Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

692. fundur 09. apríl 2015 kl. 09:00 - 10:45 í Ráðhúsi, Skr.
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Sigríður Svavarsdóttir varaform.
  • Bjarni Jónsson aðalm.
  • Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Ásta Björg Pálmadótttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga 2015

Málsnúmer 1503296Vakta málsnúmer

Lagt fram fundarboð dagsett 30. mars 2015, um aðafund Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. vegna ársins 2014, föstudaginn 17. apríl 2015 í Salnum í Kópavogi. Vakin er athygli á að allir sveitarstjórnarmenn eiga rétt á að sækja aðalfundinn. Einnig er auglýst eftir framboðum í stjórn sjóðsins. Framboðum skal skilað í síðasta lagi á hádegi föstudaginn 10. apríl 2015.
Byggðarráð samþykkir að sveitarstjóri fari með atkvæðisrétt fyrir hönd sveitarfélagsins.

2.Stapi - lífeyrissjóður, ársfundur 2015

Málsnúmer 1503278Vakta málsnúmer

Lagt fram fundarboð dagsett 25. mars 2015, um ársfund Stapa - lífeyrissjóðs, miðvikudaginn 29. apríl 2015 í Menningarhúsinu Hofi, Akureyri.
Byggðarráð samþykkir að sveitarstjóri fari með atkvæðisrétt fyrir hönd sveitarfélagsins.

3.Beiðni um fund með sveitarstjórnarmönnum

Málsnúmer 1503246Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá 25. mars 2015, þar sem Bjarni Stefánsson, sýslumaður á Norðurlandi vestra óskar ásamt Páli Björnssyni, lögreglustjóra á Norðurlandi vestra, eftir að að fá að hitta sveitarstjórn og kynna helstu breytingar og áhersluatriði við aðskilnað verkefna sýslumanna- og lögreglustjóraembættanna og landfræðilega sameiningu þeirra á Norðurlandi vestra.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að finna hentugan tíma til þess að halda fundinn.

4.Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga

Málsnúmer 1503217Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, dagsett 18. mars 2015 þar sem nefndin óskar eftir upplýsingum frá sveitarstjórn um stefnumótun hennar í rekstri A-hluta, mikilvægi þess að bæta neikvæðan rekstur A-hluta þannig að hann skili jákvæðri rekstrarniðurstöðu, hugsanlegar aðgerðir sveitarstjórnar sem væru til þess valdandi að ná markmiðum um jákvæða rekstrarniðurstöðu og aðrar upplýsingar sem sveitarstjórn vill koma á framfæri í tengslum við fyrirspurn þessa. Fjárhagsáætlun 2015-2018 sýnir neikvæða rekstrarniðurstöðu í A-hluta öll árin en rekstrarniðurstaða A og B hluta er aftur á móti jákvæð öll árin. Skuldaviðmið er áætlað að verði undir lögbundnu viðmiði öll árin. Sveitarfélagið uppfyllir jafnvægisreglu 64. gr. sveitarstjórnarlaga framangreind ár.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra og sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að hefja grunnvinnu við verkefnið.

5.Fuglastígur á Norðurlandi vestra

Málsnúmer 1411076Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Selasetri Íslands og Ferðamálafélagi Norðurlands vestra, dagsett 3. mars 2015 varðandi sókn fuglatengdrar ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Búið er að skrifa skýrslu um þá staði sem taldir eru best til þess fallnir að kynna sem áhugaverða fuglaskoðunarstaði. Áætlanir gera ráð fyrir því að útbúa kort sem sýnir þessa staði. Óskað er eftir því við sveitarfélagið að það veiti leyfi sem landeigandi, að auglýsa megi eftirtalda staði; Tjarnartjörn, tjarnir við Alexandersflugvöll og Drangey. Áður á dagskrá 689. fundar byggðarráðs, 12. mars 2015 og þá frestað.
Byggðarráð samþykkir að veita leyfi fyrir því að framangreindir staðir verði auglýstir og felur sveitarstjóra að undrrita samninga þar um.

6.Fundur um þjóðlendur 22. maí 2015

Málsnúmer 1503279Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá forsætisráðuneytinu, dagsett 25. mars 2015 varðandi fund um málefni þjóðlendna.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að upplýsa sveitarstjórnarmenn um fundinn.

7.Ráðgefandi hópur um aðgengismál

Málsnúmer 1411046Vakta málsnúmer

Erindið áður tekið fyrir á 677. fundi byggðarráðs, 6. nóvember 2014 og 691. fundi 26. mars 2015. Hópinn eiga að skipa tveir fulltrúar frá Sveitarfélaginu Skagafirði og einn fulltrúi frá Sjálfsbjörg og annar frá Þroskahjálp i Skagafirði.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að útbúa erindisbréf fyrir hópinn.

8.Tilnefning svæða í norrænni skipulagssamkeppni - Nordic Built Cities Challenge

Málsnúmer 1503247Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá Skipulagsstofnun, dagettur 25. mars 2015 um tilnefningu svæða í norræna skipulagssamkeppni, Nordic Built Cities Challenge. Samkeppnin er hluti áætlunar sem Norræni nýsköpunarsjóðurinn vinnur að á árabilinu 2015-2018 um sjálfbærni og nýsköpun í skipulagi norrænna bæja og borga. Markmið samkeppninnar er að styðja nýsköpun og þverfaglegar lausnir í norrænni skipulagsgerð og stuðla að sjálfbæru bæjarskipulagi.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til skipulags- og bygginganefndar til umræðu.

9.Umsókn um leyfi fyrir rallýkeppni 24.-25. júlí

Málsnúmer 1503319Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn frá Bílaklúbbi Skagafjarðar, dagsett 22. mars 2015, um leyfi til að halda rallýkeppni helgina 24. og 25. júlí 2015.
Eknar verða sérleiðirnar:
744 Þverárfjallsvegur, (gamli vegurinn að mestu), 742 Mýrarvegur frá Mánaskál að fjárrétt við Kirkjuskarð, F 752 Skagafjarðarvegur frá Litluhlíð að Þorljótsstöðum, F 756 Mælifellsvegur um Mælifellsdal, Sauðárkrókshöfn og Nafir.
Keppnin fer fram í samræmi við keppnisreglur LÍA um aksturskeppnir.
Byggðarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti svo fremi að öll önnur tilskilin leyfi fáist frá hlutaðeigandi aðilum og öllum reglum verði framfylgt.

10.Umsókn um leyfi fyrir sandspyrnukeppni 15. ágúst

Málsnúmer 1503320Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn frá Bílaklúbbi Skagafjarðar, dagsett 22. mars 2015, um leyfi til að halda sandspyrnukeppni 15. ágúst 2015. Keppnin fer fram í landi Garðs, nánar tiltekið á Garðssandi þar sem keppni fór fram árið 2013.
Byggðarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti svo fremi að öll önnur tilskilin leyfi fáist frá hlutaðeigandi aðilum, öllum reglum verði framfylgt og öryggis gætt í hvívetna.

11.Viðauki 3 við fjárhagsáætlun 2015 - sameiginlegir liðir

Málsnúmer 1504041Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga um viðauka nr. 3 við fjárhagsáætlun ársins 2015 vegna málaflokks 21890-Ýmsir styrkir og framlög. Lagt er til að útgjaldaliður hækki um 3.000.000 kr. og handbært fé lækkað um sömu fjárhæð.
Byggðarráð samþykkir framangreindan viðauka.

12.Trúnaðarbók

Málsnúmer 1504040Vakta málsnúmer

Sjá trúnaðarbók.

13.Viðauki 4 við fjárhagsáætlun 2015 - Stytting sumarlokunar leikskóla.

Málsnúmer 1504042Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga um viðauka nr. 4 við fjárhagsáætlun ársins 2015 vegna málaflokks 04112-Ársalir. Lagt er til að útgjaldaliður launa hækki um 4.000.000 kr. og handbært fé lækkað um sömu fjárhæð.
Byggðarráð samþykkir framangreindan viðauka.

14.Sumarlokun leikskóla í Skagafirði 2015

Málsnúmer 1411251Vakta málsnúmer

Eftirfarandi bókun frá 102. fundi fræðslunefndar þann 24. mars 2015 var vísað til byggðarráðs: "Lagt er til að leikskólinn Ársalir verði lokaður í tvær vikur í stað fjögurra eins og áður hafði verið ákveðið. Lokað verður frá 20. júlí til 31. júlí. Áætlaður kostnaður er tæpar fjórar milljónir króna. Fræðslunefnd samþykkir að leggja til við byggðarráð að veittar verði allt að kr. 4 milljónir vegna þessa."
Byggðarráð samþykkir að hækka fjárveitingu til Ársala um 4 milljónir króna vegna hækkunar launaútgjalda.

Bjarni Jónsson leggur fram eftirfarandi tillögu:
Byggðarráð beinir því til fræðslunefndar að kanna hvort ástæða sé til að stytta áætlaða sumarlokun í fleiri leikskólum sveitarfélagsins en Ársölum á Sauðárkróki.
Byggðarráð samþykkir tillöguna.

Fundi slitið - kl. 10:45.