Fara í efni

Fræðslunefnd

2. fundur 30. júní 2022 kl. 16:30 - 17:30 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Regína Valdimarsdóttir formaður
  • Hrund Pétursdóttir varaform.
  • Agnar Halldór Gunnarsson áheyrnarftr.
  • Tinna Kristín Stefánsdóttir varam.
Starfsmenn
  • Herdís Á. Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
  • Selma Barðdal Reynisdóttir fræðslustjóri
  • Erla Hrund Þórarinsdóttir sérfræðingur á fjölskyldusviði
  • Jóhanna Sveinbjörg Traustadóttir skólastjóri leikskóla
  • Hólmfríður Dröfn Guðmundsdóttir áheyrnarftr. grunnsk.kennara
  • Sandra Hilmarsdóttir áheyrnarftr. foreldra leiksk.barna
Fundargerð ritaði: Erla Hrund Þórarinsdóttir Sérfræðingur á fjölskyldusviði
Dagskrá

1.Mönnun og biðlisti á leikskólanum Ársölum

Málsnúmer 2206309Vakta málsnúmer

Það er kunnara en frá þurfi að segja að afar erfiðlega hefur gengið að ráða fólk til starfa hjá Skagafirði s.l. misseri. Erfiðleikar þessir eru raunar ekki bara bundnir við sveitarfélagið heldur virðist sem svo að víða vanti fólk til starfa bæði hjá hinu opinbera sem og á einkamarkaði. Ástæður þessarar manneklu eru sennilega margþættar, en ekki verður horft framhjá því höggi sem atvinnulífið varð fyrir af völdum Covid-19 þegar þúsundir vinnandi fólks hvarf af íslenskum vinnumarkaði, ekki síst í ferðaþjónustu. Þegar mannaflafrekar atvinnugreinar fóru af stað aftur eftir heimsfaraldurinn, er ljóst að þörf fyrir aukinn mannafla er mikil í öllum atvinnugreinum, ekki síst þjónustugreinum. Þessi staða hefur komið einkar illa við þá miklu þjónustu sem sveitarfélagið veitir, svo sem í félagsþjónustu, málefnum fatlaðs fólks, málefnum eldri borgara og leik- og grunnskólum. Skagafjörður hefur reynt að bregðast við þessari stöðu með ýmsum hætti í þeirri viðleitni að laða starfsfólk að leikskólum þar sem mannekla hefur verið mjög mikil, t.d. með aukinni vinnustyttingu umfram kjarasamning, stuðningi við starfsfólk í leikskólakennaranámi, forgangi barna starfsmanna að leikskóladvöl, foreldragreiðslum o.fl. Á undanförnum vikum hefur fræðslunefnd og starfsfólk fræðsluþjónustu unnið að enn frekari tillögum til að laða starfsfólk að leikskólum, sérstaklega á Sauðárkróki, þar sem vandinn er mestur. Nú liggja fyrir eftirfarandi tillögur sem nefndin er sammála um að hrinda í framkvæmd:

1. Afsláttur af gjöldum. Veittur verði 50% afsláttur af dvalargjöldum barna starfsmanna leikskólanna sem eru í 50% starfshlutfalli eða meira.

2. Undirbúningstímar leikskólaliða og ófaglærðra. Undirbúningstímar starfsmanna með leikskólaliðamenntun verði tveir tímar á viku og jafnframt er lagt til að ófaglærðir starfsmenn, sem starfað hafa í leikskólanum í þrjú ár eða lengur, fái einn tíma á viku. Undirbúningstímar miðast við starfshlutfall.

3. Aukinn stuðningur við leikskólana vegna náms starfsmanna. Til viðbótar þeim stuðningi sem nú þegar gilda reglur um, þ.e. vegna náms í leikskólakennarafræðum, er lagt til að tilsvarandi stuðningur nái einnig til starfsmanna sem stunda nám á öðrum sviðum kennarafræða, sem og til leikskólaliðanáms. Leikskólanum er einnig heimilt að meta hvort stuðningur vegna náms á öðrum sviðum en kennarasviðum komi til álita. Stuðningur þessi kæmi til framkvæmda sem aukin stöðugildi vegna afleysinga í námslotum. Úthlutun námsleyfa fer að öðru leyti eftir reglum fyrir starfsmenn leikskóla vegna styrkja til náms í leikskólakennarafræðum.

4. Stjórnun og námsaðlögun. Með opnun nýrra deilda og fjölgun barna við leikskólann Ársali eykst þörf fyrir almenna stjórnun og námsaðlögun (sérkennslu). Lagt er til að ráðinn verði aðstoðarleikskólastjóri í 50% starf til viðbótar 100% starfi aðstoðarleikskólastjórastöðu sem nú er. Þá verði starf deildarstjóra námsaðlögunar aukið úr 50% í 100% starfshlutfall. Þá er einnig lagt til að stöðugildi í eldhúsi verði aukin.

5. Reglubundinni mannauðsráðgjöf og handleiðslu verður komið á til handa stjórnendum og starfsmönnum.

6. Innleiðing á stefnu og viðbrögðum vegna veikinda og endurkomu til vinnu svo unnt sé að bregðast við og styðja starfsfólk með viðeigandi hætti.

Samhliða þessu verður unnið að frekari útfærslum annarra aðgerða sem til skoðunar hafa verið til að bæta starfsumhverfi leikskólanna og styðja við starfsfólks þeirra.

Kostnaður vegna ofangreindra tillagna eru rétt um 30 milljónir króna á ársgrunni en um 10 milljónir króna frá september til desember.

Aðgerðir þessar eru tímabundnar til reynslu frá 1. september 2022 til 31. ágúst 2023 og verða rýndar og endurskoðaðar reglulega með tillit til árangurs og í samráði við starfsfólk.

Fræðslunefnd samþykkir framangreindar tillögur og vísar þeim til byggðarráðs vegna gerðar viðauka.

Fundi slitið - kl. 17:30.