Fara í efni

Fræðslunefnd

27. fundur 08. maí 2024 kl. 16:15 - 18:15 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Kristófer Már Maronsson formaður
  • Hrund Pétursdóttir varaform.
  • Steinunn Rósa Guðmundsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir varam.
    Aðalmaður: Agnar Halldór Gunnarsson
Starfsmenn
  • Bryndís Lilja Hallsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
  • Ragnar Helgason sérfræðingur á fjölskyldusviði
  • Steinunn Ragnheiður Arnljótsdóttir skólastjóri leikskóla
  • Rakel Kemp Guðnadóttir starfsmaður fjölskyldusviðs
Fundargerð ritaði: Ragnar Helgason Sérfræðingur á fjölskyldusviði
Dagskrá

1.Hljóðvist í skólum; Umboðsmaður barna

Málsnúmer 2403163Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd barst á síðasta fundi sínum áskorun frá Umboðsmanni barna um að huga að hljóðvist í leik- og grunnskólum. Góð hljóðvist í skólaumhverfi barna eykur gæði náms, bætir námsárangur, einbeitingu, félagslega- og andlega líðan barna og starfsfólks og hefur jákvæð áhrif á skólastarf almennt. Fræðslunefnd beinir því til byggðarráðs að á næstu misserum verði gerð úttekt á hljóðvist og lýsingu í skólum Skagafjarðar ásamt því að úttektaraðili geri tillögu að úrbótum þar sem þörf er á. Fræðslunefnd óskar eftir því að fá kynningu á úttektinni þegar henni er lokið.

2.Sumarleyfi í leikskólanum Ársölum

Málsnúmer 2303056Vakta málsnúmer

Lagðar fram niðurstöður könnunar sem foreldrar barna í Ársölum svöruðu varðandi sumarleyfi barna sinna. Mjög ójöfn skipting er á sumarleyfistímum barna í sumar og verða rúmlega 30 börn af 190 í leikskólanum frá 15. júlí - 9. ágúst , þar af 5 börn á yngra stigi. Ekki er forsvaranlegt að hafa yngra stig opið þegar svo fá börn eru skráð og hefur því sú ákvörðun verið tekin í samráði við sviðsstjóra fjölskyldusviðs að bjóða foreldrum þessara 5 barna annaðhvort að færa sumarfrí barnanna eða mæta með börnin á yngri deildir eldra stigs þetta tímabil. Búið er að ræða við foreldra og finna farsæla lausn. Í seinna fríi verða tvær deildir opnar, á annarri þeirra verða 1-3 ára börn og á hinni verða 3-6 ára börn.

Erfiðlega hefur gengið að ráða inn starfsfólk í sumarafleysingar og vantar enn starfsfólk til þess að hægt sé að hafa leikskólann opinn í sumar. Til að leysa áskoranir sumarsins er lögð á borðið tillaga að lausn frá leikskólastjóra Ársala sem felur í sér að starfsfólk fresti töku vinnustyttingu í sumar fram að jólum og þess í stað verði leikskólinn Ársalir lokaður 23., 27. og 30. desember til þess að taka út vinnustyttingu sumarsins. Starfsfólk leikskólans hefur tekið jákvætt í þá tillögu.

Fræðslunefnd samþykkir tillögu leikskólastjóra samhljóða með þeim fyrirvara að skoða þarf lausnir fyrir börn foreldra sem starfa í framlínustörfum (t.d. heilbrigðisþjónusta, löggæsla o.s.frv.) og geta ekki verið frá vinnu þessa daga. Fræðslunefnd felur sviðsstjóra í samráði við leikskólastjóra að kanna í upphafi skólaárs hversu margir foreldrar gætu mögulega verið í þeirri stöðu umrædda daga og leggja til farsæla lausn ef þörf er á því.

3.Yfirlit reksturs málaflokks 04 á fyrsta ársfjórðungi 2024

Málsnúmer 2404164Vakta málsnúmer

Yfirlit yfir rekstur málaflokks 04, fræðslu- og skólaþjónusta á fyrsta ársfjórðungi 2024 lagt fram til kynningar.

4.Skóladagatöl leikskóla 2024-2025

Málsnúmer 2404107Vakta málsnúmer

Tillaga að skóladagatölum leikskólanna í Skagafirði fyrir skólaárið 2024-2025 lögð fram. Tillagan hefur fengið staðfestingu foreldraráða leikskólanna. Tröllaborg óskar eftir að nýta tvo starfsdaga til námsferðar í lok apríl 2025 og óskar jafnframt eftir því að bæta við starfsdegi vegna ferðarinnar.

Ársalir óska eftir því að hafa lokað á milli jóla og nýárs líkt og fram kom í máli nr. 2303056 Sumarleyfi í leikskólanum Ársölum og taka starfsmenn þess í stað ekki út vinnustyttingu í sumar. Er þetta gert til þess að leysa mönnunarvanda í sumar. Fræðslunefnd staðfestir skóladagatöl leikskólanna samhljóða fyrir skólaárið 2024-2025.

5.Skóladagatöl grunnskóla 2024-2025

Málsnúmer 2404108Vakta málsnúmer

Tillaga að skóladagatölum Grunnskólans austan Vatna og Varmahlíðarskóla fyrir skólaárið 2024-2025 lögð fram. Tillagan hefur fengið staðfestingu skólaráðanna. Tillaga að skóladagatali Árskóla fyrir skólaárið 2024-2025 lögð fram en verður tekin fyrir á fundi skólaráðs Árskóla síðar í vikunni. Fræðslunefnd staðfestir skóladagatölin samhljóða fyrir skólaárið 2024-2025 með fyrirvara um samþykki skólaráðs Árskóla á sínu skóladagatali.

6.Kennslukvóti 2024-2025

Málsnúmer 2404173Vakta málsnúmer

Tillaga að úthlutun kennslukvóta til grunnskólanna í Skagafirði fyrir skólaárið 2024-2025 var lögð fram. Tillagan er unnin í samstarfi við stjórnendur og tekur mið af mörgum þáttum svo sem nemendafjölda, fjölda nemenda með annað móðurmál en íslensku, samsetningu nemendahópa o.fl. Fræðslunefnd samþykkir tillöguna samhljóða.

7.Öryggismyndavélar

Málsnúmer 2209351Vakta málsnúmer

Öryggismyndavélar hafa verið settar upp við Árskóla. Upplýsingaskilti eru tilbúin og er nú unnið að því að finna þeim staðsetningu og verða þau sett upp fljótlega. Samkvæmt verklagsreglum Skagafjarðar um rafræna vöktun þá verða foreldrar, starfsmenn og nemendur upplýstir um þegar vöktun hefst.

8.Fundargerðir skólaráðs Varmahlíðarskóla 2023-24

Málsnúmer 2402152Vakta málsnúmer

Fundargerð skólaráðs Varmahlíðarskóla frá 22. apríl 2024 lögð fram til kynningar.

9.Fundargerðir skólaráðs Árskóla 2023-24

Málsnúmer 2310247Vakta málsnúmer

Fundargerð skólaráðs Árskóla frá 10. apríl 2024 lögð fram til kynningar.

10.Frístund fyrir 3. og 4. bekk

Málsnúmer 2309228Vakta málsnúmer

VG og óháð ásamt Byggðalista settu fram tillögu sem var lögð fyrir á félagsmála- og tómstundanefndarfundi þann 31. ágúst 2023 og var tillögunni vísað til fræðslunefndar. Tillagan var tekin fyrir á fræðslunefndarfundi þann 5. september 2023 og samþykkt. Þar var lagt til að stafsmönnum nefndarinnar yrði falið að skoða möguleika á nýtingu húsnæðis Árskóla fyrir frístund 3. og 4. bekkjar. Þessi tillaga var síðan samþykkt samhljóða á sveitarstjórnarfundi þann 13. september 2023. Niðurstöður könnunar starfsmanna hafa hvorki verið teknar fyrir né bókaðar. Þar sem þessar niðurstöður tengjast óhjákvæmilega félagsmála- og tómstundanefnd, þar sem frístund fyrir 3.-4. bekk er nú starfrækt í Húsi frítímans óska VG og óháð eftir því að sú vinna sem fram hefur farið við þessa tillögu og niðurstöður verði kynntar félagsmála- og tómstundanefnd og bókaðar svo hægt sé að huga að framkvæmd eða öðrum lausnum.

Fræðslunefnd samþykkir samhljóða að senda út könnun til foreldra barna í 3.-4. bekk Árskóla um nýtingu frístundar í Húsi frítímans og hug þeirra til mögulegra breytinga á fyrirkomulaginu og leggja fyrir fræðslunefnd til kynningar og umræðu um næstu skref. Niðurstöður könnunar og minnisblað verða í framhaldi sendar félagsmála- og tómstundanefnd til kynningar.

Fundi slitið - kl. 18:15.