Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

70. fundur 15. nóvember 2023 kl. 15:00 - 16:00 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.One Sign - Rafrænar undirritanir

Málsnúmer 2311056Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað, dagsett 7. nóvember 2023, þar sem farið er yfir rafrænar undirritanir sem til stendur að taka upp í skjalakerfi sveitarfélagsins OneSystems. Kaupa þarf viðbótareiningu OneSign sem mun nýtast starfsmönnum og nefndum til undirritunar á skjölum, teikningum og fundargerðum.
Sigfús Ólafur Guðmundsson kom til fundarins undir þessum dagskrárlið.
Byggðarráð samþykkir yfirfærslu í rafrænt undirritunarkerfi.

2.Sólskinsmælingar í Skagafirði

Málsnúmer 2311019Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá 69. fundar byggðarráðs þann 8. nóvember 2023. Magnús Jónsson veðurfræðingur óskar eftir styrk vegna kaupa og uppsetningu á sólskinsmæli sem áformað er að setja upp í Skagafirði. Rekstur tækjanna yrði í umsjá Veðurstofu Íslands.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands eru sólskinsstundamælingar einungis gerðar á fjórum stöðum á landinu í dag, í Reykjavík, á Akureyri, við Mývatn og á Höfn í Hornafirði. Þeir mælar voru kostaðir og eru reknir af Veðurstofu Íslands. Áform um frekari mælingar hafa verið reifaðar en ekki komist til framkvæmda vegna takmarkaðra fjárráða Veðurstofunnar.
Byggðarráð samþykkir að styrkja kaupin að upphæð kr. 300 þúsund gegn mótframlagi annarra aðila sem tilgreindir eru í styrkumsókn. Byggðarráð vísar erindinu til gerðar fjárhagsáætlunar 2024.

3.Hvítabjörn úr Fljótum

Málsnúmer 2311089Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur, dagsettur 9. nóvember 2023, frá forstöðumanni Náttúrustofu Norðurlands vestra með beiðni um að fá lánaðan hvítabjörn sem felldur var í Fljótunum 1986. Hugmyndin er að hafa hann til sýnis í salnum í húsakynnum Náttúrustofu Norðurlands vestra á Sauðárkróki.
Byggðarráð fagnar frumkvæðinu og samþykkir lán fyrir sitt leyti. Byggðarráð felur sveitarstjóra að gera samning þar að lútandi við Náttúrustofu.

4.Opnað fyrir umsóknir um framlög til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða - C1

Málsnúmer 2311079Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur, dagsettur 9. nóvember 2023, frá framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra þar sem tilkynnt er að búið sé að opna fyrir umsóknir um framlög til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða. Framlögin eru veitt á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036.
Umsóknarfrestur er til miðnættis mánudagsins 22. janúar 2024.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að undirbúa umsóknir í sjóðinn.

5.Umsókn um rekstur sundlaugarinnar á Sólgörðum

Málsnúmer 2311071Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn um endurnýjun samnings, dagsett 8. nóvember 2023, um rekstur sundlaugarinnar á Sólgörðum frá 1. janúar 2024 til 31. desember 2026 frá Sótahnjúki ehf.
Byggðarráð samþykkir að boða umsækjendur til fundar.

6.Fundarboð frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis 17. nóvember

Málsnúmer 2311110Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur, dagsettur 13. nóvember 2023, frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis þar sem fulltrúar frá sveitarfélaginu Skagafirði eru boðaðir til fundar með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Fundurinn verður haldinn 17. nóvember 2023 kl 9 þar sem fjallað verður um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að tilkynna þátttakendur frá byggðarráði inn á fundinn.

7.Gjaldskrá íþróttamannvirkja 2024

Málsnúmer 2310027Vakta málsnúmer

Lögð fram gjaldskrá íþróttamannvirkja fyrir árið 2024, sem vísað var til byggðarráðs frá 17. fundi félagsmála- og tómstundanefndar þann 1. nóvember 2023.
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána með áorðnum breytingum og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

8.Gjaldskrá fráveitu og tæmingu rotþróa 2024

Málsnúmer 2310017Vakta málsnúmer

Lögð fram gjaldskrá fráveitu- og tæmingu rotþróa fyrir árið 2024, sem vísað var til byggðarráðs frá 19. fundi umhverfis- og samgöngunefndar þann 9. nóvember 2023.
Byggðarráð samþykkir framlagða gjaldskrá og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

9.Umsagnarbeiðni; Þingsályktunartillaga um Alexandersflugvöll sem varaflugvöll fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-,Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll

Málsnúmer 2311095Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 10. nóvember 2023 frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis þar sem umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um Alexandersflugvöll sem varaflugvöll fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar-, og Egilsstaðaflugvelli, 127. mál. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist berist eigi síðar en 24. nóvember nk.
Byggðarráð fagnar þingsályktunartillögunni og áréttar að sveitarfélagið Skagafjörður hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á uppbyggingu Alexandersflugvallar sem varaflugvallar vegna góðra lendingarskilyrða og landfræðilegrar legu flugvallarins. Það er óumdeilt að lendingarskilyrði á vellinum eru með því besta sem gerist á landinu. Þeir dagar þar sem völlurinn lokar vegna veðurskilyrða eru fátíðir og slíkt myndi heyra til undantekinga með bættum vallarbúnaði. Jafnframt er ljóst að uppbygging vallarins myndi hafa veruleg jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi öllu. Þá má benda á í ljósi mögulegs eldsumbrotatímabils sem gæti varað næstu áratugi á Reykjanesskaga að það er þjóðhagslega mikilvægt og brýnt til að tryggja öryggi í millilandaflugi að bæta aðstæður á Alexandersflugvelli og byggja hann upp sem varaflugvöll. Hann gæti sem slíkur þjónað bæði farþegaflugi og flugfrakt komi upp alvarlegt rof á samgöngur til og frá Keflavíkurflugvelli.

10.Samráð; Landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Málsnúmer 2311081Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 9. nóvember 2023 þar sem félags- og vinnumálaráðuneyti kynnir til samráðs mál nr. 230/2023 „Landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks“.
Umsagnarfrestur er til og með 23. nóvember 2023.

11.Samráð; Áform um lagasetningu um breytingu á ýmsum lögum vegna þjóðlendna (starfslok óbyggðanefndar o.fl

Málsnúmer 2311094Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 10. nóvember 2023 þar sem forsætisráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 231/2023 „Áform um lagasetningu um breytingu á ýmsum lögum vegna þjóðlendna (starfslok óbyggðanefndar o.fl.)“.
Umsagnarfrestur er til og með 20. nóvember 2023.

12.Samráð; Grænbók í málefnum innflytjenda og flóttafólks

Málsnúmer 2311102Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 10. nóvember 2023 þar sem félags- og vinnumálaráðuneyti kynnir til samráðs mál nr. 232/2023 „Grænbók í málefnum innflytjenda og flóttafólks“.
Umsagnarfrestur er til og með 8. desember 2023.

Fundi slitið - kl. 16:00.