Fara í efni

Félags- og tómstundanefnd Svf. Skagafjarðar

35. fundur 08. mars 2004

Félags- og tómstundanefnd Skagafjarðar
Fundur 35 –  08.03.2004

 
 
            Ár 2004, mánudag 8. mars kl. 15:30, var haldinn fundur í Félags- og tómstunda­nefnd í Ráðhúsi Skagafjarðar.
            Mættir voru:  Ásdís Guðmundsdóttir, Harpa Kristinsdóttir og Þórdís Friðbjörns­dóttir, en af hálfu starfsmanna Gunnar Sandholt og Rúnar Vífilsson.
           
dagskrá:
1.      Rekstur íþróttamannvirkja
 
afgreiðsla:
 
Félags- og tómstundanefnd hefur á nokkrum fundum fjallað ítarlega um framtíðarrekstur og skipulag íþróttamannvirkja á Sauðárkróki. Nýr og gjörbreyttur íþróttaleikvangur allra Skagfirðinga kallar á að rekstur sé í traustum farvegi og nýting hans markviss og fjölbreytt. Nefndin hefur einnig kynnt sér rekstur annarra íþróttamannvirkja og telur tímabært að hugað sé að leiðum til að ná fram aukinni hagkvæmni í samvinnu við þá sem nýta íþróttamannvirkin, einkum íþróttafélög og skóla.
 
Nefndin samþykkir eftirfarandi og vísar til byggðarráðs til staðfestingar:
1)      Íþróttaleikvangur á Sauðárkróki.
a) Ráðinn verði vallarstjóri í allt að 6 mánuði á ári.
b) Stofnað verði fimm manna vallarráð vallarstjóra til ráðuneytis um stjórnun leikvangsins, tveimur frá sveitarfélaginu en þremur frá íþróttahreyfingunni
c) Gerður verði samningur við Golfklúbb Sauðárkróks um slátt, áburðagjöf o.fl. á leikvanginum.

Greinargerð:
a)  Til að tryggja hagkvæmni og samfellda starfsemi eins og frekast er unnt verði leitað samninga við Skíðadeild Tindastóls um að vallarstjóri verði jafnframt forstöðumaður skíðasvæðisins. Rök nefndarinnar fyrir þessu fyrirkomulagi eru að þannig skapist eitt ársverk og  stöðugleiki í starfsmannahaldi sem er lykilatriði þegar um miklar fjárupphæðir er að ræða.

b) Vallarráðinu verði sett erindisbréf þar sem hlutverk þess, ábyrgð og aðkoma að starfseminni verði skýrð nánar. Rök nefndarinnar fyrir þessari skipan er að tryggja sanngjarna og markvissa aðkomu allra hagsmunaaðila/notenda að ákvörðunum um notkun leikvangsins. Meginhlutverk ráðsins verður að tryggja upplýsingaflæði milli þeirra sem nýta svæðið og rekstraraðilanna, að tryggja góða nýtingu og sanngjarna úthlutun tíma og vera til ráðuneytis um góðan rekstur.
Eitt af mikilvægum verkefnum sem eðlilegt er að ráðið hafi á sinni könnu er skipulag auglýsinga og skipting tekna af þeim. Félags- og tómstundanefnd telur eðlilegt að íþróttafélögin í Skagafirði njóti sjálf þeirra tekna sem þau geta aflað með auglýsingum en mikilvægt er að ráðið tryggi sanngjarnt skipulag þessara mála.
Lagt er til að ráðið verði skipað fimm mönnum, tveimur frá sveitarfélaginu, -  íþróttafulltrúa og vallarstjóra, en þremur frá íþróttahreyfingunni sem hefur mestra hagsmuna að gæta: - einum frá knattspyrnudeild UMFT, einum frá frjálsíþróttadeild UMFT og einum tilnefndum af  stjórn UMSS en hann er þá fulltrúi annarra íþróttafélaga og deilda.

Íþróttafulltrúi er sérstakur eftirlitsaðili f.h. félags- og tómstundanefndar sveitarfélagsins.
 c) Golfklúbbur Sauðárkróks hefur þá tæknikunnáttu og þekkingu sem þarf til hirðu grasvallanna. Til þeirra verka þarf einnig sérhæfðar vélar og tæki. Mikil hagkvæmni er fyrir sveitarfélagið að aðrir á svæðinu geta gert hlutina betur og hafa til þess margra ára þekkingu og reynslu. Til þess að ná fram enn frekari stöðugleika í starfsmannahaldi er eðlilegt að sveitarfélagið stuðli að samningi milli Golfklúbbs Sauðárkróks og skíðadeildar Tindastóls um að vallarstjóri golfvallarins verði jafnframt starfsmaður skíðasvæðisins yfir veturinn.          Nefndinni er kunnugt um að þessir aðilar eru jákvæðir gagnvart hugmyndinni.
 
2)      Íþróttahúsið á Sauðárkróki
a)       Nefndin leggur til að leitað verði samninga við íþróttahreyfinguna um rekstur íþróttahússins á Sauðárkróki.
 
Greinargerð:  Nefndin hefur kynnt sér rekstrarform íþróttamannvirkja í öðrum sveitarfélögum. Það form sem hér er lagt til þykir hafa gefist vel og er sífellt að ryðja sér meira til rúms. Kostirnir virðast vera aukinn sveigjanleiki og aukin ábyrgð íþróttahreyfingarinnar á eigin málum. Gert er ráð fyrir skilgreiningu á afnotum skólans á húsnæðinu. Reikna má með að hagræðing náist sem felst í því að skólinn beri ábyrgð á starfseminni í húsinu á skólatíma.
Gert er ráð fyrir að samningur verði innan núverandi rekstraramma, að hagræðingaráhrif verði sýnileg.
Ef af samningum verður þarf að huga sérstaklega að stöðu núverandi starfsmanna.
 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl 16:45.