Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

712. fundur 08. október 2015 kl. 09:00 - 11:23 í Ráðhúsi, Skr.
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Sigríður Svavarsdóttir varaform.
  • Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir aðalm.
  • Bjarni Jónsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Ásta Björg Pálmadótttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Eigendastefna fyrir þjóðlendur - verkefnislýsing

Málsnúmer 1509317Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá forsætisráðuneytinu dagsett 23. september 2015 varðandi verkefnislýsingu eigendastefnu fyrir þjóðlendur. Forsætisráðuneytið telur mikilvægt að fyrir liggi skýr stefna um það hvernig ríkið rækir landeigenda- og umsýsluhlutverk sitt á þjóðlendum samkvæmt lögum nr. 58/1998 og hefur því ákveðið að vinna drög að eigendastefnu fyrir þjóðlendur. Óskað er ábendinga um verkefnislýsinguna.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að óska eftir lengri umsagnarfresti og fara yfir málið með skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins.

2.Hættumat vegna skriðufalla og snjóflóða

Málsnúmer 1211151Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 4. fundar hættumatsnefndar Skagafjarðar frá 4. maí 2015. Á fundinum var gerð grein fyrir endurskoðaðri tillögu Veðurstofu Íslands fyrir Sauðárkrók. Samþykkt var að kynna endurskoðaða tillögu Veðurstofu Íslands sem tillögu nefndarinnar og hafa kynningu fyrir opnu húsi fyrir almenning. Í tillögunni er snjóflóðahætta undir Nöfunum talin vera yfir ásættanlegum mörkum, en ekki er talin vera hætta á stórfelldum skriðuföllum eða hruni. Hættusvæði A er dregið undir öllum Nöfunum og hættusvæði B á litlu svæði í Kristjánsklauf. Stefnt er að halda kynningarfund 12. nóvember n.k.

3.Ósk um land á leigu á Nöfunum

Málsnúmer 1412088Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Þórarni Hlöðverssyni, kt. 141163-5669, dagsett 11. ágúst 2015, þar sem hann óskar eftir því að taka á leigu landskika á Nöfum, þ.e. Lóð 25 á Nöfum og Lóð 27 á Nöfum, til að nytja tún og hús undir sauðfé.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til umsagnar Fjáreigendafélags Sauðárkróks.

4.Umsókn um að fá leigt ræktunarland á Nöfum

Málsnúmer 1508004Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Sigurbirni Pálssyni, kt. 260347-7219, móttekið 31. júlí 2015, þar sem hann ítrekar fyrri umsóknir um að fá leigt ræktunarland á Nöfum til að halda sauðfé og hugsanlega nokkur hross.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til umsagnar Fjáreigendafélags Sauðárkróks.

5.Sala íbúða 2015

Málsnúmer 1509109Vakta málsnúmer

Rætt um sölu á húsnæði sem er í eigu sveitarfélagsins.
Byggðarráð samþykkir að stefnt verði að fækkun íbúða í eigu sveitarfélagsins næstu árin og þær seldar eftir því sem markaðsaðstæður leyfa.

6.Varmahlíðarskóli - staða húsnæðismála

Málsnúmer 1411114Vakta málsnúmer

Farið yfir stöðu leikskólamála í Varmahlíð. Unnið er að heppilegri lausn til að fjölga leikskólaplássum í ljósi þess að eina dagforeldrið á svæðinu hefur ákveðið að láta af störfum um næstu mánaðamót.

7.Fjárhagsáætlun 2016

Málsnúmer 1507090Vakta málsnúmer

Lögð fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2016.
Byggðarráð samþykkir framlagða fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

8.Þriggja ára áætlun 2017-2019

Málsnúmer 1507091Vakta málsnúmer

Lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2017-2019.
Byggðarráð samþykkir framlagða fjárhagsáætlun fyrir árin 2017-2019 og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

9.Tillaga að ályktun byggðaráðs vegna samninga um afnám tolla á innfluttar landbúnaðarafurðir

Málsnúmer 1510036Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi tillaga að ályktun frá Bjarna Jónssyni (VG og óháðum):

Ekki verði gengið lengra í afnámi tolla á innfluttar landbúnaðarafurðir án fyrirliggjandi úttektar á áhrifum á íslenska landbúnaðarframleiðslu og án þess að gerður hafi verið nýr búvörusamningur til lengri tíma.

Matvælaframleiðsla er ein meginstoð byggðar í Skagafirði. Héraðið er eitt sterkasta mjólkur- og kjötframleiðslusvæði landsins. Margvíslegur þjónustuiðnaður hefur byggst upp í kringum matvælaiðnaðinn. Ferðaþjónusta og matarmenning eru miklvægar greinar í örri þróun. Þessar greinar skipta sköpum fyrir búsetu og afkomu íbúa héraðsins.

Fréttir af nýgerðum milliríkjasamningi milli Íslands og Evrópusambandsins (ESB) um viðskipti með búvörur og niðurfelling tolla vekja því upp ugg um framtíðarhorfur landbúnaðar og matvælaiðnaðar í Skagafirði. Afnám tolla í þeim mæli sem samningarnir gera ráð fyrir geta haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér fyrir innlendan landbúnað og matvælavinnslu. Samningurinn við ESB virðist gerður án samráðs og í algjörri andstöðu við gildandi samninga um starfskilyrði greinarinnar sem og stefnu stjórnvalda um matvælaframleiðslu á Íslandi. Stjórnvöld virðast einnig hafa vanrækt að gera fyrirfram heildræna úttekt á áhrifum samningsins á vöruframboð, þróun og samkeppnisstöðu einstakra búgreina til lengri tíma. Atvinnuöryggi og störf fjölda fólks er sett í uppnám sem og rekstur afurðastöðva og fyrirtækja í matvælavinnslu og iðnaði.

Áður en lengra er haldið þarf að meta áhrif á afurðaverð til bænda, líklega þróun á markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu og tekjuleg áhrif að teknu tillit til áhrifa aukins markaðsaðgangs. Störf og afkoma fjölda fólks, bænda og starfsfólks í úrvinnslugreinum er í húfi.

Byggðaráð skorar því á þingmenn að taka málið upp og staðfesta ekki slíka samninga nú án þess að gengið hafi verið frá nýjum samningum um starfsskilyrði landbúnaðarins til lengri tíma. Núverandi búvörusamningur rennur út í lok næsta árs. Fyrirkomulag tolla hefur verið hluti slíkra samninga og því eðlilegt að ákvarðanir um breytingar á þeim séu teknar samhliða gerð nýrra langtímasamninga um starfskilyrði landbúnaðar og matvælavinnslu í landinu.

Tillagan borin upp og felld með þremur atkvæðum.

Stefán Vagn Stefánsson, Sigríður Svavarsdóttir og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir leggja fram eftirfarandi bókun:

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hvetur stjórnvöld til að hraða gerð búvörusamninga eins og kostur er, sér í lagi vegna tilkomu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Byggðarráð telur mikilvægt að samningarnir verði gerðir samhliða og gildistími þeirra verði til jafn langs tíma og fagnar yfirlýsingum ráðherra og þingmanna kjördæmisins þess efnis.

Bjarni Jónsson óskar bókað:
Undirrituðum þykir miður að byggðarráð treystir sér ekki til að standa með beinskeyttari og afdráttarlausari hætti með skagfirskum bændum og þeim sem starfa í úrvinnslu landbúnaðarafurða og matvælavinnslu í Skagfirði.

Stefán Vagn Stefánsson, Sigríður Svavarsdóttir og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir óska bókað:
Erfitt er að meta áhrif samningsins á hagsmuni skagfirskra bænda og þeirra sem vinna við afleidd störf án þess að nýr búvörusamningur liggi fyrir og því mikilvægt að hann verði kláraður sem fyrst.

10.Tillaga um mat á áhrifum mögulegra niðurfellinga tolla á landbúnað og úrvinnslu landbúnaðarvara í Skagafirði

Málsnúmer 1510035Vakta málsnúmer

Eftirfarandi tillaga lögð fram af Bjarna Jónssyni (VG og óháðum):

Lagt er til að Sveitarfélagið Skagafjörður standi fyrir úttekt á fjölda starfa í landbúnaði á svæðinu ásamt úrvinnslufyrirtækjum í mjólk og kjötvinnslu, afleiddum þjónustugreinum og mögulegum áhrifum nýrra samninga við Evrópusambandið um niðurfellingu tolla á erlendar landbúnaðarafurðir á fjölda starfa, veltu og afkomu í landbúnaði, matvælavinnslu og matvælagerð. Afnám tolla í þeim mæli sem samningarnir gera ráð fyrir geta haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér fyrir landbúnað og matvælavinnslu í Skagafirði og því mikilvægt að fyrir liggi mat á áhrifum svo mikilla breytinga á afkomu fjölda fólks og Skagfirskt samfélag.

Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til meðferðar hjá atvinnu-, menningar og kynningarnefnd. Mælst er til þess að nefndin athugi með liðsinni Byggðastofnunar að vinna slíka greiningu.

11.Rætur bs. undanþága frá íbúafjölda þjónustusvæða - upplýsingar

Málsnúmer 1510009Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar afrit af bréfi velferðarráðuneytis til Róta bs., dagsett 30. september 2015 varðandi undanþágu frá íbúafjölda þjónustusvæða í málaflokki fatlaðs fólks. Fram kemur í bréfinu að ráðuneytið hefur fallist á erindi Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar og heimilað þeim að stofna sérstakt þjónustusvæði, tímabundið í eitt ár frá 1. janúar 2016. Brotthvarf Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar úr byggðasamlaginu Rótum hefur það í för með sér að byggðasamlagið uppfyllir ekki lengur ákvæði um lágmarksíbúafjölda þjónustusvæða. Fram kemur einnig að velferðarráðherra fellst á að Rætur bs. starfi tímabundið sem sérstakt þjónustusvæði í Skagafirði og Húnavatnssýslum í eitt ár, frá og með 1. janúar 2016 að telja.

12.Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum - aðalfundur 2015

Málsnúmer 1509131Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð aðalfundar Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, frá 25. september 2015.

13.Aðalfundur fulltrúaráðs 23. sept Reykjavík

Málsnúmer 1506081Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 16. aðalfundar fulltrúaráðs Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands frá 23. september 2015.

Fundi slitið - kl. 11:23.