Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

78. fundur 04. janúar 2024 kl. 10:00 - 11:30 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.Ósk um fund

Málsnúmer 2311258Vakta málsnúmer

Til fundarins komu Bryndís Lilja Hallsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs Skagafjarðar og Þorvaldur Gröndal frístundastjóri Skagafjarðar til að ræða málefni sem snerta starfsemi knattspyrnudeildar Tindastóls og mögulegar úrlausnir hvað varðar t.a.m. umgjörð og aðstöðu iðkenda á gervigrasvelli og í íþróttahúsi.
Starfsmönnum er falið að vinna málið áfram með forsvarsmönnum knattspyrnudeildar og leggja fram minnisblað með tillögum til úrbóta.

2.Húsnæðisáætlun 2024 - Skagafjörður

Málsnúmer 2312179Vakta málsnúmer

Lögð fram húsnæðisáætlun 2024 fyrir Skagafjörð.
Byggðarráð samþykkir að vísa áætluninni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

3.Afskriftarbeiðnir 2023

Málsnúmer 2302168Vakta málsnúmer

Lögð fram afskriftarbeiðni nr. 202312151340489, dagsett 15. desember 2023, frá embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra, vegna fyrndra þing- og sveitarsjóðsgjalda. Heildarfjárhæð gjalda er 590.102 kr. með dráttarvöxtum.
Byggðarráð samþykkir að afskrifa kröfuna.

4.Endurnýjun girðingar við Mælifellskirkjugarð

Málsnúmer 2312187Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur, dags. 19. desember 2023, frá formanni sóknarnefndar Mælifellskirkju þar sem óskað er eftir framlagi til endurnýjunar girðingar á Mælifellskirkjugarði. Heildarkostnaðaráætlun framkvæmdarinnar hljóðar upp á kr. 14.437.384 og er stefnt að því að framkvæmdum verði lokið 7. júní 2025 en þá verður núverandi Mælifellskirkja 100 ára.
Samkvæmt gildandi viðmiðunarreglum Kirkjugarðaráðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 1. júlí 2015, ber kirkjugarðsstjórn að afhenda sveitarfélagi kostnaðaráætlun eigi síðar en í byrjun október árið áður en framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Í þeirri kostnaðaráætlun, skv. 6. grein viðmiðunarreglnanna, ber m.a. að tilgreina fyrirhugaðar framkvæmdir og verk, veita upplýsingar um magntölur og áætluð einingarverð, svo og hvernig kostnaður skiptist á milli sveitarfélags og kirkjugarðs. Einnig þarf að liggja fyrir skv. 8. grein hverjir samningar eru um efniskaup sem óskað er að ráðist sé í.
Byggðarráð telur að þessar upplýsingar liggi ekki fyrir og frestar afgreiðslu málsins. Byggðarráð felur jafnframt sveitarstjóra að kalla eftir ítarlegri upplýsingum skv. gildandi viðmiðunarreglum Kirkjugarðaráðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

5.Samráð; Sjávarútvegsstefna og frumvarp til laga um sjávarútveg

Málsnúmer 2311249Vakta málsnúmer

Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 245/2023, "Sjávarútvegsstefna og frumvarp til laga um sjávarútveg". Umsagnarfrestur er til og með 10.01. 2024.
Byggðarráð samþykkti á 73. fundi sínum 29. nóvember sl. að óska eftir skoðun smábátafélagsins Drangeyjar og FISK Seafood á áhrifum af drögum að frumvarpi til laga um sjávarútveg á fiskveiðar og fiskvinnslu í Skagafirði. Umsögn Drangeyjar hefur verið send inn í Samráðsgátt stjórnvalda en skv. upplýsingum frá FISK Seafood munu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi senda inn umsögn fyrir hönd sinna aðildarfyrirtækja.
Byggðarráð Skagafjarðar telur að ekki liggi nægjanlega ljóst fyrir hver áhrifin verða af aflagningu almenns byggðakvóta og rækjubóta, sem og hverjar afleiðingar þess geta orðið á sjávarbyggðir í Skagafirði. Rétt væri að fyrir lægi með skýrum hætti hvernig innviðastuðningi til sjávarbyggða verður háttað áður en núverandi kerfi er lagt af.
Byggðarráð lýsir sig jafnframt mótfallið þeirri fyrirætlan að hækka þak aflahlutdeildar hjá fyrirtækjum sem skráð eru á hlutabréfamarkað án þess að hækka jafnframt þak félaga eins og FISK Seafood sem er í 100% eigu Kaupfélags Skagfirðinga, samvinnufélags í dreifðri eign þúsunda Skagfirðinga. Vandséð er hvernig unnt er að finna dreifðara eignarhald heldur en hjá slíkum félögum. Um hróplega mismunun er að ræða sem erfitt er að rökstyðja og enn síður hægt að styðja.

6.Samráð; Endurmat á virkjunarkostum úr 3. áfanga rammaáætlunar - tillögur verkefnastjórnar

Málsnúmer 2312232Vakta málsnúmer

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 265/2023, "Endurmat á virkjunarkostum úr 3. áfanga rammaáætlunar - tillögur verkefnastjórnar". Umsagnarfrestur er til og með 15.03. 2024.

7.Íslenskur ungmennafulltrúi á Sveitarstjórnarþingi Evrópuráðsins 2024

Málsnúmer 2312144Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 15. desember 2023, þar sem vakin er athygli á að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur rétt á að tilnefna 3 fulltrúa frá Íslandi til til setu á sveitarstjórnarþingi Evrópuráðsins.
Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins stendur vörð um lýðræði og mannréttindi í sveitarfélögum og svæðum í aðilarríkjum ráðsins. Þingið kemur saman tvisvar á ári, í Evrópuráðshöllinni í Strasbourg, Frakklandi. Skilyrði til setu á þinginu er að umsækjendur séu á aldrinum 18-30 ára og virkir þátttakendur í starfi ungmenna, félagsmálum eða pólitísku starfi. Umsóknarfrestur er til 7. janúar 2024.

Fundi slitið - kl. 11:30.