Fara í efni

Félags- og tómstundanefnd Svf. Skagafjarðar

54. fundur 11. janúar 2005
 
Ár 2005, þriðjudaginn 11. janúar kl. 15.00, var haldinn fundur í Félags- og tómstunda­nefnd í Ráðhúsi Skagafjarðar.
Mættir: Ásdís Guðmundsdóttir, Harpa Kristinsdóttir og Þórdís Friðbjörnsdóttir. Af hálfu starfsmanna: María Björk Ingvadóttir, Rúnar Vífilsson og Gunnar M. Sandholt, sem ritaði fundargerð.
 
Dagskrá:
  1. Málefni íþróttaskólans
  2. Leigusamningur við Ljósheima vegna félagsstarfs aldraðra
  3. Fjárveiting til verkefnisins “Nálgumst í íþróttum”
  4. Styrkur til tilraunaverkefnis um íþróttir eldri borgara
  5. Húsaleigubætur og námsmenn í sveitarfélaginu
  6. Reglur um úthlutun auglýstra styrkja til íþróttamála
  7. Þrekæfingaaðstaða í íþróttahúsum
  8. Leigumál vegna skrifstofu UMFT
  9. Skipulag íþróttamannvirkja á Sauðárkróki
  10. 3gja ára áætlun
  11. Önnur mál

Afgreiðslur:
  1. Félags- og tómstundanefnd hefur hug á að láta gera úttekt á málefnum íþróttaskólans með það að markmiði að starfsemi sem sveitarfélagið styrkir eða stendur fyrir geti fallið að samræmdri heildarsýn.
    Nefndin óskar eftir að forsvarsmenn íþróttaskólans mæti á næsta fund til umræðna um hvernig best sé að standa að slíkri úttekt.
    Nefndin óskar einnig eftir viðræðum við fræðslu- og menningarnefnd um samsvarandi úttekt á frístundastarfinu í skólunum með sama markmiði.
 
  1. Samþykkt og vísað til Byggðarráðs tillögu um samning við Félagsheimilið Ljósheima um afnot húsnæðis fyrir félagsstarf eldri borgara. Leiguupphæð er 800.000 kr. Samningurinn er að öðru leyti samhljóða samningi ársins 2003.
 
  1. Æskulýðs- og tómstundafulltrúi gerir grein fyrir áætlun tilraunaverkefnisins “Nálgumst í íþróttum” (Inclusion through sport) sem hlotið hefur 800.000 kr. styrk frá Evrópusambandinu.
    Félags- og tómstundanefnd samþykkir áætlunina og að fénu verði varið með þeim hætti sem lagt er til. Jafnframt staðfestir nefndin og færir til bókar ákvörðun sína frá 17. desember s.l. um að verja 400.000 kr. af styrkveitingum ársins 2004 til verkefnisins, sem verður þá samtals 1.200.000 kr.
 
  1. Félags- og tómstundanefnd staðfestir- og færir til bókar ákvörðun frá 17. desember s.l. um að veita 100.000 kr. styrk til átaksverkefnis í samvinnu við stjórn Félags eldri borgara til eflingar líkamsrækt eldri borgara.
 
  1. Lögð fram greinargerð sviðsstjóra um réttleysi þeirra námsmanna til húsaleigubóta sem búa á heimavist innan lögheimilissveitarfélags síns.  Veldur þetta ákvæði mismunun einstaklinga sem búa annars við sambærilegar aðstæður og vinnur gegn markmiðum um sameiningu sveitarfélaga. Félags- og tómstundanefnd leggur til að sveitarstjórn beini þeim tilmælum til félagsmálaráðherra að hann hlutist til um að þessi mál verði lagfærð sem fyrst.
 
  1. Á undanförnum árum hefur félags- og tómstundanefnd úthlutað styrkjum til einstakra íþróttafélaga. Það sem lagt hefur verið áhersla á af hálfu nefndarinnar er barna- og unglingastarf, menntun leiðbeinenda, umfang íþróttaæfinga og fjöldi þeirra sem stundar æfingar og greiðir félags- og æfingagjöld til félaganna. Hinsvegar hafa ekki verið fastar reglur um þessa úthlutun. Eðlilegt er að íþróttahreyfingin taki þátt í samningu slíkra reglna og jafnvel verði skoðað hvort úthlutunin fari fram gegnum aðalstjórn UMSS. Nefndin óskar eftir að UMSS komi að samningu reglna um úthlutun íþróttastyrkja. Að verkinu komi fulltrúar úr aðalstjórn UMSS ásamt fræðslu- og íþróttafulltrúa.
 
  1. Opnuð hefur verið fullkomin líkamsræktarstöð á Sauðárkróki. Til samræmis við tilmæli Samkeppnisstofnunar telur félags- og tómstundanefnd ekki rétt að sveitarfélagið standi í samkeppni á þessum markaði. Nefndin ákveður að hætta að selja einstaklingum eða hópum aðgang að þreksal íþróttahússins. Þreksalurinn er hér eftir einungis til afnota fyrir eldri flokka íþróttafélaganna, skólana og félagsmiðstöðina Frið. Þeim hópum, sem greitt hafa fram í tímann fyrir aðgang að þreksalnum, verður þó heimilt að ljúka yfirstandandi tímabili, sem rennur út á vormánuðum.
 
  1. Sveitarfélagið hefur séð UMFT fyrir skrifstofuaðstöðu á undanförnum árum í íþróttahúsinu Sauðárkróki. Með vaxandi tækjakosti hússins og vegna notkunar þess til fjölbreytilegrar menningarstarfsemi er ljóst að brýn þörf er fyrir aukið geymslupláss ef ýmis tæki eiga ekki að liggja undir skemmdum.
    Nefndin hefur því farið þess á leit við UMFT að skrifstofur félagsins verði rýmdar og hefur aðalstjórnin tekið því vel enda styðji sveitarfélagið áfram við félagið að þessu leyti. Nú stefnir í að UMSS, fulltrúi UMFÍ á Sauðárkróki og UMFT geti leigt aðstöðu sem er sameiginleg að hluta. Nefndin ákveður að veita UMFT 25.000 kr húsnæðisstyrk á mánuði vegna þessa.
    Jafnframt er samþykkt að sýningarskápar fyrir bikarasafn verði staðsettir í anddyri íþróttahússins.
 
  1. Málið rætt.
 
  1. Málið rætt.
 
  1. Önnur mál.
    a) Félags- og tómstundanefnd fagnar því að UMFÍ hafi flutt hluta starfsemi sinnar til Sauðárkróks.