 2025.

Reiknaðar lífeyrisskuldbindingar eru 2.052 m.kr. hjá samstæðunni, þar af 1.886 m.kr. hjá A-hluta. Skuldahlutfall samstæðunnar er áætlað 104,7% á árinu 2025 og skuldaviðmið 78,8%.

Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 819 m.kr., og veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 1.301 m.kr. Þá er gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 754 m.kr. hjá samstæðunni í heild.

Gísli Sigurðsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram bókun fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, svohljóðandi:
"Fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árin 2025 til 2028 liggur nú fyrir, en með henni er mörkuð stefna um fjárheimildir sviða og stofnana sveitarfélagsins til næstu fjögurra ára, ásamt því að stefna er mörkuð um getu sveitarfélagsins til fjárfestinga, viðhalds og niðurgreiðslu skulda.
Niðurstaðan er virkilega ánægjuleg en ljóst er að vinna síðustu ára um hagræðingu í rekstri og ábyrga stefnu í fjárfestingum er að skila sér. Hún mun á næstu árum auka enn frekar möguleika sveitarfélagsins til enn frekari lækkunar á skuldum og meiri uppbyggingar og fjárfestinga fyrir eigið fé.
Mikil vinna hefur verið lögð í gerð áætlunarinnar með aðkomu allra kjörinna fulltrúa og sveitarstjóra, sviðsstjóra og fjármálastjóra sveitarfélagsins, en ljóst er að sú breyting að hefja þessa vinnu fyrr á árinu en áður hefur verið gert hafði jákvæð áhrif á framgang vinnunnar. Samhliða fjárhagsáætlunarvinnu var einnig unnið með KPMG að uppsetningu mælaborðs til að fylgjast ennþá betur með lykiltölum í rekstri og markmiðasetningu lykiltalna, en þau markmið voru samþykkt samhljóða af öllum sveitarstjórnafulltrúum fyrr á þessum fundi.
Á árinu 2025 er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur A - hluta verði jákvæðum um 492 m.kr. og sameiginlegur rekstrarafgangur samstæðunnar í heild verði 794 m.kr
Á árinu 2025 er gert ráð fyrir að fjárfestingar í nýframkvæmdum á vegum Skagafjarðar verði í heild um 1,5 milljarður. Þar af er áætlað að 1.191 m.kr. komi frá rekstri sveitarfélagsins, 441 m.kr fáist með sölu fasteigna og að hlutur ríkissjóðs í sameiginlegum verkefnum og samfélagssjóður KS verði um 304 m.kr. Þá er gert ráð fyrir að viðhaldsframkvæmdir nemi 161 m.kr. á árinu 2025.
Þar má telja stækkun Sauðárkrókshafnar, stækkun verknámshúss FNV og áframhaldandi undirbúningsvinnu við Menningarhús á Sauðárkróki. Önnur stór fjárfestingarverkefni sveitarfélagsins verða verklok uppbyggingar Sundlaugar Sauðárkróks, kláruð nýbygging leikskóla í Varmahlíð og áframhaldandi endurbætur á skólahúsnæði á Sauðárkróki og á Hofsósi, ásamt mörgu fleira.
Þrátt fyrir miklar fjárfestingar á árinu 2025 þá er gert ráð fyrir að afborganir lána verði 78 m.kr umfram nýjar lántökur sem þýðir bæði lækkun á skuldaviðmiði A-hluta og samstæðunnar í heild.
Í annað skiptið er einnig lækkuð álagningarprósenta fasteignaskatts íbúðarhúsa sem er virkilega jákvætt eftir miklar fasteignamatshækkanir undanfarinna ára. Það er markmið okkar að ná fram meiri lækkun fasteignagjalda og betra jafnvægi þeirrar gjaldtöku við fasteignarmatið í samvinnu við stjórnvöld, en til að svo megi verða þarf Alþingi að breyta lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. En betra jafnvægi í gjaldtökunni óháð framlögum ríkisins til lögbundinna verkefna eru einhver mestu lífskjaramál sem hægt er að vinna að fyrir Skagfirðinga.
Fjárhagsáætlun 2025 til 2028 er unnin á ábyrgð meirihluta sveitarstjórnar, en í samvinnu allra flokka í nefndum og ráðum sveitarfélagsins þar sem bæði kjörnum fulltrúum og starfsmönnum hefur gefist kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og fyrir alla þá vinnu ber að þakka. Einnig viljum við þakka sérstaklega sveitarstjóra, sviðsstjórum og fjármálastjóra fyrir þeirra góða framlag í þessari vinnu.
Við óskum íbúum Skagafjarðar allra heilla með þeirri áætlun sem hér er lögð fram. Ljóst er að Skagfirðingar geta horft fram á við með jákvæðni og bjartsýni í fjölskylduvænu samfélagi."

Þá kvaddi Sveinn Þ. Finster Úlfarsson sér hljóðs og lagði fram bókun fulltrúa Byggðalistans svohljóðandi:
"Vinna við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2025 hófst mun fyrr en verið hefur og teljum við það verklag hafi reynst vel, kjörnum fulltrúum og starfsfólki gafst rýmri tími til að ræða, rýna og yfirfara áætlunina. Við fögnum breyttu verklagi og teljum það til batnaðar.
Í víðfemu fjölkjarna sveitarfélagi er mikilvægt að missa ekki sjónar af uppbyggingu grunnstoða samfélags og að jafna búsetuskilyrði íbúa um allan fjörð eins og kostur er.
Nú í haust var ákveðið að auka um eina ferð á viku í frístundastrætó en undanfarin ár hefur frístundastrætó fyrir börn í grunnskóla Austan vatna og Varmahlíð aðeins verið í boði á föstudögum, nú í haust hefur frístundastrætó einnig verið í boði á þriðjudögum aðra leið og vitum við ekki betur en að hann hefur verið nokkuð vel sóttur af börnum sem kjósa að stunda íþróttir með knattspyrnu og körfuboltadeild Tindastóls. Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun hvort frístundastrætó á þriðjudögum muni halda áfram eftir áramót. Fulltrúum Byggðalistans þykir miður að ekki sé unnið að því að jafna tækifæri barna til tómstundaiðkunar með meiri festu því að raunin er sú að ekki öll börn í Skagafirði búa að því að hafa íþróttahús í sínu nærumhverfi. Að því sögðu er nú nauðsynlegt að nefna að nú á árinu var grunnskólinn austan vatna sameinaður í einn skóla með þeim forsendum að stefnan væri að byggja upp öfluga skólaeiningu á Hofsósi með grunninnviðum í takt við þarfir og kröfur nútímans. Við fulltrúar Byggðalistans teljum mikilvægt að sveitarstjórn sýni það í verki og setji uppbyggingu skóla- og íþrótta byggingu á Hofsósi í meiri forgang en nú hefur verið gert og okkur þykir miður að sjá ekki íþróttahús á Hofsósi á framkvæmdalista fjárhagsáætlunar Skagafjarðar fyrir árið 2025.
Fræðslunefnd bókaði þann 15. október síðastliðin eftirfarandi ,,Nefndin leggur til við byggðarráð að skoðun verði flýtt á kostum þess að stækka yngra stig Ársala og finna staðsetningu nýs leikskóla til lengri framtíðar þar sem ljóst er að núverandi fjöldi plássa er ekki nægur til framtíðar svo börn geti fengið leikskólapláss í fyrstu aðlögun eftir að þau verða 12 mánaða.? Fulltrúar Byggðalistans hafa ætíð talað fyrir því að fjöldi leikskólarýma séu í takt við húsnæðisáætlanir. Í nútíma samfélagi er daggæsla barna forsenda fyrir blómlegu atvinnulífi, því hvetjum við til þess að settur verði meiri þungi í framkvæmdir við leikskólahúsnæði á Sauðárkróki og hægt verði að bjóða foreldrum daggæslu rými að loknu barneignaorlofi. Það hefur því miður ekki verið raunin að fjölgun leikskólarýma hér í Skagafirði séu í takt við uppbyggingu og úthlutun lóða. Við teljum mikilvægt að framkvæmdir við uppbyggingu leikskólarýma fái forgang fram yfir byggingu á nýju menningarhúsi á Sauðárkróki, við höfum fengið að sjá það skýrt síðastliðinn mánuð hér á Skagafirði hvað leikskólar spila stórt hlutverk í nútíma samfélagi.
Við fulltrúar Byggðalistans erum hugsi yfir sofandi hætti þegar kemur að málefnum fráveitu og teljum að það þurfi að taka fráveitumál af meiri skipulagi og endurnýja stærri hluta í einu í stað þess að vera í bráðabirgðaviðgerðum. Ljóst er að mikil viðhalds skuld er búin að byggjast upp varðandi fráveitu í Skagafirði og þykir okkur leitt að sjá ekki meiri fyrirhyggjusemi í fráveitumálum Skagafjarðar.
Að lokum viljum við þakka samstarfsfólki í nefndum og sveitarstjórn, sveitarstjóra og starfsfólki sveitarfélagsins sem og íbúum fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða."

Þá kvaddi Álfhildur Leifsdóttir sér hljóðs og lagði fram bókun fulltrúa VG og óháðra svohljóðandi:
"Fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árin 2025-2028 sýnir almennt jákvæða rekstrarniðurstöðu, sem bendir til stöðugs fjárhagslegs ástands sveitarfélagsins. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 819 m.kr., og veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 1.301 m.kr. Þá er gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 754 m.kr. hjá samstæðunni í heild.
Skuldahlutfall samstæðunnar er áætlað 104,7% á árinu 2025 og skuldaviðmið 78,8%. Þrátt fyrir að reksturinn þokist í rétta átt er mikilvægt að huga að nokkrum þáttum.

Mikilvægt er að fjárhagsáætlanir endurspegli sterka samfélagslega ábyrgð, jafnrétti og sjálfbærni í rekstri sveitarfélaga. Framlög til félagsþjónustu aukast aðeins um 3,13%, sem er ófullnægjandi í ljósi aukinna þarfa í samfélaginu, sérstaklega meðal þeirra sem glíma við félagslega og fjárhagslega erfiðleika í því erfiða fjárhagslega umhverfi sem hefur verið undanfarið. Það er nauðsynlegt að fjárhagsáætlunin sýni skýrari forgangsröðun til að mæta þessum áskorunum.

Þrátt fyrir umræðu um loftslagsmál og náttúruvernd er ekki ljóst að umhverfismál njóti nægilegrar forgangsröðunar hjá sveitarfélaginu. Aðeins 1,24% aukning í þessum málaflokki er langt frá því sem við teljum nauðsynlegt til að styðja við grænar lausnir og verkefni sem bæta kolefnisspor sveitarfélagsins.

Fjárhagsáætlunin sýnir ójafnvægi milli stærsta byggðakjarnans og dreifbýlis hvað varðar framlög til innviða og þjónustu. Við minnum á að jafnræði í aðgengi að þjónustu er grundvallaratriði fyrir sjálfbæra byggðastefnu og jafnrétti til búsetu í samfélaginu. Þar getum bent á við lögboðin verkefni eins og mat til eldri borgara óháð búsetu. Vonandi kemst það verkefni loks til framkvæmda í einhverri mynd á komandi ári, mikill hægagangur er í því verkefni virðist vera. Svo er greinilegt að hringrásarhagkerfið er í fullri notkun því það lítur út fyrir að sum kosningaloforð verði endurnýtt eins og íþróttahús á Hofsósi. Reyndar er hefð fyrir því.
Sveitarfélagið ætti að beita þrýstingi ásamt öðrum sveitarfélögum og sambandi íslenskra sveitarfélaga um að virðisaukaskattur verði endurgreiddur til þeirra á lögboðnum verkefnum. Það myndi breyta miklu því slík endurgreiðsla á síðastliðnu ári hefði numið 12 milljörðum sem hægt hefði verið að nýta til að styrkja innviði, auka þjónustu eða greiða niður skuldir. 15 milljarðar ef leikskólar væru einnig lögboðnir eins og við myndum vija sjá. Einnig er mikilvægt að fjárfesta í umhverfisvænum lausnum, eins og orkusparandi tækni, er hægt að draga úr rekstrarkostnaði til lengri tíma litið. Tryggja þarf að tryggja að starfsfólk í grunnþjónustu, eins og í skólum og félagsþjónustu, fái sanngjörn laun og betri starfsaðstæður.

Við þökkum sveitarstjóra, starfsmönnum sveitarfélagsins ásamt nefndarmönnum öllum vel unnin störf við gerð þessarar fjárhagsáætlunar og fögnum því að vinnan hafi hafist fyrr en vant sem almenn ánægja virðist vera með. Það verður einnig fagnaðarefni að fá aðgang að mælaborði yfir verkefni og kostnað sveitarfélagsins til að fylgjast enn betur með í rauntíma, enda hefur það ekki alltaf verið auðvelt fyrir sveitarstjórnarfulltrúa að fá ákveðnar upplýsingar um rekstur sveitarfélagsins, því miður. Áfram þarf þó að halda rétt á málum og forgangsraða með hagsmuni íbúa að leiðarljósi, lágmarka álögur sem lenda á þeirra herðum og gera um leið sveitarfélagið að góðum búsetukosti til framtíðar."

Þá kvöddu Einar E. Einarsson og Jóhanna Ey Harðardóttir sér hljóðs

Fjárhagsáætlun Skagafjarðar 2025 ásamt þrjggja ára áætlun fyrir árin 2026-2028 borin upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með 7 atkvæðum.
Jóhanna Ey Harðardóttir og Sveinn Þ Finster Úlfarsson fulltrúar Byggðalista óska bókað að þau sitja hjá.