Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

454. fundur 20. nóvember 2008 kl. 10:00 - 12:20 í Ráðhúsi, Skr.
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Fjárhagsáætlun 2009

Málsnúmer 0809004Vakta málsnúmer

Farið yfir vinnugögn vegna fjárhagsáætlunar 2009.

2.Póstafgreiðsla í Varmahlíð

Málsnúmer 0805031Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Reykhólahreppi varðandi skerta póstþjónustu í smærri og dreifbyggðum sveitarfélögum. Er þess farið á leit hvort Sveitarfélagið Skagafjörður vilji taka þátt með sveitarfélögum sem verða fyrir þjónustuskerðingu af hendi Íslandspósts hf að lögsækja fyrirtækið.

Byggðaráð afgreiddi málefni póstafgreiðslunnar á fundi sínum 4. september 2008 með eftirfarandi hætti:

?Sveitarstjóri gerði grein fyrir fundi hans og sveitarstjórnarkvenna með forstjóra Íslandspósts um lokun póstafgreiðslu fyrirtækisins í Varmahlíð. Byggðarráð ítrekar mótmæli við ákvörðun Íslandspósts um lokun póstafgreiðslu í Varmahlíð. Varmahlíð er einn af byggðakjörnum Skagafjarðar með um 140 íbúum og nokkrum fyrirtækjum. Þjónustusvæði póstagreiðslunnar í Varmahlíð er hinsvegar mun stærra en þéttbýlið sjálft því hundruð manna og tugir fyrirtækja búa og starfa í næsta nágrenni. Þá hefur Varmahlíð verið vaxandi ferðamannastaður og áætlanir um mikla uppbyggingu á því sviði. Ekki má gleyma því að Íslandspóstur er ríkisfyrirtæki í almannaþjónustu og yfirlýst stefna ríkisvaldsins að fjölga störfum á landsbyggðinni en ekki fækka. Lokun póstafgreiðslunnar í Varmahlíð þýðir fækkun opinberra starfa í Skagafirði. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar leggst alfarið gegn því að póstafgreiðslunni í Varmahlíð verði lokað?

Gíslí Árnason leggur fram svohljóðandi tillögu: "Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að taka þátt í lögfræðikostnaði með þeim sveitarfélögum sem hafa orðið fyrir eða verða fyrir skerðingu á póstþjónustu."

Ekki liggur fyrir lögfræðiálit sem kallar á breytingu á fyrri ákvörðun byggðarráðs. Byggðarráð telur því ekki forsendur til að leggja út í þann kostnað sem málshöfðun hefði í för með sér. Þá liggur fyrir staðfesting Póst og fjarskiptastofnunar þar sem lokun afgreiðslunnar er heimiluð. Byggðarráð hafnar því tillögu Gísla Árnasonar.

3.Verklagsreglur um kennaraíbúðir

Málsnúmer 0811048Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að verklagsreglum um kennara- og skólastjóraíbúðir sveitarfélagsins sem staðsettar eru á Hofsósi og í Varmahlíð.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að sjá til þess að leiðrétta drögin til samræmis við það sem rætt var á fundinum.

4.Byggðastofnun - fyrirhugaðar breytingar

Málsnúmer 0811065Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá iðnaðarráðuneytinu varðandi fyrirhugaðar breytingar á Byggðastofnun.
Byggðarráð lýsir þungum áhyggjum af fyrirhuguðum breytingum og felur sveitarstjóra að óska eftir fundi með iðnaðarráðherra í næstu viku.
Gísli Árnason óskar bókað:"Fyrirliggjandi hugmyndir starfsmanna iðnaðarráðuneytisins um að skerða starfsemi Byggðastofnunar og leggja niður þróunarsvið hennar er köld vatnsgusa framan í íbúa landsbyggðarinnar sem sannarlega þurfa nú á öðru að halda frá ráðuneyti byggðamála. Byggðastofnun hefur gegnt lykilhlutverki í atvinnuþróunarstarfi á landsbyggðinni og leitt alþjóðlegt samstarf í byggðamálum fyrir Íslands hönd. Þá hefur stofnunin haft mikilsverðu hlutverki að gegna í stuðningi við atvinnulíf á landsbyggðinni með lánastarfsemi sinni. Starfsemi stofnunarinnar hefur verið farsæl á undanförnum misserum og starfsfólk skilað góðu starfi. Aldrei hefur verið mikilvægara að efla starfsemi Byggðastofnunar og færa henni aukið hlutverk en einmitt núna.

Hugmyndir starfsmanna iðnaðarráðuneytisins ganga út á að færa umsýslu byggðamála aftur til Reykjavíkur inn í ráðuneytið og til Nýsköpunarmiðstöðvar, sem þar hefur höfuðstöðvar sínar. Ef slíkt næði fram að ganga felur það í sér algera stefnubreytingu af hálfu stjórnvalda sem áður höfðu markað sér þá stefnu að utanumhald á byggðaþróunarstarfi væri á landsbyggðinni og miðstöð þess starfs á Sauðárkróki.

Fagnað er boði iðnaðarráðuneytisins um viðræður við sveitarfélagið um flutning starfa í sveitarfélagið, sem tengjast ferðamálum og Hagstofu Íslands. Áður hefur verið tekin ákvörðun um að Nýsköpunarmiðstöð hafi starfsmenn á Sauðárkróki. Ekki er þó með nokkrum hætti hægt að tengja slíkar viðræður framkomnum hugmyndum um skerðingu á starfsemi Byggðastofnunar. Hér er um allsendis óskyld mál að ræða og öllum má ljóst vera að ósæmilegt væri að stilla hlutunum upp með öðrum hætti."

5.Tekjujöfnunarframlag 2008

Málsnúmer 0811051Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga varðandi áætlað tekjujöfnunarframlag 2008, samtals kr. 44.716.605.

6.Aukaframlag úr jöfnunarsjóði 2008

Málsnúmer 0811050Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga varðandi áætlað aukaframlag 2008, samtals kr. 113.307.526.

7.Samkomulag við Launan. sveitarfél. um kjarasamningsumboð

Málsnúmer 0811002Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar samkomulag um fullnaðarumboð til Launanefndar sveitarfélaga til kjarasamningsgerðar fyrir hönd Sveitarfélagsins Skagafjarðar við Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga.

Fundi slitið - kl. 12:20.