Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

160. fundur 13. desember 2001
Byggðarráð  Skagafjarðar
Fundur 160 - 13.12.2001

Ár 2001, fimmtudaginn 13. desember, kom byggðarráð saman til fundar á skrifstofu Skagafjarðar kl. 1000.
  
         Mætt voru:  Snorri Styrkársson, Herdís Á. Sæmundardóttir, Elinborg Hilmarsdóttir, Gísli Gunnarsson og Ásdís Guðmundsdóttir auk sveitarstjóra Jóns Gauta Jónssonar.
DAGSKRÁ:
   1.      Fjárhagsáætlun 2002 – gjaldfærð og eignfærð fjárfesting
    2.      Drög að samningi við RARIK um Rafveitu Sauðárkróks
    3.      Húseignir Skagafjarðar ehf. – yfirfærsla eigna
    4.      Sala hlutabréfa í Steinullarverksmiðju
    5.      Erindi frá Hring – Atvinnuþróunarfélagi Skagafjarðar hf.
            v/könnun á iðnaðarlóðum.
    6.      Erindi frá skólastjóra Grunnskólans að Hólum
    7.      Frá Almannavarnarnefnd v/hættumats á Ljótsstöðum
    8.      Leigusamningur Kjöthlöðunnar að Laugabóli, Steinsstöðum
    9.      Erindi frá Launanefnd sveitarfélaga
    10.  Ósk um umsögn um stjórnsýslukærur v/úrskurðar Skipulagsstofnunar
            um mat á umhverfisáhrifum Villinganesvirkjunar
    11.  Staða langtímalána – innlendra og erlendra
    12.  Fundargerð Starfskjaranefndar frá 3. des. 2001
    13.  Fundargerð Kjaranefndar frá 28. nóv. 2001
    14.  Bréf frá Hermanni Jónssyni

AFGREIÐSLUR:
    1.               Sveitarstjóri fór yfir og kynnti fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2002, rekstur málaflokka auk lista yfir gjaldfærða og eignfærða fjárfestingu til forgangsröðunar.
    2.               Lögð fram drög að samningi um sölu á Rafveitu Sauðárkróks til RARIK.
Byggðarráð samþykkir samningsdrögin með þremur atkvæðum.  Gísli Gunnarsson og Ásdís Guðmundsdóttir óska bókað:  “Við tökum ekki þátt í atkvæðagreiðslu um þennan lið og vísum til fyrri bókana sjálfstæðismanna um sölu á Rafveitu Sauðárkróks.”
Samningurinn verður undirritaður mánudaginn 17. desember nk. og sveitarstjórnarfundur haldinn í kjölfarið til staðfestingar honum.

    3.               Sveitarstjóri kynnti stöðu mála um yfirfærslu eigna til Húseigna Skagafjarðar ehf.
Ásdís Guðmundsdóttir vék hér af fundi.
    4.               Rætt um sölu hlutabréfa sveitarfélagsins í Steinullarverksmiðjunni hf.
    5.               Lagt fram bréf frá Hring – Atvinnuþróunarfélagi Skagafjarðar hf., dagsett 30. nóvember 2001, þar sem óskað er eftir að sveitarfélagið verði aðili að samstarfssamningi um könnun á iðnaðarlóðum í Skagafirði ásamt Hring og Fjárfestingarstofunni Orkusvið.
Byggðarráð samþykkir að taka þátt í verkefninu.
    6.               Lagt fram bréf frá Jóhanni Bjarnasyni, skólastjóra Grunnskólans að Hólum, dagsett 6. desember 2001, varðandi framkvæmdir á skólalóð og umhverfi skólans.
Byggðarráð samþykkir að leggja fjárveitingu ársins 2001 vegna lóðaframkvæmda við grunnskólann inn á viðskiptareikning, til ráðstöfunar síðar.
    7.               Lagt fram afrit af bréfi Trausta Fjólmundssonar, dagsettu 26.11. 2001 til Almannavarnarnefndar um ofanflóðahættu við Ljótsstaði í Skagafirði.
Byggðarráð samþykkir að óska eftir því að Ofanflóðasjóður taki þetta mál til skoðunar.
    8.               Erindi frá Kjöthlöðunni sf. sem tekið var fyrir á fundi byggðarráðs 18. apríl og 26. september sl. varðandi ósk um lausn undan leigusamningi um Laugaból 14, Steinsstöðum.
Byggðarráð samþykkir að leysa Kjöthlöðuna sf. undan leigusamningnum og taka yfir áhvílandi lán á fasteign sveitarfélagsins Laugabóli 14.
    9.               Lagt fram bréf frá Launanefnd sveitarfélaga, dagsett 5. desember 2001, varðandi launakjör skólastjóra grunnskóla.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að svara erindinu.
10.               Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneytinu, dagsett 6. desember 2001, þar sem óskað er eftir umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar um stjórnsýslukærur 16 aðila vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 24. október 2001 um mat á umhverfisáhrifum Villinganesvirkjunar í Skagafirði.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til umhverfis- og tækninefndar og vill jafnframt gera athugasemdir við umhverfisráðuneytið um þann stutta frest sem gefinn er til þess að svara þessum viðamiklu stjórnsýslukærum.
11.               Lagt fram til kynningar yfirlit yfir stöðu langtímalána – innlendra og erlendra.
12.               Lögð fram fundargerð Starfskjaranefndar frá 3. desember 2001.
Byggðarráð samþykkir fundargerðina.
13.               Lögð fram fundargerð Kjaranefndar Skagafjarðar frá 28. nóvember 2001.
Byggðarráð samþykkir fundargerðina.
14.               Lagt fram bréf frá Hermanni Jónssyni, dagsett 21. nóvember 2001 um sölu á landspildu úr jörðinni Lambanesi undir sumarbústaðalóð.
Byggðarráð gerir ekki athugasemd við söluna.
Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt, fundi slitið kl. 1210.