Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

143. fundur 25. júlí 2001

Byggðarráð Skagafjarðar 
Fundur  143 – 25.07.2001.

          Ár 2001, miðvikudaginn 25. júlí,  kom byggðarráð saman til fundar á skrifstofu Skagafjarðar kl. 1000.
            Mætt voru:  Snorri Styrkársson, Herdís Á. Sæmundardóttir, Elinborg Hilmarsdóttir, Gísli Gunnarsson og Ásdís Guðmundsdóttir,  auk sveitarstjóra Snorra Björns Sigurðssonar.
 DAGSKRÁ:
      1.      Villinganesvirkjun – Mat á umhverfisáætlun.
2.      Kjarasamningur við Kjarafélag Tæknifræðingafélag Íslands.
3.      Samkomulag við Ungmennafélagið Tindastól.
4.      Vínveitingaleyfi.
5.      Bréf frá Trausta Sveinssyni.
6.      Stjórnsýslukæra Trausta Sveinssonar.
7.      Kjaramál þroskaþjálfa og skólastjóra.
8.      Beiðni um námsvist og greiðslu námsvistargjalda.
9.      Starfslok sveitarstjóra.
10.  Skipun nefndar um félagslega íbúðakerfið.
11.  Skipan starfshóps byggðarráðs til að kanna sölu Rafveitu Sauðárkróks.
12.  Vinabæjamót í Kristianstad.

AFGREIÐSLUR:

1.      Lagt fram bréf frá Skipulagsstofnun, dagsett 25. júní 2001, þar sem óskað er eftir umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar um mat á umhverfisáhrifum Villinganesvirkjunar.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til umhverfis- og tækninefndar til umsagnar.

2.      Lagt fram til kynningar bréf frá Launanefnd sveitarfélaganna, dagsett 17. júlí 2001, þar sem tilkynnt er að kjarasamningur frá 20. júní sl., á milli Launanefndar sveitarfélaganna og Kjarafélags Tæknifræðingafélags Íslands hafi verið samþykktur.

 3.      Lagt fram samkomulag við Ungmennafélagið Tindastól um lausn á fjárhagsvanda þess.
Byggðarráð samþykkir ofangreint samkomulag með þremur atkvæðum.  Fulltrúar sjáfstæðisflokks óska bókað að þeir sitji hjá.
 4.      Lögð fram umsókn dagsett 19. júlí 2001 frá Skagfirsku eldhúsi ehf. um vínveitingaleyfi til tveggja ára fyrir skemmtistaðinn C’est La Vie.
 Byggðarráð samþykkir að fresta afgreiðslu málsins.

5.      Lögð fram bréf frá Trausta Sveinssyni til skólamálastjóra dagsett 8. mars 2001,  18. febrúar 2001 og 19. desember 2000 ásamt afritum af bréfum til Sigurjóns Péturssonar og skólafulltrúa Siglufjarðarkaupstaðar.  Auk þess svarbréf skólaskrifstofu Skagafjarðar dagsett 19. febrúar 2001 og 19. janúar 2001.  Varðar þetta umsókn um styrk vegna námsdvalar dóttur hans á Siglufirði.

Byggðarráð samþykkir að fresta afgreiðslu þessa máls.

6.      Stjórnsýslukærur Trausta Sveinssonar á hendur  Sveitarfélaginu Skagafirði.

 Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi drög sveitarstjóra að svari til Félagsmála-ráðuneytisins.

7.      Kjaramál þroskaþjálfa og skólastjóra.

Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra og félagsmálastjóra að segja upp fastri yfirvinnu hjá þroskaþjálfum í starfi hjá félagsþjónustu Skagafjarðar.  Tekur uppsögnin gildi frá og með næstu mánaðamótum.  Jafnframt verði þessum starfsmönnum boðið upp á nýja ráðningasamninga.
 Samningar við skólastjóra ræddir.

8.      Beiðni um námsvist og greiðslu námsvistargjalda.

 Byggðarráð samþykkir að fresta afgreiðslu þessa liðar.

9.      Starfslok sveitarstjóra.

Byggðarráð samþykkir með þremur atkvæðum að fela formanni byggðarráðs að ganga frá starfslokum Snorra Björns Sigurðssonar sveitarstjóra miðað við 1. ágúst nk.  Einnig að ráða Jón Gauta Jónsson viðskiptafræðing sem sveitarstjóra frá og með sama tíma.  Gísli Gunnarsson og Ásdís Guðmundsdóttir greiða atkvæði gegn þessu.
 10.  Tillaga um skipun nefndar um félagslega íbúðakerfið.
 Byggðarráð samþykkir að nefndina skipi Jón Karlsson, Einar Gíslason og Ásdís Guðmundsdóttir.
 11.  Lögð fram tillaga um skipun þriggja manna starfshóps úr byggðarráði til að kanna sölu Rafveitu Sauðárkróks.
 Ásdís Guðmundsdóttir óskar bókað að hún víki af fundi og taki ekki þátt í afgreiðslu þessa liðar.
Gísli Gunnarsson leggur fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjáfstæðisflokksins í sveitarstjórn Skagafjarðar telja það mistök, að vinna að sölu  Rafveitu Sauðárkróks.  Öflugt veitukerfi í eigu sveitarfélagsins er ein af forsendum þess að styrkja stöðu sveitarfélagsins til framtíðar. Þess vegna lögðu sjáfstæðismenn áherslu á það að sameina veiturnar þ.e. Hita- og Vatnsveitu Skagafjarðar og Rafveitu Sauðárkróks.  Við minnum á, að sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti slíka tillögu einróma þann 30. janúar síðastliðinn.  Við minnum á að verkefnishópur sem skipaður var fulltrúum allra flokka lagði til að sameina veiturnar í hlutafélag.   Lagt var til að slíkt félag greiddi eigendum sínum 370 milljónir króna, auk möguleika á sölu eigna.  Þetta hefði lækkað skuldir sveitarsjóðs um ríflega 400 milljónir króna.  Við minnum á að veitustjórn ákvað að vísa þessum niðurstöðum vinnuhópsins til byggðarráðs án athugasemda.  Tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins á byggðarráðsfundi 6. júlí sl. um það að fresta enn sameiningu veitna og skoða sölu á Rafveitunni, var því þvert á fyrri samþykktir. Við undrumst slík vinnubrögð, sem studd voru af fulltrúa S-listans, og munum ekki taka þátt í svo ábyrgðarlausum vinnubrögðum.  Við munum því ekki tilnefna fulltrúa í starfshóp sem á að kanna sölu á Rafveitu Sauðárkróks.  Einnig hlýtur að teljast óeðlilegt að stjórnarmaður í RARIK, greiði atkvæði varðandi sölu Rafveitunnar, eftir opinberlegar yfirlýsingar formanns byggðarráðs, að það sé „samstaða þessara flokka í byggðarráði um sölu á Rafveitunni#GL - og að „þar eru Rafmagnsveitur ríkisins líklegasti kaupandinn.#GL  Við teljum að þessi vinnubrögð muni ekki „styrkja tiltrú Skagfirðinga á möguleikum og getu hins nýja sameinaða sveitarfélags til verkefna framtíðarinnar,#GL svo vitnað sé í málefnasamning hins nýja meirihluta, sem kynntur var á seinasta sveitarstjórnarfundi.
 Herdís Á. Sæmundardóttir óskar bókað:
Varðandi þennan lið og bókun Gísla Gunnarssonar er efnislega vísað til tillögu Herdísar Á. Sæmundardóttur og Elinborgar Hilmarsdóttur og greinargerðar með henni sem lögð var fram í byggðarráði 6. júlí sl. og afgreidd í sveitarstjórn 17. júlí sl.  Þær rangfærslur og dylgjur sem að öðru leyti koma fram í bókun Gísla hljóta að dæma sig sjálfar.
Samþykkt með þremur atkvæðum að formaður og varaformaður skipi starfshóp til að kanna sölu á Rafveitu Sauðárkróks.
 Ásdís Guðmundsdóttir kemur aftur til fundar.

12.  Lögð fram tillaga um að forseti sveitarstjórnar sæki “forsetafund” í Kristianstad 31. ágúst nk.
Byggðarráð samþykkir með þremur atkvæðum að Herdís Á. Sæmundardóttir sæki fundinn sjái hún sér það fært.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu þessa liðar.
  Fleira ekki gert.   Fundargerð upplesin og samþykkt og fundi slitið kl. 1235.
                                                    Margeir Friðriksson, ritari